Ráðstefna um brjóstagjöf – Magnea Arnardóttir stuðningskona í viðtali
Þann 4.apríl n.k verður haldin ráðstefna um brjóstagjöf á Hótel Sögu.
Hún Magnea Arnardóttir er stuðningskona við brjóstagjöf. Magnea hefur lokið námskeiði hjá Íslensku brjóstagjafasamtökunum.
Stuðningskonur eru hluti af íslensku brjóstagjafasamtökunum og eru þær einnig jafningjastuðningshópur fyrir konur með börn á brjósti. Eina skilyrðið fyrir því að verða stuðningskona er að hafa haft barn á brjósti og klára námskeið hjá brjóstagjafasamtökunum. http://brjostagjafasamtokin.is/
“Ég er tveggja barna móðir og eru þau eins árs og þriggja ára. Ég er að útskrifast núna í sumar sem þroskaþjálfi. Ég er áhugamanneskja um brjóstagjöf og er formaður samtakanna en samtökunum kynntist ég þegar ég átti í erfiðleikum með brjóstagjöf 2011 og fékk aðstoð í gegnum síma”.
“Við erum einnig með stóra Facebook grúbbu sem heitir Stuðningskonur við brjóstagjöf og er opin öllum konum með barn á brjósti. Þar svörum við fyrirspurnum og einnig er hægt að senda okkur tölupóst á studningskona@gmail.com og við svörum eins fljótt og við getum”.
Hægt er að koma á námskeið hjá stuðningskonum í tengslum við ráðstefnuna og er hægt að fá nánari upplýsingar um það og ráðstefnuna á sama póstfangi.
Segðu mér frá ráðstefnunni sem er í apríl ?
Ástæða þess að ráðstefnan er haldin hér á landi er sú að norsk systursamtök okkar, Ammehjelpen og fyrirmyndin af stofnun íslensku samtakanna, ákváðu að halda aðalfund sinn hér í apríl. Þær eru mjög öflugar í Ammehjelpen en þær halda alltaf svona ráðstefnu á sama tíma og aðalfundinn og þær báðu um okkar aðstoð.
Við fórum tvær í fyrra og sáum hvernig þær gerðu þetta íOsloog við fengum svo Diana West til þess að koma og halda fyrirlestra auk íslenskra fyrirlesara.
Diana West er brjóstagjafaráðgjafi og þekktur rithöfundur og fyrirlesari. Hún ferðast um heiminn og er með fræðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk og aðra um brjóstagjöf. Hún hefur verið með í útgáfu ýmissa bóka um brjóstagjöf og uppeldi.
Nánar er hægt að kynna sér verk Diana West HÉR.
Ráðstefnan er opin öllum. Við erum svo með tvö íslensk erindi eftir hádegi þar sem mæður eru sérlega hvattar til þess að koma og kostar það einungis 2000 kr.
Þar tala Ingibjörg Eiríksdóttir um brjóstagjöf og tengslamyndun og Sigga Dögg kynfræðingur er með fyrirlestur sem hún kallar Knús, kelerí, kynlíf og.....krakkar!
Hér er hægt að sjá event á Facebook.
Er brjóstagjöf feimnismál á Íslandi?
Brjóstagjöf er mikils metin á Íslandi fram að svona eins árs aldri barnsins. Fólk virðist skipta sér frekar mikið af þessu hjá konum hvort að barnið sé á brjósti eða ekki osfv – eins og afskipti eru oft af því hvernig foreldrar kjósa að haga málum er varða ungabarnið.
Hins vegar kippir fólk sér yfirleitt ekki upp við að barni sé gefið brjóst á almannafæri sem er auðvitað bara sjálfsagt mál en það er vandamál í sumum löndum og konur t.d. þurfa að nota teppi eða eitthvað til að fela sig og barnið við brjóstagjöf og það er eitthvað sem við viljum alls ekki að konum finnist þær þurfa að gera. En ef einhverjum líður betur að hylja sig og sína brjóstagjöf þá á bara hver kona að ráða því sjálf.
Eru íslenskar konur duglegar að gefa brjóst?
Já, íslenskar konur eru mjög öflugar í brjóstagjöf og langflestar, eða 98% hefja brjóstagjöf og brjóstgjöf er mjög algeng á Íslandi. Íslenskar konur eru líka oft með barn á brjósti fram yfir fyrsta ár eða amk 30%.
Hvernig kemur Ísland út í brjóstagjöf miðað við önnur lönd?
Mjög vel, við erum framarlega á heimsvísu.
Eru ljósmæður einnig sérfræðingar í brjóstagjöf eða er það allt annað mál ?
Íslenskar lósmæður eru sérfræðingar í fæðingum og sængurlegu og eru velflestar mjög vel að sér í brjóstagjöf og sinna konum af mikilli alúð. Einnig eru margir hjúkrunarfræðingar vel að sér í brjóstagjöf.
Brjóstagjafaráðgjafar eru sérfræðingar í brjóstagjöf en það vantar alltaf meira og betra aðgengi að þeim fyrir allar konur með nýbura.
Í hvaða sal er ráðstefnan á Hótel Sögu?
Salurinn heitir Hekla og skráning er á studningskona@gmail.com