Fara í efni

HVERNIG Á AÐ MATREIÐA OFNÆMISFÆÐI Á ÖRUGGAN HÁTT?

Astma- og ofnæmisfélag Íslands (AO) býður nú upp á námskeið um hvernig beri að matreiða ofnæmisfæði á öruggan hátt.
HVERNIG Á AÐ MATREIÐA OFNÆMISFÆÐI Á ÖRUGGAN HÁTT?

Astma- og ofnæmisfélag Íslands (AO) býður nú upp á námskeið um hvernig beri að matreiða ofnæmisfæði á öruggan hátt.

Megin markópurinn eru þeir sem starfa í eldhúsum leikskóla og skóla, en einnig í skólamötuneytum, eldhúsum sjúkrahúsa og mötuneytum í fyrirtækjum.

Einnig starfsmenn í fyrirtækjum í matvælaframleiðslu og veitingageiranum. Fyrsta námskeiðið hefur verið haldið í Reykjavík, auk þess sem námskeið eru skipulögð í Hafnarfirði, Akranesi og á Dalvík. Fleiri námskeið eru fyrirhuguð til að anna eftirspurn en greinlegur áhugi er á þessu málefni sem helst kemur fram í fjölda þeirra sem hafa þegar skráð sig á námskeiðin.

„Námskeiðið skiptist í tvo hluta. Fyrri hlutinn af námskeiðinu hentar einnig öllum starfsmönnum í leik- og grunnskólum sem og frístundastarfi og er hægt að óska eftir því að sitja aðeins fyrri hlutann. Foreldrar og aðrir aðstandendur eru einnig velkomnir á námskeiðið,“ segir Selma Árnadóttir, móðir barns með fæðuofnæmi og stjórnarmaður í AO. Selma hefur ásamt Fríðu Rún Þórðardóttur, næringarfræðingi og formanni félagsins, hannað námskeiðið út frá þörfum markhópsins, með skjólstæðinga AO í huga. Margrét S. Sigbjörnsdóttir fagstjóri matartækna og kennari í Menntaskólanum í Kópavogi hefur skipulagt verklegan þátt námskeiðsins sem hún kennir ásamt Steinunni Önnu Kjartansdóttur.

Matseðlar og matreiðsla á ofnæmisfæði

„Fæðuofnæmi er síður en svo á undanhaldi þó svo að sumir séu jafnvel sjálfgreindir eða að prófa sig áfram með að sleppa ýmsum fæðutegundum í sínu daglega mataræði í leit að betri líðan,“ segir Fríða Rún. „Hvort sem fæðuofnæmið er læknisfræðilega greint eða ekki eiga allir rétt á að fá það ofnæmisfæði sem þeir telja sig þarfnast. Það kemur síðan í hlut þeirra sem annast matargerð víðs vegar í samfélaginu að matreiða og bera fram öruggan, vel samsettan og girnilegan mat. Sumir sem hafa þessu hlutverki að gegna finna ekki fyrir nægjanlegu öryggi og skortir jafnvel á þekkingu í tengslum við samsetningu á matseðlum og matreiðslu á ofnæmisfæði. Það má draga úr slíku óöryggi með markvissri fræðslu og leiðsögn þar sem leiðbeinendur þessa námskeiðs mæta þátttakendum á miðri leið og bera virðingu fyrir þeirri reynslu sem þeir búa yfir og hafa til að miðla á móti.“ 

Skert lífsgæði

„Megin markmiðið með námskeiðinu er að bjóða upp á faglega fræðslu um fæðuofnæmi, alvarleika þeirra og hvernig tryggja megi góða og holla næringu,“ segir Selma. „Lífsgæði þessara einstaklinga eru oft verulega skert og því verður fjallað um það hvernig tryggja megi félagslega þátttöku þessara einstaklinga í skóla- og félagsstarfi. Boðið verður upp á verklega kennslu í matargerð út frá matreiðslu á ofnæmisfæði og síðast en ekki síst, skapaður grundvöllur fyrir umræður og skoðanaskipti.“ Selma bætir við: „Það vantar aðgengilega fræðslu á þessu sviði og sér í lagi frá hendi þeirra sem hafa reynsluna báðum megin borðsins og hafa skilning á því hversu flókið það getur verið að tryggja öruggt fæði og umhverfi fyrir einstakling með fæðuofnæmi og önnur ofnæmi.“

Öflug fræðsla um alvarleika fæðuofnæmis

„Það er mikilvægt að opna á umræður og auka meðvitund í þjóðfélaginu öllu fyrir því hversu flókið og alvarlegt fæðuofnæmi getur verið,“ segir Fríða Rún. „Það þarf að upplýsa um það hvað þeir sem stríða við fæðuofnæmi og aðstandendur þeirra þurfa að takast á við í daglegu lífi, hluti sem okkur hinum finnast sjálfsagðir. Það, að stuðla að öflugri fræðslu um alvarleika fæðuofnæmis og veita faglega ráðgjöf stuðlar aftur að bættum hag barna, unglinga og fullorðinna sem eru með fæðuofnæmi. Það eykur  jöfnuð í samfélaginu og stuðlar að því að allir hafi aðgengi að hollum og næringarríkum mat sem er laus við þá ofnæmisvalda sem hver einstaklingur þarf að forðast.“ 

Lýsing á námskeiðinu

„Námskeiðið er um sjö klukkustundir og er haldið á tveimur dögum. Fyrri daginn er veitt næringartengd fræðsla um fæðuofnæmi. Um er að ræða almenna fræðslu um fæðuofnæmi og hvaða næringarefni geta orðið af skornum skammti þegar fæðuofnæmi er til staðar. Farið er yfir hvaða fæðutegundir geta komið í staðinn fyrir mjöl, korn, mjólk, egg, fisk, hnetur og fleira til að fullnægja næringarlegum þörfum og skapa fjölbreytni í fæði barna, unglinga og fullorðinna sem þurfa að sleppa þessum fæðutegundum vegna fæðuofnæmis,“ segir Fríða Rún.  „Þá er farið yfir félagslega þætti,  viðmót samfélagsins og þær aðstæður sem skapast geta hjá einstaklingi með fæðuofnæmi,“ segir Selma. „Seinni daginn fer fram verkleg kennsla í því hvernig beri að elda fyrir ofnæmissjúka. Sú kennsla nær yfir heitar máltíðir, meðlæti og eftirrétti, bakstur, sem og hvernig megi forðast smit.“

„Leiðbeinendur á námskeiðsins hafa mikla reynslu og þekkingu á viðfangsefninu og langa reynslu í matargerð á öllum stigum. Þekking á fræðunum og hinum mannlega þætti, brennandi áhugi og jákvætt viðmót fer því allt saman á þessu áhugaverða námskeiði“ bætir Selma við að lokum.

Áhugasamir um námskeiðið eru hvattir til að hafa samband við Fríðu Rún Þórðardóttur formann  Astma- og ofnæmisfélags Íslands í síma 898-8798 eða senda póst á frida@heilsutorg.is