Fara í efni

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hlýtur Norrænu lýðheilsuverðlaunin 2014

Heilsutorg.is óskar ÍSÍ til innilega til hamingju.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hlýtur Norrænu lýðheilsuverðlaunin 2014

Heilsutorg.is óskar ÍSÍ innilega til hamingju! 

Norrænu lýðheilsuverðlaunin fyrir árið 2014 falla í hlut Íþrótta og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ).

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra afhenti fulltrúum ÍSÍ verðlaunin í tengslum við fund heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Norðurlanda í Kaupmannahöfn þann 16. október síðastliðinn.

Markmið Norrænu ráðherranefndarinnar (NMR) og Norræna lýðheilsuháskólans (NHV) með Norrænu lýðheilsuverðlaununum er að vekja athygli á mikilvægu starfi í þágu heilbrigðis og vellíðanar. Verðlaunin eru veitt einstaklingi, samtökum eða stofnun sem lagt hefur mikið af mörkum til bættrar lýðheilsu á Norðurlöndum.

Í rökstuðningi fyrir verðlaunaveitingunni segir: „Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) hefur í meira en tvo áratugi haft mikil áhrif á lýðheilsu á Íslandi með því að leggja áherslu á að almenningur lifi heilbrigðu lífi. ÍSÍ hefur haft frumkvæði að áætlunum um hreyfingu, lífsstíl og vellíðan almennings.

bb

Áætlanirnar hafa haft mikil áhrif á fólk á öllum aldri og skilað góðum árangri hjá áhættuhópum. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands er verðugur handhafi Norrænu lýðheilsuverðlaunanna 2014 fyrir skilvirkt og kerfisbundið starf að lýðheilsumálum."

Auk þess að sinna hefðbundinni íþróttastarfsemi stendur ÍSÍ ár hvert fyrir fjölmörgum almenningsíþróttaverkefnum sem hvetja stóran hluta landsmanna á öllum aldri til hreyfingar. Má þar sem dæmi nefna Lífshlaupið, Hjólað í vinnuna, Kvennahlaup ÍSÍ og Göngum í skólann. ÍSÍ tók einnig við umsjón Hreyfitorgs þegar vefurinn var opnaður fyrir rúmu ári síðan.

Embætti landlæknis óskar ÍSÍ innilega til hamingju með verðlaunin, en embættið er ásamt fleirum samstarfsaðili ÍSÍ um nefnd verkefni. Verðlaunin undirstrika þann góða árangur sem mögulegt er að ná með lýðheilsustarfi þar sem hagsmunaaðilar taka saman höndum um að vinna að sameiginlegum markmiðum.