Fara í efni

Lungnakrabbamein - Sjúkdómur sem hægt er að koma í veg fyrir

Lungnakrabbamein eru algengasta dánarorsök af völdum krabbameina meðal iðnvæddra vestrænna þjóða. Meinin voru áður tvöfalt algengari hjá körlum en konum, en nú eru þau nánast jafn algeng hjá báðum kynjum.
Lungnakrabbamein - Sjúkdómur sem hægt er að koma í veg fyrir

Lungnakrabbamein eru algengasta dánarorsök af völdum krabbameina meðal iðnvæddra vestrænna þjóða.
Meinin voru áður tvöfalt algengari hjá körlum en konum, en nú eru þau nánast jafn algeng hjá báðum kynjum.

Er nú svo komið að það er orðið næstalgengasta krabbameinið bæði meðal karla og kvenna.

Brjóstakrabbamein er algengara hjá konum og blöðruhálskirtilskrabbamein hjá körlum. Það greinast nær eitt hundrað og sextíu ný tilfelli af lungnakrabbameini á ári, en fyrir þremur til fjórum áratugum aðeins 10-15 á ári. Meðal karla er tíðnin svipuð hér og í nágrannalöndunum, en nýgengi sjúkdómsins meðal íslenskra kvenna er með því hæsta sem um getur.

Orsakir

Á Vesturlöndum má rekja um níu af hverjum tíu tilfellum til reykinga og þá fyrst og fremst sígarettureykinga. Aðallega er það stórreykingafólk sem fær sjúkdóminn, en einnig eru þeir sem reykja lítið í mun meiri hættu að fá sjúkdóminn en þeir sem ekkert reykja. Hætti menn að reykja dregur hægt og hægt úr líkunum á því að fá lungnakrabbamein og um það bil 15 árum eftir að reykingum var hætt eru líkurnar á því að fá sjúkdóminn orðnar svipaðar og hjá þeim sem aldrei hafa reykt. Nú er einnig talið víst að mengun frá tóbaksreykingum á heimilum og vinnustöðum geti valdið lungnakrabbameini hjá þeim sem ekki reykja.

Ýmsar aðrar orsakir lungnakrabbameins eru þekktar. Þannig er þeim sem unnið hafa við asbest hættara við að fá sjúkdóminn, sérstaklega ef þeir reykja. Meðal stórreykingafólks sem vinnur við asbest er sjúkdómurinn 70 til 90 sinnum tíðari en hjá þeim sem hvorki reykja né vinna við asbest. Einnig er vitað að þeir sem búa í loftmengaðri stórborg eru líklegri til að fá lungnakrabbamein en þeir sem búa til sveita, og geilsavirkni í umhverfi eykur tíðni þess. Ýmislegt bendir til að síðastnefndu áhættuþáttanna gæti nú meira en áður.

Flokkun

Venja er að flokka lungnakrabbamein af hagkvæmnisástæðum í tvo meginflokka, smáfrumukrabbamein og aðrar tegundir sem má svo aftur flokka í þrennt: flöguþekjukrabbamein, slímmyndandi krabbamein og stórfrumukrabbamein. Smáfrumukrabbamein eru að jafnaði hrattvaxandi og hafa oftar dreift sér til annarra líffæra (þ.e. sett meinvörp) þegar við greiningu, en svara aftur á móti sæmilega eða vel lyfja- og geislameðferð. Þau eru hins vegar afar sjaldan skurðtæk. Önnur lungnakrabbamein eru oftar hægvaxandi og að jafnaði lengur staðbundin í lunganu. Þau eru því stundum skurðtæk en láta verr undan lyfja- og geislameðferð en til dæmis smáfrumukrabbamein.

Lungnakrabbamein geta dreift sér til hvaða líffæris sem er, en algengast er að þau setji meinvörp í eitla, lifur, bein, heila og nýrnahettur.

Einkenni

Lungnakrabbamein á byrjunarstigi eru oftast án einkenna. Þegar æxlið stækkar getur það farið að gefa einkenni sem fara þá eftir því hvar það er í lunganu. Til dæmis getur æxli sem þrengir að berkju eða lokar henni, valdið því að slím safnist fyrir, neðan við þrengslin. Bakteríur lifa góðu lífi í slíminu og lungnabólga myndast. Þannig getur lungnabólga verið fyrsta einkenni meinsins, sérstaklega hjá þeim sem lengi hafa reykt. Rjúfi æxlið slímhúð berkju, getur það valdið blóði í hráka. Einnig getur æxlið ert berkjuna og valdið hósta („reykingahóstinn“ breytist). Nái æxlið að verða mjög stórt áður en það greinist getur það valdið mæði og verk í brjósti, baki eða síðu. Stundum valda meinvörp fyrstu einkennunum og fer þá eftir staðsetningu meinvarpanna hver einkennin verða.

Greining

Stöku sinnum uppgötvast krabbamein í lungum fyrir tilviljun, þ.e. á lungnamynd sem tekin er af öðrum ástæðum (fyrir skurðaðgerð, vegna heilbrigðisvottorðs o.s.frv.). Sjúkdómurinn er þá oftar á byrjunarstigi og þess vegna meiri líkur til þess að unnt sé að lækna hann. Leiti sjúklingur hinsvegar læknis vegna einkenna frá lungum, þá er sjúkdómurinn yfirleitt það langt genginn að ekki er unnt að lækna sjúklinginn.

Eftir að læknir skoðar sjúkling þarf að taka röntgenmynd af lungum, læknisskoðun ein sér er ekki nægileg til þess að greina sjúkdóminn eða útiloka. Sést þá oft á myndinni þétting í lunganu eða samfall á hluta lungans. Ber þá viðkomandi lækni að senda sjúkling til sérfræðings í lungnasjúkdómum sem leggur sjúklinginn oftast inn á sjúkrahús til rannsóknar. Er þá gerð berkjuspeglun í staðdeyfingu eða svæfingu. Mjó pípa er þrædd gegnum nef (eða munn) niður í lungun og þau skoðuð („spegluð“) og vefsýni og frumusýni tekin. Þau eru svo send til meinafræðings til rannsóknar. Sýni er steypt í vax, skorið og litað. Líða því oftast nokkrir dagar áður en niðurstöður fást.

Sé um að ræða ákveðinn grun um illkynja sjúkdóm er sjúklingur oft sendur í myndatöku af beinum og lifur meðan beðið er eftir úrskurði meinafræðingsins. Stundum eru einnig teknar myndir af heila svo og mergsýni. Komi í ljós að um lungnakrabbamein sé að ræða, og séu engin merki um að æxlið hafi sett meinvörp í önnur líffæri, er að jafnaði gerð miðmætisspeglun (e: „mediastinoscopy“) til þess að athuga hvort sjúklingurinn sé með meinvörp í eitlum milli lungnanna. Er þá í svæfingu skorinn lítill skurður í hóstina og mjóu röri smeygt niður á bak við brjóstbeinið. Þannig er unnt að skoða eitlastöðvar sem eru milli lungnanna.

Meðferð

Meðferð við lungnakrabbameini er aðallega þrenns konar: skurðaðgerð, lyfjameðferð og geislameðferð. Eru aðferðirnar ýmist notaðar hver fyrir sig eða saman.

Skurðaðgerð. Ef æxlið er af flöguþekjugerð, kirtilgerð eða stórfrumugerð og engin meinvörp finnast er tekin ákvörðun um hvort sjúklingur fari í skurðaðgerð. Er þá haft til viðmiðunar almennt ástand sjúklings og hvort hann muni þola brottnám lunga eða hluta þess. Fer sjúklingur því í lungnarannsókn þar sem öndunargeta er mæld og metin. Reynist líkamlegt ástand hans í nægilega góðu lagi er hann skorinn upp. Er þá numinn burt hluti lungans eða allt lungað. Að jafnaði fer um fjórðungur allra lungnakrabbameinssjúklinga í skurðaðgerð. Oft eru sjúklingar lengi með óþægindi eða verki í aðgerðarsvæðinu eftir aðgerð, stundum mánuðum eða árum saman.

Lyfjameðferð. Lyfjameðferð kemur fyrst og fremst þeim sjúklingum að gagni sem eru með smáfrumukrabbamein. Eru lyfin gefin í æð eða um munn á þriggja til fjögurra vikna fresti og þá að jafnaði eitt til þrjú lyf í senn, stundum nokkra daga í röð. Lyfin verka fyrst og fremst á þær frumur líkamans sem skipta sér hraðast. Þess vegna verður aukaverkana meira vart í slitvef, til dæmis sem sár í húð og slímhúð, eða sem fækkun á rauðum og hvítum blóðkornum, svo og blóðflögum, og í hárlosi. Aukaverkanir eru í hámarki viku til hálfum mánuði eftir lyfjagjöf en það er einmitt þess vegna sem lyfjakúrar eru yfirleitt gefnir á þriggja eða fjögurra vikna fresti. Eftir 3-6 vikur sést á lungnamynd hvort æxlið hefur minnkað og stundum hverfur það „alveg“ af myndinni á þeim tíma. Talið er að 5-10% sjúklinga með smáfrumukrabbamein eigi möguleika á að læknast við lyfjameðferð, sérstaklega ef hún er gefin í tengslum við geislameðferð. Önnur lungnakrabbamein en smáfrumukrabbamein láta að jafnaði illa undan lyfjameðferð. Þó getur sjúklingum með slík mein stundum gagnast lyfjameðferð. Sérstaklega getur verið ástæða til að reyna hana ef meinið hefur dreift sér til margra líffæra og veldur þannig sjúklingi verulegum óþæginum eða verkjum.

Geislameðferð. Markmið geislameðferðar gegn lungnakrabbameini getur verið tvenns konar: í fyrsta lagi lækning og í öðru lagi líkn. Sem lækning er geislameðferð notuð þegar um smáfrumukrabbamein er að ræða og þá í tengslum við lyfjameðferð. Sem líkn er hún notuð við geislun annarra lungnakrabbameina og þá oftast eftir því sem einkenni sjúklings gefa tilefni til. Þó eru þess dæmi að sjúklingur með lungnakrabbamein hafi læknast við geislameðferð eina saman. Geislameðferð er gefin í skömmtum einu sinni til fimm sinnum í viku í tvær til sex vikur, allt eftir því hvert markmiðið er og hvaða líffæri er verið að geisla. Aukaverkanir af meðferðinni eru fyrst og fremst þreyta og slappleiki meðan á meðferð stendur og geta þessi einkenni verið til staðar í nokkra daga eða vikur eftir að meðferð lýkur. Aðrar aukaverkanir koma fyrst og fremst fram í því svæði sem geislað er. Þannig getur komið lungnabólga í hið geislaða svæði lungans nokkrum vikum eða mánuðum eftir að meðferð lýkur. Enn fremur kyngingarörðugleikar ef vélindað er innan geislasvæðisins o.s.frv. Þar eð lyf komast illa inn í miðtaugakerfið, þá er þeim smáfrumukrabbameinssjúklingum sem svara lyfjameðferð vel, oft gefin geislameðferð á höfuð til þess að minnka líkurnar á að sjúkdómurinn nái að vaxa í heilanum.

Ýmsar aðrar aðferðir hafa verið reyndar í meðferð gegn lungnakrabbameini. Sem dæmi má nefna ónæmismeðferð (t.d. bólusetningar), „interferon“ og náttúrulækningar, en þessar aðferðir eiga það sameiginlegt að árangur af þeim er lítill ef nokkur.

Horfur

Af hverjum tíu sem fá lungnakrabbmein eru þrír á lífi eftir ár frá greiningu en einn af hverjum tíu eða tólf lifir fimm ár eða lengur. Horfur þessara sjúklinga hafa lítið breyst síðustu þrjátíu árin ef frá eru taldir þeir sem fá smáfrumukrabbamein. Þeir lifa nú mun lengur en áður vegna nútíma lyfja- og geislameðferðar, og nokkrir læknast.

Lokaorð

Lungnakrabbamein er eitt af fáum krabbameinum þar sem við þekkjum meginorsökina, nefnilega reykingar. Ef horft er til þess hve árangur af læknismeðferð er takmarkaður, þá verður þeim mun mikilvægara að snúast gegn orsakavaldinum og hvetja fólk til þess að hætta að reykja eða a.m.k. stunda þennan ávana eða fíkn í einrúmi.

Tekið úr fræðsluriti Krabbameinsfélagsins. Krabb.is

Heimild: doktor.is