Holl ráð um kynsjúkdóma
Kynsjúkdómar eru sjúkdómar, sem smitast við kynmök eða aðrar kynlífsathafnir. Hættan á kynsjúkdómum eykst eftir því sem fólk hefur fleiri rekkjunauta.
Kynsjúkdómar eru sjúkdómar, sem smitast við kynmök eða aðrar kynlífsathafnir.
Hættan á kynsjúkdómum eykst eftir því sem fólk hefur fleiri rekkjunauta.
Hægt er að komast hjá flestum kynsjúkdómum með þvi að stunda öruggt kynlíf og hægt er að lækna flesta kynsjúkdóma ef þeir uppgötvast og eru meðhöndlaðir í tæka tíð.
Klamydíu-sýking
- Er algengasti kynsjúkdómurinn og breiðist hraðast út.
- Margir eru smitaðir og fá mjög væg eða engin einkenni sem eykur hættuna á langvarandi sýkingum í eggjaleiðurum og varanlegum skaða á borð við ófrjósemi eða utanlegsfóstur.
- 25% þeirra sem smitast verða ófrjósamir.
- Einkennin eru: Útferð frá lim eða leghálsi. Verkir í móðurlífi. Sviði eða brunatilfinning í kynfærum, sérstaklega við þvaglát.
- Sjúkdómsgreining fæst með því að finna sýkilinn í frumustroki úr þvagrás og leghálsi eða með svokallaðri PCR-tækni.
- Meðhöndlað með sýklalyfjum fyrir hinn smitaða, maka og hugsanlega þriðja aðila. Ráðlegt er að láta athuga sig aftur til öryggis eftir lyfjakúrinn.
Lekandi
- Lekandi er sjaldgæfur hér á landi. Honum veldur baktería, sem auk kynfæra getur einnig sýkt kverkar og endaþarm. Ef sýkingin er látin óáreitt, getur hún valdið ófrjósemi þegar fram í sækir.
- Einkennin eru ýmist gulhvít útferð frá lim og leghálsi eða sviði við þvaglát („pissa rakvélablöðum“) eða einkennalaus.
- Allt að 70% sýktra kvenna eru einkennalausar og geta því haft sjúkdóminn í langan tíma án þess að hann greinist.
- Sjúkdómsgreining fæst með því að finna bakteríuna í prufum úr þvagrás, leghálsi, koki og endaþarmi.
- Meðhöndlað er með sýklalyfjum fyrir hinn smitaða, maka og hugsanlega þriðja aðila. Ráðlegt er að láta athuga sig aftur eftir meðhöndlun.
Herpes genitalis
- Herpes genitalis veldur veiran Herpes simplex (HSV), sem er náskyld veirunni, sem veldur frunsum. Herpes genitalis heldur sig aðallega á kynfærum og við endaþarm, en getur einnig komið fram annars staðar, t.d. í munnholi.
- Fyrstu útbrotin koma jafnan innan viku eftir smit en lengri tími getur liðið. Smithætta er þar til hrúður hefur myndast sem lokar öllum svæðum.
- Sjúkdómseinkennin lýsa sér sem klasar af litlum vessafylltum blöðrum á rauðþrútnu svæði. Kláði og verkir eru í frunsunum, sem betur fer gróa þær án örmyndunar, en því miður er hætt við að þær brjótist út aftur og aftur. Oft fylgir útbrotunum sótthiti, bólgnir eitlar og almenn vanlíðan.
- Sjúkdómsgreining fæst með dæmigerðu útliti útbrotanna en ef vafi leikur á því er veiruna að finna í blöðrunum.
- Engin lækning er við herpes genitalis en hægt er að slá á veiruna með lyfjum, sem stytta tímann, sem útbrotin ganga yfir.
- Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að maður er smitberi framvegis, alla ævi, og að því verður að nota smokk og ekki deila handklæði o.fl. með öðrum
Alnæmi/HIV/AIDS
- Er banvænasti kynsjúkdómurinn og honum veldur veira, sem kallast HIV.
- HIV ræðst á og eyðileggur ónæmiskerfi líkamans. Það þýðir að smitaðri manneskju er afar hætt við sýkingum og getur dáið af sjúkdómum sem hraustu fólki verður ekki meint af.
- HIV er enn útbreiddast meðal homma, tvíkynhneigðra karlmanna og fólks frá Afríku, Asíu og Karíbahafi.
- Sjúkdómurinn sækir fram meðal gagnkynhneigðra, ekki síst ungra ferðalanga. Alnæmissmit er ekkert sérstaklega spennandi minjagripur um sólarfrí á Ibiza eða útilegu um Verslunarmannahelgina.
- Fjöllynt fólk, með marga rekkjunauta og sprautufíklar eru í verulegum áhættuhópum.
- Veiran finnst í likamsvessum, m.a. sæði og legsmurningi og smitast um smáskeinur á kynfærum, sem geta komið við kynmök.
- Einkennin eru margvísleg, sumir fá engin, aðrir fá hita, niðurgang, náttsvita, almenna vanlíðan, bólgna eitla og léttast.
- Sjúkdómsgreining fæst með því að finna HIV-mótefni í blóðinu það finnst yfirleitt ekki fyrr en eftir 6–12 vikur. Því er mikilvægt að fara í alnæmispróf eins fljótt og hægt er eftir að einstaklingur hefur grun um smit, aftur eftir 3 mánuði og jafnvel enn aftur eftir aðra þrjá. Á þessu tímabili má ekki stunda kynlíf nema nota smokk.
- Alnæmi er ólæknandi. En því fyrr, sem sjúkdómurinn greinist, því meiri líkur eru til, að hægt sé að hjálpa.Nú eru til áhrifaríkar leiðir til að bæta lífsgæði smitaðra og lengja líf.
- Sá sem er HIV-jákvæður verður að gæta öryggis í kynlífi. Verður að tilkynna rekkjunaut(um) sínu og þeim/þeirri, sem gæti verið valdur að smitinu, þannig að hann/hún geti breytt kynlífsháttum sínum.
Kynfæravörtur
- Kynfæravörtum veldur veira, sem kallast HPV (Human Papilloma Virus). Veiran hefur áhrif á myndun krabbameins í kynfærum.
- Kynfæravörtur hafa í vaxandi mæli látið á sér kræla en allt að 9 mánuðir geta liðið frá smiti, þangað til vörturnar brjótast fram.
- Vörturnar eru ýmist eins og blómkál í útliti eða flatar, þær koma yfirleitt á kónginn á limnum, á skapabarmana eða við endaþarminn. Fyrir kemur og vart verður við vörtur í munnholi og koki.
- Einkennin geta versnað ef ónæmiskerfið er lélegt, ef kona er barnshafandi eða með sykursýki.
- Með tilliti til þess að vörturnar geta valdið krabbameini í kynfærum og eru bráðsmitandi, er áríðandi að vera ábyrgur í kynlífi.
- Sjúkdómsgreining fæst með dæmigerðu útliti útbrotanna, einnig með því að pensla flötu „ósýnilegu“ vörturnar með 5% ediksýruupplausn, sem sjást þá sem hvít svæði.
- Þeim sem hafa fengið þennan sjúkdóm, getur læknirinn boðið upp á frystimeðferð og penslun með kynfæravörtueitri. Ef þetta er þrálátt, getur viðkomandi fengið tilvísun til húðsérfræðings, sem hefur m.a. leisermeðferð á færi sínu. En það er mikilvægt að gera sér ljóst að meðhöndlunin er langvinn og fullur bati fæst ekki næstum alltaf.
Sýfilis
- Sýfilis (sárasótt) er stórhættulegur bakteríusjúkdómur, sem er algengastur meðal homma. Sem betur fer er hann sjaldgæfur hér á landi. Eftir smit, berst bakterían með blóðrásinni vítt og breitt um líkamann og getur valdið einkennum í lífsnauðsynlegum líffærum, eins og hjarta, heila og mænu.
- Einkennunum er deilt niður í þrjú tímabil:
- Allt að 12 vikum eftir smit, koma fram rauðleit útbrot (sár), á lim, skapabarma, endaþarm og stundum munn og varir. Þau hverfa á viku.
- Allt að 6 mánuðum eftir smit, kemur fram rauðleitt upphlaup á bringu, baki, handleggjum, fótleggjum eða iljum. Þessu fylgja oft flensu-einkenni: hiti, illt í hálsi, vöðvaþreyta og almenn vanlíðan.TAFARLAUST SKAL LEITA HJÁLPAR
- Ef sjúkdómurinn er ekki meðhöndlaður, leggst hann í dvala. En eftir allt að því 20 ár brýst hann aftur upp á yfirborðið. Nú getur hann birst sem hjartabilun, lömun og geðveiki, og leiðir sjúklinginn til dauða.
- Sjúkdómsgreining fæst með því að finna sýkilinn og /eða mótefni í blóði.
- Ef snemma er gripið til aðgerða er vel hægt að lækna sýfilis með fúkkalyfjum
Hvernig er hægt að fyrirbyggja kynsjúkdóma?
- Öruggasta vörnin gegn kynsjúkdómum er skírlífi!
- Forðast skyldi fjöllyndi eins og hægt er, en fjöllynt fólk verður að gæta öryggis.
- Talsvert er hægt að minnka smithættu af ýmsum kynsjúkdómum og alnæmi með því að nota smokkinn, helst með sæðisdrepandi kremi sem inniheldur nonoxynol 9.
Hvenær á að leita læknis?
- Ef einhver ofangreindra einkenna, eru fyrir hendi.
- Ef stundað hefur verið óábyrgt kynlíf og læknisskoðunar er óskað.
- Ef óskað er eftir því að ræða um kynferðismál, kynsjúkdóma og getnaðarvarnir.
Heimild: www.doktor.is