Fara í efni

Hindberjaketóns - kraftaverk eða kjaftæði?

Hvað eru hinberjaketóns?
Kraftaverk eða kjaftæði ?
Kraftaverk eða kjaftæði ?

Hvað eru hinberjaketóns?

Hindberjaketóns eru náttúrulega til staðar í rauðum hindberjum og er það efni sem gefur þeim sína einstöku lykt. Þá er einnig að finna í öðrum ávöxtum t.d kíví. Það er ekki fyrr en nýlega að farið var að nota hindberjaketóns í annað en ilmvötn. Nú er hinsvegar komið á markað fæðubótarefni með hindberjaketóns sem á að hjálpa til við þyngdartap. Það hefur meira að segja gengið svo langt að vera kallað kraftaverkalyf. Hindberjaketóns er að finna í mjög litlu magni í hindberjum en innihaldsefnið í þeim fæðubótarefnum sem eru á markaði er efnafræðilega búið til. 

Heilsufullyrðingar

Samkvæmt ýmsum auglýsingum á hindberjaketóns fæðubótarefnum, þá er staðhæft að með reglulegri notkun ásamt heilsusamlegu fæði og hreyfingu þá geti þeir stuðlað að aukinni orku, fitubrennslu og minnkað matarlyst.

,,Raspberry Ketons er andoxunarríkt dúndurefni sem sýnt hefur að hjálpi til við fitubrennslu. Flestir finna árangur á 2 vikum en aðrir þurfa að taka inn efnið í 3-4 vikur meðan verið er að virkja kerfið“.

Þegar vísindarannsóknir eru skoðaðar þá sést hinsvegar að sönnunarbirgði í slíkum fullyrðingum eru óskýr og blekkjandi.

Hvað segja vísindin?

Fáar rannsóknir hafa skoðað áhrif hindberjaketóns á þyngdartap, og einungis ein rannsókn verið framkvæmd (að höfundi vitandi) sem kannar áhrif á mannfólk. Sú rannsókn stóð yfir í 8 vikur og voru þátttakendur 70 talsins, allir í ofþyngd en að öðru leiti hraustir. Þeim var skipt í tvo hópa og fékk annar hópurinn fæðubótarefni með ýmsum innihaldsefnum. Þar á meðal hindberjaketóns, koffín, capasaicin, hvítlauk og engifer. Hinn hópurinn fékk svokallaða lyfleysu. Hreyfing (3x 60 mín bootcamp æfingar á viku) og fæði (500 hitaeiningar minna á dag en þeirra orkuþörf) var eins hjá báðum hópum.

Þátttakendur í fæðbótarhópnum misstu að meðaltali meira af upprunarlegri þyngd á þeim 8 vikum sem rannsóknin fór fram. En vegna þess að fæðubótarefnið innhélt blöndu ýmissa innihaldsefna þá er erfitt að sanna að hindberjaketóna einir og sér hafi haft þessi áhrif á þyngdartap þátttakenda. Sér í lagi vegna þess að ekki er vitað hversu mikið magn hindberjaketóns var til staðar í upphafi.  

Aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið á hindberjaketóns (sem eru fáar) hafa annað hvort verið gerðar á rottum, músum eða í tilraunaglösum. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á öryggi, hentugum skammtastærðum eða hversu áhrifaríkir hindberjaketónar í fæðubótarformi eru ef hitaeiningar eru ekki minnkaðar og hreyfing er aukin á sama tíma.

Hvað er þá ráðlagt?

Þar sem einungis ein rannsókn hefur sýnt fram á þyngdartap með því að innbirgða fæðubótarefni með hindberjaketóns og öðrum innihaldsefnum (ásamt hreyfingu og minni hitaeininganntöku), þá ráðlegg ég ykkur að spara ykkur pening og sleppa því að kaupa hindberjaketóns í fæðubótarformi. Eins og staðan er í dag þá er niðurstaðan sú að hindberjaketóns fæðubótarefni eru alls ekki það kraftaverkalyf sem hefur verið haldið fram.

Áróra Rós Ingadóttir 
Næringarfræðingur M.Sc / Nutritionist M.Sc 
Ph.D nemi í næringarfræði / Ph.D student in nutrition