Fara í efni

Íslenskt bygg til manneldis

Miklar framfarir hafa orðið í kornrækt á Íslandi á síðasta áratug. Bygg er nú ræktað í öllum landshlutum og bændur hafa náð betri tökum á ræktuninni en áður.
íslenskt bygg
íslenskt bygg

Miklar framfarir hafa orðið í kornrækt á Íslandi á síðasta áratug. Bygg er nú ræktað í öllum landshlutum og bændur hafa náð betri tökum á ræktuninni en áður.

Íslenskir vísindamenn hafa unnið að markvissum kynbótum á byggi til að það henti betur íslenskum aðstæðum.  Síðast en ekki síst hefur veðurfar undanfarinna ára verið kornrækt hagstætt.  Því hefur byggrækt tekið stórstígum framförum á síðustu árum og er árlega framleitt hér umtalsvert magn af þroskuðu byggi.  Fram að þessu  hefur íslenskt bygg svo til eingöngu verið notað í skepnufóður en á allra síðustu árum hefur áhugi á notkun byggs til manneldis stóraukist.

Íslenskir sérfræðingar hafa á undanförnum árum rannsakað bygg, með tilliti til notkunar í matvæli, í samstarfi við íslensk matvælafyrirtæki. Komið hefur í ljós að byggmjöl hentar ágætlega til brauðgerðar í bland við hveiti.  Baksturseiginleikar byggs eru þó nokkuð lakari en hveitis og því hentar það ekki eitt og sér í hefðbundin hefuð brauð. Aftur á móti er hægt að nota bygg eingöngu í ýmsar bökunarvörur eins og flatkökur og kökur.  Þá hefur náðst prýðisárangur með íslenskt bygg sem hráefni til bjórgerðar.  Íslenskt bankabygg (heil byggkorn) hefur fengist á neytendamarkaði í nokkur ár.  Það hentar vel sem meðlæti með mat, sem hráefni í grauta, salöt og út í súpur og síðast en ekki síst er það ákaflega bragðgott. Íslenskt byggmjöl til brauðgerðar fæst nú bæði í neytendaumbúðum og stórsekkjum.  Hveitimyllan Kornax gerði nýlega samning við Ólaf Eggertsson, bónda á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, um að dreifa fyrir hann möluðu byggi til bakara og á neytendamarkað. 

Bygg er auðugt af trefjaefnum.  Meðal annars inniheldur það mikið af svokölluðum beta-glúkönum sem eru vatnsleysanleg trefjaefni.  Mun meira er af beta-glúkönum í byggi en hveiti en þessi efni eru talin geta lækkað kólesteról í blóði og dregið úr sveiflum á blóðsykri.  Þá er í byggi hátt hlutfall flókinn kolvetna (sterkju) og það er auðugt af ýmsum vítamínum, steinefnum og andoxunarefnum.

Mikill áhugi er fyrir byggbakstri meðal íslenskra bakara og hafa félagsmenn í Landssambandi bakarameistara bundist samtökum um að hefja bakstur úr íslensku byggi.  Fyrir því eru aðallega tvær ástæður, annars vegar að auka hollustu brauða og hins vegar að auka nýtingu innlendra hráefna og spara með því gjaldeyri og styrkja stöðu íslensks vinnuafls og innlendrar framleiðslu.

Ragnheiður Héðinsdóttir, matvælafræðingur

Heimild. mni.is