Fara í efni

Grindarbotninn

Verkir og vandamál í mjaðmagrind og grindarbotni eru algeng á meðgöngu. Þau geta einnig verið til staðar eftir meðgöngu, hvort sem þau byrjuðu á meðgöngunni eða komu til í eða eftir fæðingu.
Verkir og vandamál í mjaðmagrind og grindarbotni
Verkir og vandamál í mjaðmagrind og grindarbotni

Verkir og vandamál í mjaðmagrind og grindarbotni eru algeng á meðgöngu. Þau geta einnig verið til staðar eftir meðgöngu, hvort sem þau byrjuðu á meðgöngunni eða komu til í eða eftir fæðingu. 

Grindarbotnsvöðvarnir eru eins og skál þar sem dýpsti hlutinn er í kringum endaþarminn.  Þeir eru botninn á kviðarholinu en þindin er þakið.  Hjá konum eru þrjú göt á grindarbotninum, í kringum þvagrás, leggangaop og endaþarm en hjá karlmönnum eru þau tvö.  Utan um þessi göt eru hringvöðvar sem stjórna opnun þeirra.  Botninn á vöðum grindarbotnsins nær svo frá rófubeini fram að lífbeini.  Þessir vöðvar eru stöðugleikavöðvar fyrir mjaðmagrindina og vinna með dýpsta kviðvöðvanum og dýpsta mjóbaksvöðvanum þannig að ef við spennum einn þeirra eiga hinir að spennast með. Þannig vinna grindarbotnsvöðvarnir einnig sem stöðugleikavöðvar fyrir mjóbakið.

Konur (og karlmenn) geta fengið verki og önnur vandamál á þessi svæði án þess að hafa gengið með börn. Slík vandamál geta átt sér ýmsar orsakir. Eitt dæmi er ákverkar eftir slys t.d. bílslys eða slæmt fall. Annað dæmi er sjúkdómar eða vandamál í grindarholi t.d. fjölblöðrueggjastokka heilkenni, krabbamein o.fl. Þriðja dæmið eru t.d. áverkar sem geta hafa komið eftir erfiða kynlífsreynslu, sár sem myndast hefur á svæðinu eða annað því tengt.

Hver sem orsökin er þá lýsa þessi vandamál sér oft í miklum verkjum, vandamálum tengdum losi á þvagi og hægðum, sigi á grindarholslíffærum og minni ánægju af kynlífi.  Grindarbotnsvöðvana getur vantað styrk en einnig getur verið um styttingar að ræða í þeim eða bandvef á þessu svæði.  Þó það hljómi ótrúlega þá geta þessi vandamál verið til staðar samtímis.

Hvað er til ráða? Mikilvægt er að fá skoðun og greiningu hjá lækni og sjúkraþjálfara sem hefur sérhæft sig í vandamálum á þessu svæði.  Stundum þarf að byggja upp styrk í  grindarbotnsvöðvunum, en þó svo að vöðvana geti vantað styrk og liðbönd séu mögulega of slök, geta þeir líka verið stuttir og þá þarf að byrja á að vinna með það. Þá er aðallega unnið með slökun, öndunaræfingar, teygjur og líkamsstöðu.  Aðra þætti sem snúa að svæðinu í kring þarf auðvitað einnig að skoða s.s. stöðu mjaðmagrindar, hreyfanleika liðamóta á svæðinu og þá vöðva sem sjá um hreyfingar á þessu svæði.  Einnig þarf oft að vinna með nudd á stífa vöðva og raförvun ef lítil tilfinning er fyrir samdrætti í grindarbotnsvöðvunum.

Vandamál á þessu svæði er oft viðkvæmt og mikið feimnismál hjá fólki. Í sumum tilfellum þarf einnig að vinna með andlega líðan því hún getur verið stór þáttur í þessum vandamálum.

Sólrún Sverrisdóttir, Sjúkraþjálfari hjá Gáska sjúkraþjálfun www.gaski.is