Sómakennd
Hvað er sómakennd? Hjálpar sómakennd okkur í lífinu? Viljum við hafa sómakennd og hvað færir hún okkur?
Sómakennd er nátengd siðferðiskennd. Við sjáum sóma okkar í að viðurkenna og leiðrétta mistök. Sómakenndin er einnig nátengd sjálfsvirðingu okkar og hvernig við viljum að aðrir sjái okkur.
Það er öllum hollt að vinna með og skoða sómakenndina. Hvað finnst okkur í lagi? Erum við að réttlæta hegðun okkar og líta framhjá sómakenndinni? Helgar tilgangurinn meðalið?
Heiðarleiki er einn af hornsteinum sómakenndar. Heiðarleiki eflir einnig sjálfsvirðingu og hjálpar okkur að öðlast traust samferðafólks okkar. Oft finnst okkur auðveldara að nota svolitla “hvíta lygi” til að komast hjá óþægilegum aðstæðum. Þá erum við hins vegar heiðarleg, ekki aðeins við annað fólk heldur ekki síður við sjálf okkur og þá löskum við sjálfsvirðinguna og sómakenndina.
“Hefurðu enga sómakennd”? Þannig hljómar ein þekktasta setning bandarískrar stjórnmálasögu en hún var sögð í kjölfar þess að þingmaður notaði lygar, gróusögur og uppspuna við að koma höggi á andstæðinga sem hann bjóað stærstu leyti til sjálfur.
Við erum ekki fullkomin. Við erum öll mannleg og gerum mistök. En það er gott að rækta sjálfan sig og setja sér markmið í lífinu og hvað er fegurra en að rækta með sér betri sómakennd? Við bætum sjálf okkur og eigum betra með að vera til staðar fyrir fólkið okkar, vini og ættingja.
Þegar maður skoðar sómakenndina er auðveldast að skoða hvað það er sem byggir upp sómakennd. Eftirfarandi listi er hugmynd að sómakennd eða því hvernig við getum byggt hana upp.
Sómakenndin byggist á:
- Að vera heiðarlegur, bæði við aðra og sjálfan sig.
- Að treysta sjálfum sér og treysta fólki sem er traustsins vert.
- Að vera ábyrgur gerða sinna og bera ábyrgð á því sem maður tekur að sér.
- Að vera til staðar fyrir ástvini sína.
- Að sýna sjálfum sér og öðru fólki virðingu.
- Að vera umburðarlyndur.
- Að vera kærleiksríkur
- Að elska án skilyrða.
Þessi listi er ekki tæmandi en allir ættu að reyna að skoða hvernig sómakenndin er og hvað má bæta. Heilbrigð og öflug sómakennd gefur okkur meiri orku og bjartsýni og heldur depurð og kvíða í skefjum.
Páll Þór Jónsson – Fjölskylduhús