Fara í efni

ÚTGÁFUTEITI: Fyrsta bókin í bókaflokki um Mórúnu, Í skugga Skrattakolls kemur út í dag

ÚTGÁFUTEITI: Fyrsta bókin í bókaflokki um Mórúnu, Í skugga Skrattakolls kemur út í dag

Af því tilefni verður efnt til útgáfuteitis í verslun Eymundsson við Skólavörðustíg frá kl. fimm til sjö í dag.

Davíð mun lesa upp úr bókinn og árita.

 

Eymundsson býður bókina á tilboði í tilefni af því.

Þér er boðið.

 
Sagan er ætluð öllum unnendum fantasíubókmennta, ekki síst ungmennum. Í yfirstandandi þjóðarátaki um læsi er vert að benda á að saga Davíðs er frumsamin á kjarngóðri íslensku og bregður höfundur fyrir sig ríkulegu orðfari. Allar aðalpersónur bókarinnar eru flottar og sterkar kvenhetjur.
 

 

 

 

 

 

 

 

Mórún – Í skugga Skrattakolls / sýnishorn:

            Þegar vagninn nam staðar og Mórún steig úr honum sá hún sér til mikillar furðu að hún var í kastalagarði. Hún hafði ekki gert sér grein fyrir að í Lognskógi leyndist svo stór kastali.

            Heljarmennið vísaði henni á opnar dyr.

            “Murta Jaka bíður þín í Bergsalnum.”

            Mórún gekk ákveðnum skrefum inn um dyrnar. Inni var skuggsýnt, en þarna var greinilega hátt til lofts og vítt til veggja. Þakið hvíldi á háum , grófum súlum sem líktust einna helst stuðlabergi. Á víð og dreif loguðu elder í eldstæðum. Þetta var hálfóhugnanlegt, salurinn minnti meira á einhverskonar vítishelli en salarkynni í kastala. Hvergi var neinn að sjá.

            Þá heyrði hún undarlegt hljóð yfir höfði sér, líkast því að krafsað væri í grjót. Þegar hún leit upp sá hún skugga á hreyfingu. Undarleg vera stökk á milli bergsúlnanna liðug eins og apaköttur. Mórún hafði allan vara á sér. Hún var vopnlaus. Hafði hún gengið beint í gildru? Ef í nauðirnar ræki gæti hún varið sig með göldrum, en ef andstæðingur hennar væri fullgild norn myndi hún ekki hafa roð við henni.

            Skyndilega stökk veran niður á gólfið og stóð beint fyrir framan hana. Mórúnu rann kalt vatn milli skinns og hörunds.

            Þetta var drýsill.

            Hann stóð á fjórum fótum, teygði úr leðurkenndum vængjunum á bakinu og reigði hreistraða álkuna til hennar. Hvassar vígtennurnar bæði í efri og neðri kjálka minntu helst á flugbeitta rýtinga. Klærnar á hverjum fæti myndu rífa hana á hol eins og hverja aðra fatadruslu ef það hvarflaði að þessari ófreskju. Hægum skrefum fikraði dýrið sig til hennar og virti hana fyrir sér.

            Það var ekki til neins að flýja. Drýsillinn myndi ná henni í einu stökki. Snöggar hreyfingar væru líklegar til að gera honum hverft við. Mórún afréð því að ráðlegast væri að standa grafkyrr og treysta á örlögin.

            Hægt og rólega skreið drýsillinn að henni og virti hana fyrir sér. Hann gerði sig ekki líklegan til að ráðast á hana og þegar hann var í seilingarfjarlægð frá henni nam hann staðar. Þannig horfðust þau í augu stundarkorn.

            Frekar en að gera ekki neitt ákvað Mórún að rétta fram aðra höndina og klappa skepnunni varlega á kollinn.

            Drýsillinn virtist láta sér það vel líka.

            “Fyrirtak,” var þá sagt hrjúfum rómi fyrir aftan hana. “Mórún Hróbjarts, bogliðaforingi, bregst ekki væntingum.”

            Mórún leit við.

            Þarna stóð eldgömul og hrum kerling í skósíðri, biksvartri kápu. Hún var með barðastóran, oddmjóan hatt á höfði, studdi sig við staf og brosti svo skein í gular skögultennur. Hún var mennsk.

            “Flestir verða logandi hræddir við það eitt að sjá Púka litla og taka til fótanna,” sagði herfan.

            “Sem ég vænti að sé óráðlegt,” sagði Mórún eins og hún léti sér fátt um finnast og það væri hversdagslegur viðburður fyrir hana að standa augliti til auglitis við ófreskjur úr fjarlægum vítisrangölum.

            “Afar óráðlegt,” sagði kerlingin. “Þá heldur hann að þú sért leikfang og hremmir þig á augabragði.”

            Sú gamla staulaðist til Mórúnar og drýsilsins. Þegar hún hreyfði sig sá Mórún að hún var jafnvel enn ellihrumari en henni hafði virst í fyrstu. Það var eins og visinn skrokkur hennar héngi saman á þrjóskunni einni. Murta sá hvað hún var að hugsa.

            “Aldurinn segir til sín,” sagði hún og klappaði drýslinum á kollinn eins og hann væri spakur kjölturakki. “Jafnvel þótt maður sé norn. Trúðu mér, ef ég væri jafnung og spræk og hér áður hefði ég ekki gert boð eftir þér. Ég hefði stokkið á þetta tækifæri sjálf.”

            “Þú ert Murta Jaka, vænti ég,” sagði Mórún.

            “Já, fyrirgefðu að ég skyldi ekki byrja á að kynna mig,” sagði kerlingin. “En mér lék forvitni á að kkomast að því hvort orðið sem af þér fer væri rétt. Svo ég ákvað að bregða yfir mig huliðshjúpi og fylgjast með því hvernig þú brygðist við Púka litla.”

            “Og ef ég hefði tekið til fótanna?”

            “Ég hugsa að ég hefði komið þér til bjargar”, sagði Murta.

            “Hefðirðu lagt álög á gæludýrið þitt mín vegna?”

            Kerlingin hristi höfuðið. “Drýslar eru með öllu ónæmir fyrir göldrum. Ég hefði aðeins getað hastað á hann.” Aftur strauk hún skepnunni blíðlega um sótsvartan hausinn. “Ég hefði reynt að bjarga lífi þínu, en ég get ekki ábyrgst að mér hefði tekist það. Hitt get ég ábyrgst að ég hefði ekki boðið þér starfið.”

Um höfundinn:

Davíð Þór Jónsson er fyrir löngu orðinn landsþekktur skemmtikraftur (Radíus bræður/Kátir piltar) og pistlahöfundur.

Davíð hefur líka þýtt leikrit, skáldsögur og söngtexta fyrir söngleiki auk þess að þýða fyrir sjónvarp.  Hann hefur samið vinsæl dægurlög og texta, sent frá sér tvær ljóðabækur fyrir börn, Jólasnótirnar 13 og Vísur fyrir vonda krakka auk vísindaskáldsögunnar Orrustan um Fold. Þá hefur Davíð leikið í fjölda leikrita, kvikmynda og sjónvarpsþátta.

Davíð er fæddur 5. janúar 1965 í Reykjavík en sleit barnsskónum að mestu í Hafnarfirði.

Hann varð stúdent frá Flensborgarskólanum árið 1985 og lauk embættisprófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands árið 2011. Hann var skipaður í embætti héraðsprests í Austurlandsprófastsdæmi frá og með 1. nóvember 2014 en áður hafði hann unnið að æskulýðsmálum í prófastsdæminu á vegum kirkjunnar.