Jóga í vatni, viðtal við Arnbjörgu Kristínu jógakennara
Hún Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir stofnaði Jóga í vatni og starfar við það í dag. Arnbjörg á einn son, hann Ými Loga sem er 7 ára og eiga þau 3 gullfiska.
Arnbjörg Kristín er Kundalini jógakennari, jógískur ráðgjafi, leiðsögukona, Bowentæknir og nemi í jógísku heilunarleiðinni Sat Nam Rasayan. Einnig er hún höfundur hugleiðslubókarinnar „Hin sanna náttúra“.
Hún er ein af verndurum styrktarfélags Jógahjartans sem heldur utan um jógakennslu fyrir um 700 börn á þessu skólári í grunnskólum og er þetta allt unnið í sjálfboðastarfi.
Menntun hennar er alþjóðlega viðurkennd og hefur hún lært hjá innlendum og erlendum kennurum á undaförnum árum.
Einnig hefur Arnbjörg Kristín lært og starfað við grafíska hönnun og myndlist.
Arnbjörg Kristín hefur starfað við náttúrulegar meðferðir til bættra heilsu um árabil og kennt börnum í grunnskóla fjölskyldujóga og hefðbundið Kundalini jóga eftir forskrift Yogi Bhajan.
Hún þróaði og hefur kennt jóga í vatni í rúm tvö ár ásamt því að kenna meðgöngujóga í vatni.
Árið 2013 sótti hún vatnsþjálfaranámskeið í Bandaríkjunum á vegum AEA og sækir reglulega námskeið í skyndihjálp og björgun í vatni. Arnbjörg lýkur leiðsögunámi sínu við Endurmenntun HÍ núna í desember.
Gongið og gítarinn eru iðulega hluti af jógakennslunni enda rík hljóðheilunar- og möntrutónlistarhefð í Kundalini jóga eftir forskrift Yogi Bhaian.
Hvenær byrjaðir þú með jóga í vatni?
Byrjaði með það fyrir 3 árum í sundlauginni í Boðaþingi í Kópavogi.
Hvernig er það öðruvísi en jóga á mottu?
Það er meira flæði, mýkt, þyngdarleysi og liðleiki í vatninu.
Geta allir verið með í jóga í vatni ?
Já.
Hvar ertu með þín námskeið og hvernig er best að ná í þig til að skrá sig?
Í sundlauginni í Boðaþingi 5-7 í Kópavogi á mánudögum og miðvikudögum kl. 17:30-18:30. Í sundlauginni á Grensás á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17-18.
Hvað kostar námskeiðið?
6 vikur á 19.500 og fyrir jólin verða 2 námskeið í 4 vikur á 13.000,-kr. Hefjast 11. og 17. nóvember. Frekari upplýsingar eru á Facebook síðu Jóga í vatni.
Hvers vegna mælir þú með jóga í vatni?
Léttir fyrir stoðkerfið og losar vel um og mýkir vöðva. Slökunin er einstök, fljótandi í flotbúnaði alla jafna við heilandi tóna gongsins. Við endum svo í heita pottinum í hugleiðslu og andlegri næringu fyrir svefninn.
Eftir áramótin fer af stað jógakennaranám í vatni. Hægt er að koma í 200 klukkustunda viðurkennt nám frá Yoga Alliance eða taka styttra námskeið sem hentar t.d jógakennurum afar vel. Skráning og fyrirspurnir varðandi það er á akk@graenilotusinn.is.