Konur, vín og heilablóðfall
Konur sem drekka allt að sjö vínglös eða bjóra á viku eru ólíklegri til að fá heilablóðfall en konur sem drekka ekkert áfengi. Þetta eru niðurstöður faraldsfræðilegrar rannsóknar á 83 þúsund konum sem fylgt var eftir í 26 ár.
Rannsóknin er hluti af mjög stórri bandarískri rannsókn sem ber heitið Nurses Health Study. Niðurstöðurnar eru birtar í nýjaste hefti tímaritisins Stroke: Journal of the American Heart Association. Þeir sem vilja kynna sér rannsóknina betur geta nálgast niðurstöðurnar hér.
Höfundar greinarinnar túlka niðurstöðurnar varlega. Monik Jimenez frá Brigham and Women´s Hospital í Boston sem leiddi rannsóknina segir: "Rannsónarniðurstöðurnar mega ekki verða til þess að hvetja konur sem ekki drekka áfengi til að byrja á því. Áfengi er tvíbent sverð. Ef drukkið er meira magn en um ræðir í rannsókninni getur það hækkað blóðþrýsting og aukið hættuna á gáttatifi sem í sjálfu sér eykur líkurnar á heilablóðfalli"
Rannsóknin náði til miðaldra kvenna. Bornar voru saman drykkjuvenjur þeirra sem fengu heilablóðfall og þeirra sem ekki fengu slíkt áfall. Konunum var skipt í hópa eftir því hversu mikils áfengis þær neyttu.
Af þeim 25 þúsund konum sem ekki drukku áfengi fengu um 4 prósent heilablóðfall meðan á rannsókninni stóð. Tíðnin var um 2 pósent meðal 29 þúsund kvenna sem drukku allt að hálft glas á dag. Meðal þeirra sem drukku allt að eitt glas á dag að meðaltali var tíðni heilablóðfalla aðeins 0.5 prósent. Þegar tekið var tllit til annarra áhættuþátta, eins og reykinga og offitu, reyndist hópurinn sem drakk allt að eitt glas á dag hafa 17-21 prósent minni líkur á heilablóðfalli en hinir.
Rannsóknin sannar ekki að hófleg áfengisnotkunin dragi úr tíðni heilablóðfalla. Faraldsfræðileg rannsókn af þessu tagi getur ekki sannað slíkt orsakasamband. Ein kenning er sú að þetta geti haft með félagslegar aðstæður að gera. Áfengi kostar pening og hugsanlegt er að þeir sem drekka áfengi séu efnameiri en hinir. Aðrar rannóknir hafa bent til þess að heilablóðföll séu algengari meðal efnaminni einstaklinga en þeirra sem eru efnameiri.
Jimenez segir þó að hugsanlegt sé að áfengið sjálft hafi verndandi áhrif og dragi úr hættu á heilablóðfalli. Hófleg áfengisneysla geti haft jákvæð áhrif á blóðfitur og dregið úr blóðsegamyndun.
Þýtt og staðhæft af Axeli F. Sigurðssyni hjartalækni. www.mataraedi.is