Hvers vegna fær maður hiksta?
Hiksti er krampi í þindinni sem veldur snöggri innöndun sem stöðvast síðan jafn snögglega við það að bilið á milli raddbandanna lokast, en það veldur einmitt hljóðinu sem fylgir þessum kvilla.
Algengasta orsök hiksta er sú að fólk kann sér ekki magamál, hvort heldur í mat eða drykk. Þegar fólk borðar eða drekkur of mikið þenst maginn út og þrýstir á þindina.
Ekki er vitað hvort hiksti gegnir einhverju lífeðlisfræðilegu hlutverki. Sumir hafa getið sér þess til að hiksti hafi eitthvað með líf fóstursins í vatni að gera en haldi svo áfram sem hvimleiður kvilli hjá fullorðnum. Ástæðan fyrir þessu er sú að hiksti er mjög algengur hjá fóstrum og nýfæddum börnum. Börn sem fæðast fyrir tímann hiksta að jafnaði í 36 mínútur á sólarhring. Ein skýring á þessu gæti verið sú að með því að hiksta sé fóstrið að stunda einskonar öndunaræfingar, en það getur náttúrlega ekki æft sig með því að anda að sér lofti þar sem það er á kafi í vatni í móðurkviði.
Lágt hlutfall af koltvíildi í blóði gerir hiksta verri, og með því að halda niðri í sér andanum á maður að geta læknað hiksta, en þá hækkar einmitt hlutfall koltvíildis í blóðinu. Hiksti hefur einnig verið læknaður með því að láta fólk anda að sér koltvíildi.
Til eru ýmis önnur ráð við hiksta, til dæmis að drekka ísvatn eða kyngja þrisvar án þess að anda á milli, sem truflar hikstann með því að örva kokið, eða toga í vísifingurna, gleypa mintu eða að manni sé gert bilt við. Að nudda neðri hluta vélindans með holsjá hefur stundum hjálpað til að lækna hiksta. Í sumum tilvikum hefur verið gripið til þess að skadda þindartaugina, en ekki er mælt með því. Í neyð hefur verið gripið til lyfja. En sú staðreynd að til eru fjölmörg og ólík húsráð við hiksta bendir til þess að ekki sé til nein haldbær lækning við þessum kvilla.
Yfirleitt varir hiksti aðeins stutta stund, en á því eru þó undantekningar.
Maður að nafni Charles Osborne, sem bjó í Iowa í Bandaríkjunum, fékk hiksta árið 1922 og hikstaði síðan látlaust í meira en 60 ár. Hann átti erfitt með svefn, þjáðist af blóðnösum og uppsölum, en var samt tvígiftur og átti 8 börn.
Grein af doktor.is