Fara í efni

Lýðheilsustefna ásamt aðgerðaáætlun samþykkt

Lýðheilsustefna fyrir landið allt ásamt áætlun um aðgerðir sem eiga að stuðla að heilsueflandi samfélagi var nýverið samþykkt í ráðherranefnd um samræmingu mála.
Lýðheilsustefna ásamt aðgerðaáætlun samþykkt

Lýðheilsustefna fyrir landið allt ásamt áætlun um aðgerðir sem eiga að stuðla að heilsueflandi samfélagi var nýverið samþykkt í ráðherranefnd um samræmingu mála.

Meginmarkmið lýðheilsustefnunnar er að Íslendingar verði ein heilbrigðasta þjóð heims árið 2030.

Stefnan er byggð á tillögum lýðheilsunefndar, sem skipuð var haustið 2014, og hefur fjárframlag vegna þeirra aðgerða sem fylgja stefnunni þegar verið tryggt, rúmar 40 milljónir króna.

Lýðheilsustefnan sem nú hefur verið samþykkt á sér nokkurra ára aðdraganda. Í mars 2014 setti ríkisstjórnin á fót ráðherranefnd um lýðheilsu sem í sátu forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra.

Einnig var skipuð verkefnastjórn og lýðheilsunefnd undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra sem skyldi vinna drög að stefnu ásamt aðgerðaáætlun. Sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embættis landlæknis sat bæði í verkefnastjórn og í lýðheilsunefndinni.

Í lýðheilsustefnunni er sett fram sú framtíðarsýn að skólakerfið, vinnustaðir og stofnanir séu heilsueflandi og vinni að því að auka hreyfingu og útivist, bæta mataræði og efla geðrækt landsmanna þar sem slíkt leiðir til betri heilsu og vellíðanar. Þá skuli heilsusjónarmið vera lykilstefið í allri stefnumótunarvinnu sem liður í því að innleiðaHeilsu í allar stefnur.

Embætti landlæknis hefur á undanförnum áratug unnið markvisst að því að hvetja til og styðja við heilsueflandi starf í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum og á vinnustöðum og hefur gert samstarfssamninga við fjölmörg sveitarfélög á landinu um að koma á Heilsueflandi samfélagi.

Embættið fagnar því að nú hafa stjórnvöld mótað stefnu til framtíðar sem styður við heilsueflandi starf og að tryggt hafi verið fjármagn til að fylgja þeim aðgerðum eftir sem samþykktar voru.

Sú aðgerð sem snýr að því að innleiða núvitund í leik- og grunnskóla telur embættið vera tímamótaaðgerð. Stefnt er að því að þjálfa 800 kennara í að kenna börnum að ná innri ró og lifa í núinu, sem mun að öllum líkindum bæta líðan bæði kennara og nemenda auk þess að styðja börnin í því að einbeita sér enn betur að náminu.

Lesa meira:


Dóra Guðrún Guðmundsdóttir
sviðsstjóri

Frétt af vef Landlæknis