Máttur göngutúrana
Heilsa okkar og líðan er að miklu leyti háð athöfnum okkar og lífsstíl. Oftast er ekki flókið að grípa til aðgerða sem bæta heilsuna og draga úr líkum á sjúkdómum. Fyrsta skrefið er að átta sig á því að lífsstíllinn skiptir máli og að trúa því að við einfaldar athafnir geti skipt sköpum fyrir heilsu okkar.
Oft ræði ég við fólk um mikilvægi reglubundinnar hreyfingar fyrir heilsuna. Stundum rek ég mig á að fólk áttar sig ekki á mikilægi líkamsræktar fyrir andlega og líkamlega líðan. Sumir telja jafnvel að það sé einhvers konar mýta að hreyfing skipti máli og að vísindalegar rannsóknir hafi ekki sýnt fram á slíkt. Hið sanna er að þetta er alrangt. Vísindarannsóknir hafa nefnilega sýnt að hreyfing getur skipt sköpum fyrir heilsu okkar.
Þegar við eldumst minnkar vöðvastyrkur og stirðleiki eykst. Líkamsrækt sem við gátum stundað þegar við vorum yngri verður okkur erfiðari og stundum óframkvæmanleg. Þá má hins vegar ekki leggja árar í bát og leggjast upp í sófa.
Einföld hreyfing eins og göngutúrar getur haft mjög jákvæð áhrif á heilsu okkar og dregið úr hættu á sjúkdómum. Hreyfing hefur góð áhrif á blóðþrýsting og blóðfitur auk þess sem hún getur dregið úr hægfara bólguvirkni í líkamanum. Fræðilega getur þetta dregið úr hættu á krabbameinum og hjarta-og æðasjúkdómum.
Árið 1998 birtist í áhugaverð grein í The New England Journal of Medicine sem er eitt af virtustu læknatímaritum heims. Greinin lýsti niðurstöðum rannsókna sem gerðar höfðu verið á 707 karlmönnum á aldursbilinu 60-80 ára. Enginn þessarra manna reykti. Skráð var hversu langt þeir gengu á hverjum degi. Eftirfylgni stóð í 12 ár. Rannsóknin var hluti af stærra verkefni sem kallast Honululu Heart Program.
Myndin sýnir dánartíðni karla 60-80 ára. Lengst til vinstri eru þeir sem gengu minnst og lengst til hægri þeir sem gengu mest. Þeir sem voru mitt á milli eru í miðjunni. Hvíta súlan sýnir öll duðsföll, gráa súlan sýnir dauðsföll vegna krabbameina og svarta súlan sýnir dauðsföll vegna hjarta- og æðasjúkdóma.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru býsna sláandi. Dánartíðni var næstum tvisvar sinnum hærri meðal karlmanna sem gengu minna en 1.6 km á dag en meðal þeirra sem gengu meira en 3.2 km á dag. Eftir 12 ár voru 43.1% karlanna í fyrrnefnda hópnum látnir en aðeins 21.5 prósent karlanna í síðarnefnda hópnum. Bæði var um að ræða fækkun dauðsfalla vegna krabbameina og vegna hjarta-og æðasjúkdóma.
Tölfræðilegar aðferðir voru notaðar til að leiðrétta fyrir aðra áhættuþætti eins og aldur, blóðfitur, blóðþrýsting og sykursýki.
Í læknisfræðinni einblínum við oft á lækningaaðferðir og lyfjameðferðir sem geta bætt heilsu, lækkað blóðþrýsting eða blóðsykur og bætt blóðfitur. Miklar framfarir hafa orðið í lyfjameðferð háþrýstings, blóðfituraskana og sykursýki. Hins vegar má ekki gleyma að einfaldar aðgerðir sem snerta líffstíl okkar geta stundum haft jafnmikil eða meiri áhrif í átt til betri heilsu. Þess vegna má Honululu rannsóknin ekki falla í gleymsku.
Göngutúrar á íslandi
Hér á landi búum við í umhverfi þar sem göngufæri kann að vera býsna erfitt yfir vetrartíman. Hálkuslys eru algeng og fólk veigrar sér við að ganga úti sem er afar skiljanlegt. Á slíkum tímum eru mannbroddar mikilvægt öryggistæki sem sjálfsagt er að notfæra sér.
Mörg bæjarfélög á Íslandi hafa byggt fjölnota íþróttahallir. Þar er hægt að ganga á svokölluðum tartanbrautum við góðar aðstæður. Flestar þessar íþróttahaliir hafa opið fyrir almenning daglega og er aðgangur ókeypis.
Tekið af mataræði.is