Heilsuvefsíðan Heilsutorg.com var opnuð með viðeigandi hætti í World Class
Fríða Rún Þórðardóttir næringarfræðingur hélt stutta ræðu þar sem hún rakti söguna á bak við Heilsutorg.com, fyrir hvað vefsíðan stendur og hverjir hafa komið að gerð hennar síðan í febrúar þegar eiginleg vinna hófst. Stefna hugbúnaðarhús hefur haft veg og vanda að gerð vefsíðunnar ásamt Tómasi Hilmari Ragnars framkvæmdastjóra Heilsutogs og fengu þeir allir verðskuldað hrós fyrir sína vinnu. Fríða Rún ræddi um hinar frábæru viðtökur sem þau hefðu fengið frá þeim fagaðilum sem leitað hefur verið til vegna greina- og pistlaskrifa og hversu fjölbreytilegur og góður sá hópur er.
Geir Gunnlaugssyni var þakkað sérstaklega fyrir að koma og vera við opnunina en ekki síður fyrir þann styrk sem Lýðheilsusjóður Landslæknisembættisins veitti haustið 2012, styrkur sem kom sér vel í byrjun verkefnissins og til að hrinda því úr vör. Birni K. Leifssyni og Hafdísi Jónsdóttur í World Class var einnig þakkaður velviljinn í þágu þessa verkefnis. Ragnari Ómarssyni matreiðslumanni á Hilton og félögum hans var að lokum þakkað fyrir frábærar veitingar og þjónustu.
Teitur Guðmundsson læknir flutti tölu um mikilvægi slíks miðils fyrir okkur öll, óháður miðill sem fólk getur treyst og fagaðilar geta bent á sem áreiðanlegan upplýsingamiðil.