Fara í efni

Óæskileg efni í plasti

Plast er allsstaðar í kringum okkur. Það er í húsgögnum, rafmagstækjum, leikföngum, umbúðum og mörgu fleiru. Mikið af mat og drykk er pakkað og selt í plasti. Margar tegundir af plasti geta innihaldið óæskleg efni sem geta haft skaðleg áhrif á heilsu okkar.
Óæskileg efni í plasti

Plast er allsstaðar í kringum okkur. Það er í húsgögnum, rafmagstækjum, leikföngum, umbúðum og mörgu fleiru. Mikið af mat og drykk er pakkað og selt í plasti. Margar tegundir af plasti geta innihaldið óæskleg efni sem geta haft skaðleg áhrif á heilsu okkar. Sé aðgát ekki höfð við framleiðslu og notkun geta þessi efni lekið úr umbúðunum og flust yfir í mat og drykk.

Margir hugsa “er ekki bara allt hættulegt í kringum okkur?” “Er nokkuð við því að gera?” Það má hafa í huga að í því umhverfi sem við búum í eru áhrif þessara efna á heilsu líkleg til að verða meiri við neyslu á mat og drykk heldur en í gegnum öndunarfæri og húð.

Þekktustu og mest rannsökuðu efnin eru bisphenol A (BPA) og þalöt (phthalates). Vísbendingar um hugsanleg neikvæð áhrif efnanna á heilsu hafa vaxið síðustu ár og hefur notkun þeirra í plast fyrir mat farið minnkandi en eru enn til staðar í sumum tegundum af plasti sem er ætlað fyrir mat og drykk. Önnur efni sem einnig eru notuð við framleiðslu á plasti eru t.d. antimonony, styrene, benzene, ethylene glycol, polybrominated diphenyl ethers, teraphatic acid, triphenyl phosphate, diethylhexyl adipate og mörg fleiri. En það er sama sagan með þessi efni, þau geta haft neikvæð áhrif á líkamsstarfsemi.

Hvaða áhrif geta þessi efni haft á heilsu?

Rannsóknir á dýrum og mönnum hafa bent til þess að þessi efni hafi tengsl við krabbamein, sykursýki 2 og offitu. Að auki innihalda flestar plast tegundir efni sem geta haft hormónatruflandi áhrif á líkamann og herma eftir estrogeni. Estrogen er kynhormón sem gegnir mikilvægu hlutverki í þroska, vexti og kynþroska hjá bæði konum og körlum. Fóstur, börn og unglingar eru því viðkvæmustu hóparnir.

Magn efnanna skiptir að sjálfsögðu máli og þessi efni eiga samkvæmt innlendum reglugerðum að vera undir ákveðnum mörkum í öllum plast ílátum og filmum sem ætlað er fyrir matvæli. En þá er spurning hversu virkt eftirlitið er, en brúsar og box koma frá ýmsum löndum. Þar að auki hafa nýlegar rannsóknir gefið til kynna að skaðsemi þessara efna geti komið fram við lægri styrk efnanna en áður var talið og þessi mörk þarf mögulega að lækka. Meðhöndlun á plastinu skiptir líka máli eins og tími og hitastig. En hvað er til ráða fyrir þá sem hafa áhyggjur af hugsanlegri skaðsemi þessara efna úr matvælaumbúðum? arErum við að taka óþarfa áhættu með heilsu okkar?

Hvað getum við gert?

Það sem hefur mestu áhrifin á hvort efnin leki úr plastinu eru breytur eins og hitastig, súrefni, fita, sýra, basi og fleira. Rétt umgengni við plast er því mikilvæg. Til dæmis er mjög óæskilegt að hita mat í plast boxi í örbylgjuofni og drekka úr vatnsbrúsa sem hefur legið úti í bíl í sól í dágóðan tíma. Við hitun leysast efnin úr plastinu og fara yfir í mat og drykk. Ráðlegast væri að minnka notkun á plast flöskum og plast boxum og nota meira umbúðir úr stáli, gleri, við eða keramik. Þá kemst maður hjá því að innbyrða þessi efni og myndi það einnig gagnast umhverfinu.

Merkingar á plastumbúðum

Sumar plast umbúðir eru merktar, en ekki allar. Með því að skoða merkingarnar getur fólk reynt að sniðganga ákveðin efni sem vitað er að geti smitast úr plastinu. Merkingarnar eru oftast staðsettar á botni umbúðanna með númerum frá 1-7 eða skammstafanir á plastinu sjálfu. Oftast eru númerin eða skammstöfunin inn í þríhyrningslaga endurvinnslumerki.

Höfundur greinar er Erla Rán Jóhannsdóttir, næringarfræðingur

Þessi grein birtist fyrst í Matur er Mannsins Megin 2014.