Fara í efni

Kódein og börn

SEM-mixtúra er forskriftarlyf læknis, engar upplýsingar eða fylgiseðill fylgir lyfinu og eru þar af leiðandi engar leiðbeiningar eða aðvaranir.
Kódein og börn

Á undanförnum árum hefur átt sér stað nokkur aukning í ávísunum lyfja sem innihalda kódein.

Eitt lyf sker sig úr í aukningu en það er SEM-mixtúra sem inniheldur umtalsvert magn af kódeini (2,53 mg/ml). Hver barnaskeið (10 ml) af mixtúrunni inniheldur um 25 mg af kódeini.

Til samaburðar inniheldur ein tafla af Parkodin forte 30 mg af kódeini og er því um sterkt lyf að ræða. Ábendingar fyrir Parkódin og Parkódin forte eru aðeins verkir en fyrir Kódein töflunum eru ábendingarnar verkir og þurr hósti. SEM-mixtúran er mikið notuð við hósta. Samfara mikilli aukningu í notkun mixtúrunnar handa börnum hefur þeim börnum fækkað sem fengu Parkodin eða Parkodin forte, sjá töflu 1.

Tafla 1. Fjöldi barna yngri en 12 ára sem fékk ávísað lyfjum sem innihalda kódein frá árinu 2012 til ársins 2016.

  Kódein styrkur 2012 2013 2014 2015 2016
Parkodin forte 30 mg/töflu 51 56 38 29 16
SEM mixtúra 25,3 mg/10ml 15 28 26 31 56
Parkodin 10 mg/töflu 376 421 476 413 297

 

 

 

Á árunum 2012-2016 varð í öllum aldursflokkum meira en tvöföldun á þeim fjölda einstaklinga sem fékk ávísað SEM-mixtúru.

SEM-mixtúra er forskriftarlyf læknis, engar upplýsingar eða fylgiseðill fylgir lyfinu og eru þar af leiðandi engar leiðbeiningar eða aðvaranir. Ópíóíðar eins og t.d. morfín og kódín hafa almennt margar aukaverkanir. Meiri líkur eru á að aukaverkanir komi fram séu þeir teknir í óhóflegu magni eða af þeim sem þeir eru ekki ætlaðir.

Alvarlegasta aukaverkun ópíóíða er öndunarbæling og eru vissir hópar, m.a. börn og aldraðir, viðkvæmari en aðrir. Þeir sem umbrjóta kódein hratt eru í verulegri hættu að fá alvarlegar aukaverkanir.

Alls fengu 5844 einstaklingar ávísað SEM-mixtúru árið 2016 sem er 19% aukning frá 2015. Á undanförnum 12 mánuðum hafa yfir 30 einstaklingar leyst út 7 pakkningar eða meira og eru dæmi um að aðrir ópíóíðar séu teknir með mixtúrunni. Þetta eru vísbendingar um að fólk með fíknivanda sæki í þessi lyf.

Embætti landlæknis varar við ávísunum kódeins á börn og einnig þeirri misnotkunarhættu sem af kódeini getur stafað en það umbreytist í morfín í líkamanum sem er mjög ávanabindandi verkjalyf.

Leiðbeiningar um notkun kódeins:

  1. Kódein á ekki að gefa börnum yngri en 12 ára.
  2. Kódein á ekki að gefa börnum yngri en 18 ára eftir brottnám háls- eða nefeitla.
  3. Kódein á ekki að gefa sjúklingum með öndunarfærasjúkdóma.
  4. Kódein á einungis að gefa í stuttan tíma og í eins litlum skömmtum og kostur er.
  5. Sjúklingar sem vitað er að umbrjóta kódein hratt eiga ekki að fá lyfið.
  6. Kódein á hvorki að gefa á meðgöngu né mæðrum með barn á brjósti.
  7. Kódein á ekki að gefa fólki með fíknisögu.

Lyfjateymi Embættis landlæknis

 

Heimildir:
Sérlyfjaskrá
Lyfjagagnagrunnur Landlæknis