Fara í efni

Könnun á lýsisinntöku landsmanna fékk mesta svörun á Heilsutorgi

Sú könnun sem hvað mesta svörun hefur fengið á Heilsutorgi er könnun á lýsisinntöku sem hefur verið í gangi í nokkurn tíma en yfir 1520 manns hafa svarað henni.
Lýsið góða
Lýsið góða

Sú könnun sem hvað mesta svörun hefur fengið á Heilsutorgi er könnun á lýsisinntöku sem hefur verið í gangi í nokkurn tíma en yfir 1520 manns hafa svarað henni. Þar kemur fram að 59% taka lýsi daglega, 10% taka lýsi 2-3 x í viku og 31% taka aldrei lýsi. Ekki er gerður greinarmunur á fljótandi lýsi og lýsisperlum.

Þetta er heldur hærra hlutfall en það sem fram kemur í könnun Landlæknisembættisins 2010-11 en niðurstaðan þar er sú að lýsisneysla er heldur lítil meðal íslenskra karla en aðeins 26% taka lýsi daglega og tíðnin er aðeins lægri meðal kvenna eða 21%. 60% karla taka aldrei lýsi og 69% kvenna. Sá aldurshópur karla sem er líklegastur til að taka lýsi daglega er 31-60 ára en meðal kvenna var það aldurshópurinn 61-80 ára. Neysla á lýsisperlum er mjög lítil samkvæmt niðurstöðum embættisins en aðeins 3% karla og 7,5% kvenna taka lýsisperlur. Ef niðurstöður könnuna Landlæknis eru teknar saman, fyrir karla og konur, fljótandi lýsi og lýsisperlur, má segja að 57,5% taki lýsi á einhverju formi daglega sem er nánast sama niðurstaða og við á Heilsutorgi fengum í okkar könnun.

Það er ljóst að Íslendingar mega taka sig á í lýsisneyslunni en gildi lýsis er mikið er snýr að inntöku á hinu lífsnauðsynlega vítmíni D-vítamíni en lesa má um gildi þess HÉR.

Heimild: Embætti Landlæknis, Niðurstöður könnunar á mataræði Íslendinga 2010-2011

Bestu kveðjur,

Fríða Rún Þórðardóttir 
Næringarráðgjafi B.S.c : Næringarfræðingur M.S.c