Fara í efni

KENNINGAR UM ORSAKIR MS

Hvað veldur MS er enn óþekkt en þó er talið nokkuð víst að samspil genasamsetningar, sem gera einstaklinginn móttækilegri fyrir sjúkdómnum, og utanaðkomandi þættir komi af stað keðjuverkun sem kveiki á ofnæmisvörn líkamans.
KENNINGAR UM ORSAKIR MS

Hvað veldur MS er enn óþekkt en þó er talið nokkuð víst að samspil genasamsetningar, sem gera einstaklinginn móttækilegri fyrir sjúkdómnum, og utanaðkomandi þættir komi af stað keðjuverkun sem kveiki á ofnæmisvörn líkamans.

Frumurnar sem eiga að verja okkur gegn utanaðkomandi áreiti taka þess í stað að ráðast á eigin líkama sem valdi MS síðar á lífsleiðinni.

Með utanaðkomandi þáttum er átt við búsetu, mataræði, skort á D-vítamíni, utanaðkomandi vírus og reykingar. Það er mjög mikilvægt að komast að orök MS því þegar orsakamengið hefur verið kortlagt verður auðveldara að koma fram með ný lyf sem vonandi þá lækna sjúkdóminn og jafnvel að hægt verði að komast fyrir MS t.d. með bólusetningu.

Erfðir Rannsóknir á þætti erfða og kortlagning erfðaefna í MS er tiltölulega ný af nálinni. MS er ekki arfgengur sjúkdómur þar sem ekkert eitt gen skýrir MS en hins vegar aukast líkur á því að aðrir fjölskyldumeðlimir fái MS sé einstaklingur innan fjölskyldunnar með sjúkdóminn. Það eru þó aðeins um 2% líkur á því að börn MS-sjúklings fái einnig sjúkdóminn en sé hins vegar um eineggja tvíbura að ræða eru líkurnar allt að 30%.

Vitað er að genamengi einstaklingsins hefur áhrif á hvort einstaklingur þrói með sér MS, verði hann einnig fyrir utanaðkomandi þáttum, svo sem vissum sýkingum, reykingum eða D-vítamín skorti í æsku. Ekki er einhlýtt að einstaklingar með sömu genasamsetningu þrói með sér MS. Ákveðin gen, svoköllið HLA-gen taka þátt í stjórnun ónæmiskerfisins gegnum hvítfrumur sem gegna hlutverki í bólgumyndun. Það styður kenningar um að MS sé fyrst og fremst bólgusjúkdómur. Umhverfisþættir og lífsstíll Enginn einn umhverfisþáttur er talinn skýra orsök MS. Þegar talað er um umhverfisþætti er helst átt við búsetu MS-fólks og þá aðallega hver hún var í bernsku þar sem talið er að umhverfisþættir í æsku hafi áhrif á hvort viðkomandi þrói með sér MS síðar á lífsleiðinni. Ástæðan er sú að áhættan minnkar hjá börnum, en ekki fullorðnum, sem flytja ung að aldri frá löndum með háa tíðni MS, til landa með lága tíðni.

Með kortlagningu á útbreiðslu MS í heiminum er ljóst að sjúkdómurinn er algengastur í norðlægum og suðlægum löndum en hins vegar sjaldgæfur og nær óþekktur við miðbaug. MS er algengari í hvíta kynstofninum en í blökkufólki og fólki af asískum uppruna og er algengastur í hvítu fólki sem býr í Norður-Evrópu, Kanada, Norður-Ameríku, Nýja Sjálandi og Suður-Ástralíu. Þar sem MS er algengari í iðnríkjum en þróunarríkjunum er jafnvel talið að einhver óþekkt eiturefni í umhverfinu geti valdið MS. D-vítamín og mataræði Þar sem búseta á norðlægum og suðlægum slóðum virðist hafa áhrif á tíðni MS hefur þáttur sólarljóss í MS verið rannskaður og er nú talið að D-vítamínskortur, sérstaklega í æsku, hafi áhrif þar sem húðin framleiðir D-vítamín þegar hún fær á sig sólargeisla. Lágt gildi D-vítamíns í blóði tengist aukinni áhættu á að greinast með MS síðar meir og aukinni áhættu á köstum hjá MS-einstaklingum. D-vítamín eflir ofnæmiskerfið og er mikilvægt fyrir starfsemi, uppbyggingu og þroska taugakerfisins. Því er MS-fólki sem býr á þessum slóðum ráðlagt að taka aukaeiningar af D-vítamíni, sérstaklega yfir vetrartímann.

Rétt mataræði skiptir MS-fólk því miklu máli. Ýmsar fæðutegundir eru auðugar af D-vítamínum og Omega 3-fitusýrum og ber þar helst að nefna feitan fisk, svo sem lax, sardínur, síld, túnfisk, þorsk, makríl, lúðu og hákarl en einnig hörfræ, valhnetur, nýrnabaunir, snittubaunir og sojabaunir. Vega þarf kosti og galla þess að vera úti í sterkri sól án þess að nota sólarvörn til að fá sem mest af Dvítamíni í gegnum húðina, þar sem hætta á húðkrabbameini eykst ef ekki er notuð sólarvörn. Á það við um alla aldurshópa.

Allt er best í hófi og því er best að hafa sólarvörn við höndina og taka inn lýsið góða. Reykingar Margar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum reykinga á MS og hefur merihluti þeirra sýnt fram á að reykingar geta haft áhrif á hvort einstaklingar fái MS-sjúkdóminn og er talið að efni í sígarettureyknum sem valda bólgu og skaða í taugavef trufli ofnæmiskerfi líkamans. Óbeinar reykingar eru því ekki undanskildar. Þá hefur verið sýnt fram á að reykingar hafi áhrif á hvernig sjúkdómurinn þróast. Talið er að þessi aukna áhætta sem fylgir reykingum hverfi á fimm árum eftir að reykingum er hætt. Veirusýking Rannsakað hefur verið hvort vírusar hafi áhrif á MS en vitað er að vírusar leitast við að brjóta niður fituslíðrið (myelin) sem er utan um taugaþræðina og valda bólgum.

Epstein-Barr vírusinn (EBV) hefur þótt hvað áhugaverðastur í þessum rannsóknum þar sem þær sýna að nánast allir MS-sjúklingar hafa há mótefni gegn EBV í blóðinu sem bendir til að þeir hafi sýkst af vírusnum fyrr á lífsleiðinni. Kenningin er sú að EBV valdi truflun í ónæmiskerfinu þegar frumur ónæmiskerfisins ruglast á veirunni og eigin taugavef og ráðast á taugavefinn. Líkur benda því til að EBV sé áhrifaþáttur í MS þó ljóst sé að fleiri þættir komi til. Epstein-Barr vírusinn veldur einkyrningasótt sem lýsir sér með hita, hálsbólgu og bólgnum eitlum og smitast helst með munnvatni. Sýkingin er oftast einkennalaus í börnum en getur verið alvarleg í fullorðnum. Hugsanlega verður mögulegt að bólusetja fyrir EBV í framtíðinni en rannsóknir þurfa fyrst að sýna fram á ávinning þess. Fyrir þá sem hafa áhuga á veirufræði þá sýnir myndin hér að neðan fjórar tilgátur um hugsanleg tengsl Epstein Barr vírus á MS, þ.e. hvernig sýking af EBV getur valdið MS.

1) EBV-sértækar T-frumur (tegund hvítra blóðkorna) eða mótefni gætu víxlbundist við sjálf-mótefni sem koma fram í miðtaugakefinu og ráðist á "mýelin slíður" taugaþráða. 2) Duld EBV mótefni gætu viðhaldið B-frumum (önnur tegund hvítra blóðkorna) sem eru „autoreactive“, þ.e. beina kröftum sínum að lífverunni sjálfri. 3) EBV sýking virkjar retróvírusa eins og HERV, sem leiðir til frumudauða fágripla (e. oligodendrocytes), sem viðhalda taugaþráðum og slíðrum þeirra. 4) Sjálfvirkar B-frumur verða virkjaðar sem koma af stað eftirmyndun (endurtekinni framleiðslu) á EBV veirunni og þannig aukið við viðbrögð EBV-sértækra T- og B-frumna.

Lokaorð Af framansögðu er ljóst að margt er enn óljóst um orsök MS og líklegt að um nokkra samverkandi þætti sé að ræða. Margar og miklar rannsóknir eru í gangi og lausn gátunnar mun finnast. Sverrir heitinn Bergmann, okkar kæri taugalæknir, hermdi sögu upp á góðan vin sinn og samstarfsfélaga, Kjartan R. Guðmundsson, yfirlækni, sem lést 1977, að Kjartan hafi spurt Lykla-Pétur um, þegar hann gekk inn í Himnaríki, hver væri orsök MS. Þegar Lykla Pétur sagði honum orsökina, hafi Kjartani orðið að orði; „Æ, var þetta svona auðvelt!“

Bergþóra Bergsdóttir (mars 2014)

Af vef msfelag.is