Fara í efni

Hjartsláttur og blóðþrýstingur, hvað er rétt og hvað ekki

Hjartasérfræðingurinn Dr. Michael Faulx skoðaði sannleiksgildi nokkurra hluta sem haldið hefur verið á lofti í gegnum tíðina hvað varðar blóðþrýsting og hjartslátt. Hér má finna hvað er rétt og hvað ekki í þessum efnum.
Hjartsláttur
Hjartsláttur

Hjartasérfræðingurinn Dr. Michael Faulx skoðaði sannleiksgildi nokkurra hluta sem haldið hefur verið á lofti í gegnum tíðina hvað varðar blóðþrýsting og hjartslátt. Hér má finna hvað er rétt og hvað ekki í þessum efnum.

Í huga margra haldast hjartsláttur og blóðþrýstingur í hendur þar sem hvoru tveggja er yfirleitt skoðað til að athuga lífsmörk. Þegar þetta tvennt er mælt, er aftur á móti verið að skoða tvo mismunandi hluti tengda hjartaheilsunni. Blóðþrýstingur er kraftur blóðsins sem flæðir að æðaveggjunum, en púlsinn er hversu oft hjartað slær á mínútu.

Michael Faulx hjartasérfræðingur hjá Cleveland Clinic útskýrir hér fyrir neðan hver munurinn á hjartslætti og blóðþrýstingi er og skoðar hvort ákveðnar sögusagnir þessu tengdar séu sannar eða ekki.

1.  Blóðþrýstingur og hjartsláttur haldast alltaf í hendur

Ósatt: Það er rétt að hjartsláttur og blóðþrýstingur rís og fellur oft á sama tíma, segir Dr. Faulx. Þetta á til dæmis við þegar við erum í hættu, þá tekur bæði blóðþrýstingur og hjartsláttur stökk upp á við.

Aftur á móti, ef hjartslátturinn rís þá þýðir það ekki endilega að blóðþrýstingurinn geri það líka, eða öfugt. En ef þetta tvennt er algjörlega ótengt, þá getur aftur á móti verið um vandamál að ræða. Dr. Faulx segir að ef til dæmis blóðþrýstingurinn er stöðugt frekar hár, en hjartslátturinn eðlilegur, þá þarf líklega að skoða meðhöndlun við of háum blóðþrýstingi.

2. Það er einhver ein tala sem er „eðlileg“ fyrir hjartslátt og blóðþrýsting

Ósatt: Það eru ákveðin viðmið, en það hvað er eðlilegt er mismunandi milli manneskja.

Ákjósanlegur blóðþrýstingur er yfirleitt talinn vera 120 mm HG (efri mörk, það er þrýstingurinn sem kemur þegar hjartað slær) og 80 mm Hg (neðri mörk, sem er þrýstingurinn þegar hjartað er í hvíld). Þegar hjartað er í hvíld þá er yfirleitt miðað við um 60 til 100 slög á mínútu. Samkvæmt Dr. Faulx þarf samt að hafa í huga að hjartsláttur og blóðþrýstingur er persónubundinn og því mikilvægt að finna út með sínum lækni hvaða grunnlína er eðlileg fyrir hvern og einn.

3. Það að vera „lágur“ í blóþrýstingi eða hjartslætti gefur alltaf til kynna að vandamál sé til staðar

Ósatt: Það sem er hættulegt fyrir eina manneskju getur verið heilbrigt fyrir aðra. Til dæmis getur ung manneskja í góðu formi verið með hvíldarhjartslátt í kringum 50 eða jafnvel 40 og getur það verið merki um að viðkomandi sé í virkilega góðu formi, segir Dr. Faulx.

Lágur blóðþrýstingur getur aftur á móti verið snúinn, sérstaklega hjá eldra fólki og þeim sem eru með hjartasjúkdóm. Ef þú ert í hættu vegna of lágs blóðþrýstings þá mun líkaminn segja þér það. Dr. Faulx segir að það snúist í raun um hvernig þér líður, ef þér finnst þú slappur og veikburða þá getur það verið blóðþrýstingurinn. En tölurnar einar og sér segja ekki alla söguna, það þarf að skoða þær í samhengi við líðan og einkenni hjá viðkomandi.

4. Hár blóðþrýstingur eða hár hjartsláttur er líklegri til að vera hættulegur

Satt: Hér má aftur taka fram að það er mismunandi milli manneskja hvað er „eðlilegt“. En Dr. Faulx segir að það séu nægar klínískar niðurstöður til sem benda til þess að ef blóðþrýstingur er jafnvel bara örlítið hærri en þitt venjulega meðaltal í einhvern tíma, þá hækkar hættan á hjartasjúkdómi og heilablóðfalli. Áhrif hás blóðþrýstings taka sinn toll á æðarnar.

Hækkaður hjartsláttur getur einnig verið merki um hættu, en hver orsök-afleiðing sambandið er í því samhengi er ekki skýrt. Dr. Faulx segir að rannsóknir sýni að fólk sem er almennt með hraðari hjartslátt sé líklegra til að hafa hjarta- og æðavandamál og deyja af völdum þeirra. Það er þó ekki vitað hvort það sé orsök vandans eða bara merki um að hjarta- og æðavandamál sé til staðar.

5. Það skiptir máli hvenær þú mælir blóðþrýsting og hjartslátt

Satt: Samkvæmt Dr. Faulx er ráðlagt að mæla þetta tvennt þegar þú ert í slökun. Það að mæla sig nokkrum sinnum yfir daginn getur einnig verið ráðlagt til að fá meðaltal af mælingunum. Það er ekki gott að mæla sig rétt eftir líkamsrækt, nema viðkomandi sé að leitast eftir að finna grunnlínu fyrir „virkan“ blóðþrýsting og hjartslátt.

Það hvor mælingin er mikilvægari fyrir þig fer eftir heilsu þinni. Fyrir sjúklinga með gáttatif þá er líklega mikilvægara að fylgjast með hjartslætti, en varðandi marga aðra hjartasjúkdóma getur verið mikilvægara að fylgjast með blóðþrýstingi. Til öryggis er best að fylgjast alltaf með hvoru tveggja.

Grein þýdd af síðu Cleveland Clinic.

Hanna María Guðbjartsdóttir

Heimild: hjartalif.is