Fara í efni

Hjartaheilsa kvenna okkar hjartans mál

Barbara H. Roberts rithöfundur
Barbara H. Roberts rithöfundur

Barbara H. Roberts frægur bandarískur hjartalæknir, sem helgað hefur sig forvörnum, greiningu og meðferð á hjartasjúkdómum kvenna, talaði í kvöld fyrir fullum sal á Hilton Reykjavík Nordica. Erindið var haldið í nafni Hjartaverndar, Hjartaheilla og Heilaheilla, en GoRed á Íslandi, Hjartamiðstöðin, Icelandair og Icelandair hotels lögðu sitt lóð á vogarskálarnar til að gera viðburðinn að veruleika.  Axel F. Sigurðsson hjartalæknir og einn eigandi Hjartamiðstöðvarinnar var fundarstjóri af stakri fagmennsku eins og honum er lagið. 

Fyrirlestur Barböru bar heitið „How to keep from breaking you heart: What every woman needs to know about cardiovascular disease“ og var langstærstur hluti áheyrenda konur sem sýnir að íslenskar konur eru áhugasamar um eigin heilsu og hvernig þær geta verndað hana sem best. 

Barbara hóf erindið á að tala um hvernig hjarta og æðasjúkdómar hafa verið nokkurs konar „karlasjúkdómar“ í gegnum áratugina en það hefur breyst og rannsóknir á hjartasjúkdómum kvenna og í kjölfarið þekking og eftirlit með konum gagnvart þessum vágesti hefur aukist til muna. Hún talaði um uppbyggingu hjartans og hvernig það starfar en leiddi síðan talið að því hvernig stuðla mætti að góðri hjartaheilsu með forvörnum og heilsusamlegu líferni.

Hún fór yfir hvað væri æskilegur blóðþrýstingur, 130/85, og hvaða áhrif það hefði á æðaveggina ef að blóðþrýstingur væri viðvarandi of hár. Einnig hvernig þrengingar í æðum eiga sér stað og hvaða áhrif það hefur á heilsuna.

Barbara hvetur konur og karla til að hreyfa sig reglulega en einnig að hafa ekki of miklar áhyggjur af því ef að miklar kyrrsetur fylgja daglegum störfum, reyna þess í stað að standa reglubundið upp, nota stigana á milli hæða og leggja bílnum aðeins fjær t.d. vinnustað og verslunum. Barbara leggur mikið upp úr því að konur stundi styrktarþjálfun eftir tíðahvörf til að draga úr hættu á beinþynningu.

Hvað mataræðið varðar er Barbara mjög fylgjandi Miðjarðarhafsmataræðinu og heilsusamlegum áhrifum þess, eins og Axel F. Sigurðsson og hann ritar um á www.mataraedi.is og Teitur Guðmundsson læknir sem ritar í Fréttablaðið,  www.heilsutorg.com og www.doctor.is

Barbara lagði áherslu á það að kólesteról í blóði væri að mestu leiti ákvarðað af erfðum en að mettuð fita og transfita væri sú fita sem halda þyrfti í lágmarki til að stuðla að æskilegri samsetningu blóðfitunnar og sporna gegn hækkun á þríglýseríðum. Það er slæmt ef að LDL og VLDL er hátt en það er sínu verra þegar góða kólesterólið, HDL kólesteról, er mjög lágt. Barabara benti á að 2-3 msk. af olífuolíu væru gott ráð við of lágu HDL kólesteróli. Omega 3 fitusýrur eru mikilvægar gegn bólgum í líkamanum og bendir Barbara sérstaklega á omega-3 fitusýrur út sjávardýrum og að 3-4 g á dag sé æskilegt magn.

Almennt er mælt gegn mikilli kjötneyslu, sér í lagi á rauðu kjöti og fyrir heilsuna sé best að hugsa kjötið sem meðlæti en ekki megin uppistöðuna í máltíðinni.

Barbar talaði ekki um sykur í erindi sínu en svaraði því til þegar spurt var úr sal að mikil neysla á sykri geti ýtt undir bólgur og almennt eigi að forðast að borða eða drekka mikinn sykur. Einnig að neyta sem mest af mat gerðum úr fersku og lítið unnu hráefni. Henni finnst að fólk eigi að huga betur að næringarríkri fæðu en ekki tilbúinni orkuríkri fæðu sem framleidd er í fjöldaupplagi.

Í fyrirspurnartímanum var spurt út í það hvað væri að því að borða eins mikið af próteinum eins og Íslendingar gera, „hvað væri að kjöt“, nú yrðu Íslendingar einna elstir allra í heiminum. Umræðan um þetta fór mikið í að tala um kjöt og að kjötið á Íslandi væri mjög hreint og nánast „organic“ (lífrænt ræktað) en aðra sögu væri að segja um það kjöt sem bandarískum neytendum væri boðið upp á. Hins vegar bar mjólkurvörunar ekki á góma en vitað er að stór hluti þeirra próteina sem við Íslendingar neytum, kemur úr mjólkurvörum.

Barbara talaði aðeins um „statin“ lyf og áhrif þeirra á líkamann og að læknar sem væru með sjúkling á „statin“ lyfjum gegn of háu kólesteróli þyrftu að fylgjast gaumgæfilega með þeim.

Að lokum benti Barbara á eftirfarandi bækur og vefsíður um þetta lífsnauðsynlega efnisflokk

„How to keep from breaking you heart: What every woman needs to know about cardiovascular disease“

www.womensheart.org

www.nlm.nih.gov/medlineplus/heartdiseaseinwomen.html

Fríða Rún Þórðardóttir, Næringarfræðingur