Lagfæring á örum
HVERS VEGNA AÐ LAGFÆRA ÖR?
Ör eftir slys, sjúkdóma eða aðgerðir geta orðið mikil lýti sem hafa neikvæð andleg áhrif á þá einstaklinga sem örin bera. Oft er hægt að lagfæra ör, þannig að þau verða minna áberandi en þau hverfa aldrei.
HVERNIG FER AÐGERÐIN FRAM?
Þegar ör er fjarlægt fer það eftir eðli, stærð og staðsetningu örsins hvernig það er gert. Stundum er hægt að skera gamla örið burtu, laga undirlagið og sauma saman á ný. Stundum þarf að breyta legu örsins, gera svokallaða Z-plastik, eða nota aðlægan vef til að hjálpa til við að loka skurðinum sem myndast þegar örið er fjarlægt.
UNDIRBÚNINGUR
Aðgerðina er yfirleitt hægt að gera í staðdeyfingu og þarf þá sjúklingur ekki að vera fastandi. Mikilvægt er að fara í góða sturtu heima kvöldið fyrir aðgerð eða um morguninn, ekki nota krem, rakakrem né aðrar snyrti eða förðunarvörur.
BATAFERLI EFTIR AÐGERÐ
Venjulega eru mjög litlir verkir eftir svona aðgerð en hugsanlega þarf að nota verkjalyf í 1-2 daga á eftir. Eins og eftir allar aðrar aðgerðir áttu að slaka á og hafa hægt um þig á eftir til að minnka blæðingahættu og líkur á bólgum.
Ef sárið bólgnar mikið, sárabarmar verða rauðir, hiti eða auknir verkir - áttu að hafa samband strax.
Plástrar á ör: Til að ná sem bestum árangri og að örið verði minnst sýnilegt er mælt með að nota límbandsplástur á örið í allt að 6 mánuði. Það heitir Micropore framleitt af 3M og fæst í apótekinu.
ATH: Tryggingastofnun tekur þátt í greiðslu vegna lagfæringa á öri.
Af síðu ablaeknir.is