Fara í efni

Heilsa og heilbrigðisþjónusta á Íslandi í samanburði við ríki OECD

Skýrsla OECD, Health at a glance 2015, kom út nýlega. Hún sýnir samanburð á heilsu, áhrifaþáttum heilsu og heilbrigðisþjónustu í aðildarlöndum OECD árið 2013. Almennt séð kemur Ísland vel út í samanburði við aðrar þjóðir í skýrslunni.
Heilsa og heilbrigðisþjónusta á Íslandi í samanburði við ríki OECD

Skýrsla OECD, Health at a glance 2015, kom út nýlega. Hún sýnir samanburð á heilsu, áhrifaþáttum heilsu og heilbrigðisþjónustu í aðildarlöndum OECD árið 2013.

Almennt séð kemur Ísland vel út í samanburði við aðrar þjóðir í skýrslunni.

Sérstaklega er ánægjulegt að sjá niðurstöður um ævilengd karla og kvenna, ungbarnadauða og ungbarnavernd ásamt mæðravernd. Þá eru ánægjulegar niðurstöður varðandi neyslu á tóbaki og áfengi. Ísland er ofarlega í samanburðinum þegar um er að ræða mönnun í heilbrigðiskerfinu, fjölda legurýma og tækjavæðingu og í meðallagi hvað varðar fjármagn til heilbrigðismála á hvern íbúa.

Hins vegar er hlutfall heilsugæslulækna þó nokkru lægra á Íslandi (16%) en meðaltal annarra OECD ríkja (29%). Það er umhugsunarvert í ljósi umræðu um hve erfiðlega hefur gengið að manna stöður heilsugæslulækna, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, og í ljósi þess hve meðalaldur heilsugæslulækna á Íslandi er hár.

Nokkrir þættir eru áhyggjuefni og má þar nefna aðgengi að heilbrigðisþjónustu, sem ákvarðast annars vegar af því hversu stóran hlut sjúklingar greiða sjálfir fyrir þjónustuna og hins vegar af því að hve miklu leyti þarfir sjúklinga fyrir þjónustu eru uppfylltar. Í þessu efni er Ísland í neðsta þriðjungi meðal OECD ríkja. Önnur áhyggjuefni eru vaxandi vandamál varðandi offitu, sérstaklega fullorðinna, og einnig minni þátttaka í bólusetningum barna en í nágrannalöndunum.

Gæði heilbrigðisþjónustunnar

Hvað varðar gæði heilbrigðisþjónustu er Ísland í flestum tilvikum í meðallagi og þegar litið er á gæðavísa varðandi einstaka sjúkdóma er Ísland oftast í kringum meðallag með fáum undantekningum, t.d. varðandi leghálskrabbamein þar sem góður árangur hefur náðst.

Hvað varðar ávísanir á lyf liggur Ísland yfirleitt á röngum stað miðað við meðaltal. Notkun þunglyndislyfja er áhyggjuefni, svo og ávísanir á sýklalyf. Þunglyndislyfjum er ávísað hér á landi í helmingi meira magni en að meðaltali í OECD löndunum. Þá eru ekki meðtalin lyf við ADHD þar sem við erum einnig í fararbroddi miðað við nágrannalöndin.

Ástæða er til að spyrja sig þeirrar spurningar hvort þetta stafi af því að Íslendingar séu öðru vísi en aðrar þjóðir eða hvort þetta geti að einhverju leyti stafað af vanköntum í heilbrigðiskerfinu. Ein augljós skýring gæti t.d. verið að meðferðarúrræði hér á landi eru af skornum skammti þar sem sálfræðiþjónusta er ekki niðurgreidd til jafns við lyfjanotkun.


Slæm og góð tíðindi

Niðurstöður skýrslunnar eru athyglisverðar, sérstaklega þegar þær eru túlkaðir með tilliti til þess hvaða þættir hafa mest áhrif á ævilengd og lífsgæði. Samkvæmt niðurstöðum nýlegra rannsókna er ævilengd þjóða talin ráðast af eftirfarandi áhrifaþáttum:

  1. Lífsstíl 40%
  2. Félags- og efnahagslegum þáttum 30%
  3. Heilbrigðiskerfi 20%
  4. Öðrum þáttum, svo sem húsnæði, öryggismálum o.s.fv. 10%

Skýrslu OECD má því túlka svo að Ísland standi vel að vígi í áhrifaþáttum 1, 2 og hugsanlega 4 en sé ekki eins vel á vegi statt í þáttum sem stýrast af 3, nefnilega heilbrigðiskerfinu. Þrátt fyrir að við séum með góðan mannafla, fjölda sjúkrarúma í meðallagi og vel tækjum búin virðist heilbrigðiskerfið ekki skila þeim árangri sem við getum vænst.

Þetta eru bæði slæm og góð tíðindi, slæm vegna þess að heilbrigðiskerfi okkar er ekki jafn skilvirkt og við viljum oft vera láta, góð vegna þess að við höfum möguleika á því að bæta okkur stórlega með því að huga betur að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og jafnframt taka alvarlega þau aðvörunarmerki sem við fáum um lífsstíl (mataræði og hreyfingu), forvarnir (bólusetningar barna) og lyfjanotkun.

Í því sambandi má benda á að þótt unnið sé ötullega að ýmsum þörfum verkefnum í heilbrigðiskerfinu hefur fjármagn til heilbrigðisþjónustu haldið áfram að færast til þjónustu sem stýrist af samningum Sjúkratrygginga Íslands og sérgreinalækna, fjármagn sem, rétt notað, hefði getað farið til forgangsverkefna, svo sem heilsugæslu, sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni og uppbyggingar nýs háskólasjúkrahúss.

Embætti landlæknis hefur af því áhyggjur að þetta geti leitt til þess að gæði og öryggi íslenskrar heilbrigðisþjónustu muni versna enn frekar og að við munum eiga í erfiðleikum með að fá hingað hæft starfsfólk sem nú er við störf í öðrum löndum. 

Nánar er fjallað um skýrsluna Health at a Glance í nýjasta tölublaðiTalnabrunns, fréttabréfi landlæknis um heilbrigðisupplýsingar.

Birgir Jakobsson
landlæknir