Neysluvatn á höfuðborgarsvæðinu er öruggt
Fundur var haldinn í stjórnskipaðri samstarfsnefnd um sóttvarnir þann 16.1.2018. Fundinn sátu fulltrúar sóttvarnalæknis, heilbrigðiseftirlita Reykjavíkur, Kjósarsvæðis, Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, sýkingavarna- og sýklafræðideildar Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Matvælastofnunar, MATÍS, Veitna OHF og Geislavarna ríkisins.
Á fundinum var rætt um þá mengun sem mælst hefur í neysluvatninu á ýmsum stöðum höfuðborgarinnar og á Seltjarnarnesi nema Grafarvogi, Norðingaholti, Úlfarsárdal, Kjalarnesi og Mosfellsbæ. Engin mengun hefur mælst í neysluvatni í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði.
Niðurstaða fundarins var sú, að ofangreind mengun sé einangrað fyrirbæri í kjölfar mikilla vatnavaxta sem leiddi til að gæði neysluvatns hefur nú í nokkra daga ekki staðist ýtrustu gæðakröfur. Niðurstöður mælinga á vatninu benda til að ekki er talin hætta á heilsufarslegum afleiðingum við neyslu þess á ofangreindum svæðum.
Samstarfsnefndin telur ekki þörf á að almenningur á svæðum þar sem mengunin hefur mælst sjóði vatn fyrir neyslu og ekki sé þörf á sérstökum varúðarráðstöfunum. Einnig er óhætt að nota neysluvatnið í matvæla- og drykkjarframleiðslu.
Fylgjast áfram með gæðum neysluvatns
Veitur OHF og heilbrigðiseftirlitin á höfuðborgarsvæðinu munu áfram fylgjast með gæðum neysluvatns og mun birta niðurstöður mælinga á sínum vefsíðum. Samstarfsnefndin mun áfram fylgjast náið með ofangreindri mengun og mun birta leiðbeiningar til almennings þegar tilefni gefst til.
f.h. Stjórnskipaðrar samstarfsnefndar um sóttvarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir