Fara í efni

Ójöfnuður í samfélögum

Í þessari grein verður áfram fjallað um nýlega ráðstefnu um ójöfnuð
Lýðheilsa í nýju aðalskipulagi
Lýðheilsa í nýju aðalskipulagi

Ójöfnuður í samfélögum

Í þessari grein verður áfram fjallað um nýlega ráðstefnu um ójöfnuð sem haldin var hérlendis í lok júní. Ójöfnuður er skilgreindur á þann máta að allir íbúar hafi ekki jöfn tækifæri til lífsviðurværis. Á Íslandi hefur á undanförnum árum borið á vaxandi áhyggjum vegna ójöfnuðar sem felst í fátækt og afleiðingum kreppunnar á heimilin í landinu. Þó skal tekið fram að Íslendingar hafa staðið sig vel þegar kemur að ójöfnuði miðað við aðrar þjóðir. Á ráðstefnunni hélt Dagur B. Eggertsson læknir og borgarráðsmaður erindi um nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar þar sem hann lagði áherslu á lýðheilsulegt gildi þess plaggs. Undirrituð hefur síðan þá kynnt sér það skipulag og sér margar lýðheilsulegar áherslur koma fram þar sem eru góð byrjun á því að efla lýðheilsu í nærsamfélaginu enn frekar.

Lýðheilsa í nýju aðalskipulagi

Meðal þess sem þar kemur fram er áhersla borgaryfirvalda á að draga úr umferð og auka veg og vanda gangandi vegfarenda og hjólreiðamanna. Einnig er lögð áhersla á hverfaskiptingu á þann hátt að unnið er í nærsamfélagi íbúa þegar hugað er að leiðum til heilsueflingar. Til dæmis með því að fá kaupmanninn á horninu aftur í hverfin þannig að ekki þurfi að nota einkabílinn til allra innkaupa.  Lögð er áhersla á að efla almenningssamgöngur, meðal annars til að draga úr slysahættu og lækka kostnað heimilanna við rekstur á einkabifreiðum ásamt því að minnka útblástur og vinna gegn myndun gróðurhúsalofttegunda. Val á ferðamáta hefur verið á þann veginn undanfarin ár að einkabíllinn hefur verið skjótasti kosturinn og mikil áhersla lögð á hann. Nú er það markmið borgaryfirvalda að bjóða aðra valkosti sem byggjast á vistvænum samgöngum en eru samkeppnishæfar við einkabílinn. Við höfum hérlendis séð stóraukna umferð reiðhjólamanna og gangandi vegfarenda. Verkefni eins og „Hjólað í vinnuna“ sem Embætti landlæknis leiðir í samstarfi við fyrirtæki, styður við heilsueflingu og hvetur íbúa til að huga að öðrum leiðum til að ferðast.

Aðrar áhugaverðar áherslur snúa að listum og menningarlegum gildum í borginni. Þá er lögð áhersla   á sögu borgarinnar til gera umhverfið líflegra og skemmtilegra að ferðast í, sérstaklega fyrir þá sem ferðast fótgangandi og á reiðhjólum. Sem íbúi borgarinnar lít ég til þess með tilhlökkun að sjá breytingarnar sem eru framundan.

Jafnari tækifæri?

Skipulag sem leggur áherslu á lýðheilsu dregur um leið úr ójöfnuði. Jöfn tækifæri til þátttöku í samfélaginu styrkjast við nýja aðalskipulagið ef það gengur eftir. Fyrir marga og þá sérlega efnaminni fjölskyldur getur verið erfitt að velja heilsusamlegar leiðir til lífs vegna hindrana í samfélaginu. Minna aðgengi að heilsusamlegum mat og takmörkuð tækifæri til útivistar og líkamsræktar geta skipt miklu máli og eru áhrifavaldur þegar kemur að heilsu íbúa til lengri tíma.

Áhugavert dæmi frá Bandaríkjunum

Þekkt er dæmi um tvær borgir í Bandaríkjunum þar sem ójöfnuður var mældur en þrátt fyrir að þessar borgir séu ólíkar Reykjavíkurborg og dæmin endurspegla ekki borgina okkar á einn eða neinn máta þá er þessi frásögn áhugaverð í lýðheilsulegum skilningi.

Vandamálin í Bandaríkjunum eru meiri og alvarlegri en hérlendis þekkist enda um ólík menningarsvæði og sögu að ræða. Vandamál Bandaríkjamanna minna okkur hins vegar á mikilvægi þess að leggja áherslu á lýðheilsu í stefnumótun í bæjum og borgum hérlendis  til að koma í veg fyrir aukinn ójöfnuð sem er víða farinn að láta á sér kræla. Þessi tvö dæmi segja okkur einnig sögu um áhrif ójöfnuðar á líf fólks.

Mynd 1:

 

Í Washington D.C og New Orleans í Louisiana má sjá að lífslíkur manna minnka eftir því hvar þeir búa. Á myndum sem birtar eru með þessari grein má sjá að hvar þú fæðist og býrð getur bætt 5 - 10 árum við líf þitt eða stytt það um sama árafjölda. Hvar í heiminum við lifum, lærum og vinnum getur haft mun meiri áhrif á heilsu okkar en við gerum okkur grein fyrir.

Á mynd 1, hér að ofan má sjá að þeir sem sem búa í norður hluta Virginiu, Fairfax og Arlington geta búist við að lifa sex til sjö árum lengur en íbúar í District of Columbia, þó að einungis séu um 22,5 km á milli svæðanna. Munurinn á þessum tveimur svæðum er falinn í ójöfnuði.

Mynd 2:

 

Á mynd 2 má sjá að það munar 25 árum á lífslíkum íbúa eftir því hvort þeir búa í franska hverfinu í New Orleans eða Lower Garden District í Louisiana þó svo að fjarlægðin þar á milli sé ekki mikil. Talið er að stór hluti fullorðinna í franska hverfinu reyki, þar er greinilega mikill offituvandi og ofdrykkja er einnig algengt vandamál. Fátækt barna og há gæpatíðni er stórt  vandamál. Kynslóð eftir kynslóð er föst í sama farinu. Munurinn á þessum tveimur hverfum í Louisiana er að í Lower Garden District eru unnið að markmiðum um jöfnuð í samfélaginu sem leiðir af sér betri lífsskilyrði fyrir alla íbúana.

Hérlendis fer tíðni afbrota hækkandi á sama tíma og öggæsla fer minnkandi. Fátækt hefur aukist, bil á milli ríkra og fátækra hefur stækkað og brottfall ungs fólks úr framhaldsskólum er óásættanlega hátt. Það eru því fjölmörg merki á lofti um ójöfnuð á Íslandi.

Við lítum vonar augum til nýja aðalskipulagsins sem er góð byrjun og verður því afar áhugavert að fylgjast með framhaldinu.

Meira um umfjöllunina á  Commission to Build a Healthier America.

Með lýðheilsukveðju,

Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir, formaður Félags lýðheilsufræðinga