Fara í efni

Getum við haft áhrif á krabbamein?

Getum við haft áhrif á krabbamein?

Hægt er að rekja stóran hluta krabbameina í ristli og endaþarmi og í brjóstum til mataræðis, hreyfingaleysis og áfengisdrykkju

 

Ný rannsókn frá Bretlandi sýnir útreikninga á hversu mikið er hægt að tengja ýmsa heilsuhegðun við tvö af algengustu krabbameinunum sem greinast í dag. Annars vegar er um að ræða tölfræðigreiningu úr fyrri rannsóknum á áhættuþáttum sem Alþjóðakrabbameinsrannsóknarsjóðurinn hefur skilgreint að auki eða dragi úr líkum á að greinast með krabbamein í ristli og endaþarmi og í brjóstum. Hins vegar er um að ræða upplýsingar um um neyslu og hreyfingu fullorðinna Breta.

Það skal tekið fram að einungis er hægt að framkvæma svona útreikninga út frá stórum hópum og ekki hægt að heimfæra fyrir einstaklinga sem þýðir að það er oftast nær ekki hægt að segja hvað hefur valdið krabbameini hjá hverjum einstaklingi fyrir sig enda oftast um samspil margra þátta að ræða. Þessir útreikningar eru hins vegar mikilvægir til að sýna hvað aðgerðir og breytingar á lifnaðarháttum á landsvísu geta haft mikil áhrif á fjölda krabbameinstilvika seinna meir. Þetta hefur til að mynda sýnt sig fyrir reykingar þar sem tíðni daglegra reykinga á Íslandi var 50% árið 1970, tæplega 30% árið 1991 og 10% árið 2020 og er þessi þróun fyrst núna farin að hafa áhrif til lækkunar á nýgengi krabbameins í lungum.

Samkvæmt áðurnefndri rannsókn var hægt að rekja um 67% tilvika ristilkrabbameins til lifnaðarhátta hjá körlum og 60% hjá konum. Ef reykingar voru teknar út úr jöfnunni var hægt að rekja 61% tilvika til lifnaðarhátta hjá körlum og 52% hjá konum. Munur milli kynja tengist að stórum hluta því að lifnaðarhættir geta verið ólíkir hjá körlum og konum. Hlutfall hvers þáttar var eftirfarandi:

  • Hreyfingarleysi – 7% hjá körlum og 5% hjá konum
  • Hár líkamsþyngdarstuðull – 13% hjá körlum og 6% hjá konum
  • Áfengisnotkun – 13% hjá körlum og 2% hjá konum
  • Unnar kjötvörur – 15% hjá körlum og 9% hjá konum
  • Rautt kjöt – 9% hjá körlum og 7% hjá konum
  • Skortur á trefjum – 25% hjá körlum og 32% hjá konum
  • Skortur á kalki – 7%  hjá körlum og 7% hjá konum

Samkvæmt  rannsókninni var hægt að rekja um 27% tilvika brjóstakrabbameins til lifnaðarhátta hjá konum og hlutfall hvers þáttar var eftirfarandi:

  • Hár líkamsþyngdarstuðull – 8%
  • Áfengisnotkun – 8%
  • Hreyfingarleysi – 8%
  • Lítil neysla á ávöxtum og grænmeti – 7%

Á Íslandi er krabbamein í ristli og endaþarmi annað algengasta krabbameinið meðal karla og þriðja algengasta meinið hjá konum. Brjóstakrabbamein er algengasta meinið meðal kvenna. Á árunum 2015 til 2019 greindust að meðaltali 422 einstaklingar á ári með þessar tvær gerðir meina. Með því að fylgja ráðleggingum embættis landlæknis um mataræði Opnast í nýjum glugga og hreyfingu sem og halda áfengisnotkun í lágmarki eða hætta henni er hægt að minnka krabbameinsáhættu þjóðarinnar en þessir þættir tengjast einnig fleiri tegundum meina en voru til skoðunar í umræddri rannsókn. Til að mynda er áfengisnotkun líka staðfestur áhættuþáttur fyrir krabbamein í munni, koki og barkakýli, vélinda, lifur og maga. Ekki eru þekkt mörk um skaðleysi áfengis og því skiptir miklu máli að halda áfengisdrykkju í lágmarki eða sleppa m.t.t. krabbameinsáhættu.

Það sama gildir um aðra lifnaðarhætti eins og neyslu trefja sem finna má í ávöxtum, grófu grænmeti, heilkornavörum (t.d. haframjöl, bygg og heilhveiti), hnetum, fræjum og belgjurtum. Dagleg neysla þeirra hefur margvísleg jákvæð áhrif á heilsuna og getur dregið úr áhættu á ýmsum krabbameinum og þá sérstaklega krabbameini í ristli og endaþarmi.

Það þarf ekki að gera miklar breytingar á heilsuhegðun til að minnka líkur á
langvinnum sjúkdómum eins og krabbameinum og aldrei er of seint að gera slíkar breytingar.
Hægt er að finna frekari upplýsingar á eftirtöldum vefsíðum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnun – Alcohol and Cancer 

Alþjóðakrabbameinsrannsóknarsjóðurinn – Diet and Cancer Report

 

Nánari upplýsingar veita 

Jóhanna E. Torfadóttir
verkefnisstjóri næringar  

Rafn M. Jónsson
verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna