Er Paleo mataræðið plat?
Paleo mataræðið eða steinaldarfæði er mjög vinsælt nú til dags á Íslandi og mjög margir hafa heyrt af því eða jafnvel prófað það. Hugmyndin að baki steinaldarfæðinu er góð en hún gengur út á það að borða eins og forfeður okkar gerðu s.s. ferskt grænmeti, ávexti, kjöt og fræ. En sleppa að mestu kornvörum og algjörlega sleppa unnum matvörum, sem nóg er af í hefðbundnu vestrænu mataræði. Þetta ætti að kveikja áhuga margra sem hafa áhuga á hollu matæði og heilsu sinni.
- En er þetta hollt mataræði?
- Virkar það?
- Hverjir eru kostir og gallar mataræðisins?
Í þessari grein er ætlunin að reyna að svara þessum spurningum. Þeir sem hafa ekki eirð í sér að lesa þessa yfirgripsmiklu grein geta skrollað niður og kynnt sér helstu niðurstöður þessara skrifa.
Paleo mataræðið byggist á þessum tveimur hugmyndum:
- Við aðlöguðumst því að borða ákveðin matvæli.
- Til að viðhalda sem bestri heilsu okkar og forðast lífsstílssjúkdóma, ættum við að borða eins og forfeður okkar gerðu.
Hvernig hefur mataræði mannsins (Homo sapiens) þróast?
Elstu forfeður okkar, fyrstu prímatarnir, lifðu á jörðinni fyrir meira en 60 milljón árum. Eins og flestir prímatar dagsins í dag lifðu þeir aðallega á ávöxtum, laufum og skordýrum.
Fyrir um 2.6 milljón árum í upphafi steinaldarinnar byrjuðu hlutirnir að breytast. Forfeður mannsins byrjuðu að notað þumalinn og heilinn þróaðist mikið. Þessi forfaðir mannsins byrjaði að nota verkfæri og eld. Þessum breytingum fylgdu einnig breytingar á mataræði forfeðra okkar.
Þegar nútímamaðurinn kom til sögunnar fyrir um 50.000 árum þá var hann alæta og lifði á fæði bæði úr jurta- og dýraríkinu sem hann aflaði sjálfur (hunter-gatherer diet).
Paleo mataræðið inniheldur:
- Dýr (kjöt, fisk, skriðdýr, skordýr, o.fl. – og nær alla hluta af dýrinu s.s. innyfli og bein)
- Dýraafurðir (t.d. egg og hunang)
- Rætur, lauf, blóm og stilka (grænmeti)
- Ávexti
- Hnetur og fræ, sem hægt er að borða hrá
Þeir sem aðhyllast Paleo mataræðið hafa nýlega ráðlagt fólki að byrja á mat úr listanum hér að ofan og bæta svo smátt og smátt við mjólkurvörum frá grasbítum (aðallega jógúrt og sýrðum mjólkurvörum) og hóflegu magni af „rétt meðhöndluðum“ baunum – þ.e.a.s. baunum sem legið hafa í bleyti í vatni yfir nótt.
Hvað er svona sérstakt við jurta-dýrafæði forfeðra okkar (hunter-gatherer diet)?
Fyrir um 10.000 árum var maðurinn farinn að stunda lanbúnað. Þetta hafði það í för með sér að maðurinn fór frá hjarðbúskap til landbúnaðar sem var staðbundinn (paleolithic period).
Ræktun jurta og dýra gerði það að verkum að maðurinn hafi stöðugt og nokkuð öruggt flæði af matvöru. Án þessara breytinga á lifnaðarháttum mannsins hefði nútíma siðmenning aldrei orðið til.
Þessi 10.000 ár eru engu að síður bara um 1% af þeim tíma sem maðurinn hefur verið til staðar á jörðinni.
Þeir sem aðhyllast Paleo mataræðið trúa því að þessi breyting í lifnaðarháttum mannsins frá hunter-gatherer mataræði (ríkt af ávöxtum og grænmeti) til „landbúnaðar“ mataræðis (ríkt af kornvörum) hafi valdandið aukinnni tíðni nútíma lífsstílssjúkdómalíkt og offitu, sykursýki og hjarta-og æðasjúkdóma.
Þetta er grundvöllurinn í hugmyndafræðinni að baki Paleo mataræðinu og aðal ástæða þess að fylgjendur Paleo hvetja okkur til að neyta afurða sambærilegra þeim sem steinaldarmaðurinn neytti.
Hvernig farnaðist forfeðrum okkar?
Þó að varðveist hafi nokkuð af jarðneskum leifum lifnaðarhátta forfeðra okkar s.s. beinagrindur, eldunaraðstaða o.fl. þá höfum við engar nákvæmar læknisskýrslur um heilsufar forfeðra okkar sem lifðu við hunter-gatherer lífsskilyrði. Enn eru samt til þjóðflokkar sem stunda þessa lifnaðarhætti. Þessa þjóðflokka getum við mögulega notað sem dæmi um áhrifamátt Paleo mataræðis á heilsu mannsins.
Fjölbreytt mataræði heimsins
Það eru fáir þjóðflokkar eftir í heiminum sem lifa á hunter-gatherer mataræði en þessir þjóðflokkar borða mjög mismunandi fæði. Afrískir Kung-ættbálkar lifa á hnetum og fræjum, Kitavanar, sem búa nálægt Papúa Nýju Gíneu, lifa aðallega á grænmetisfæði og Inúítar á Norðurslóðum lifa aðallega á fituríkum kjötvörum.
Þessi mataræði eru mjög fjölbreytt og eru ábyggilega ágætis heimild um það hvernig forfeður okkar borðuðu eftir því hvar þeir bjuggu á jörðinni: aðallega úr plönturíkinu (í regnskógum), aðallega úr dýraríkinu (á Norðurslóðum) og allt þar á milli.
Nútíma Paleo-þjóðflokkar
Íbúar Kitava eyja í Papúa Nýju Gíneu eru líklega mest rannsakaði hunter-gatherer þjóðflokkur nútímans.
Samkvæmt Dr. Staffan Lindeberg sem hefur rannsakað þjóðflokkinn mjög ítarlega þá lifa þau aðallega á:
- Rótargrænmeti (sætar kartöflur, taro, yam og tapioca)
- Ávextir (bananar, papaya, ananas, mangó, guava, vatnsmelóna og grasker)
- Grænmeti
- Fiskur og sjávarfang
- Kókoshnetur
Kitavanar eru heilbrigðir, offita, sykursýki, hjartaáföll og heilablæðingar þekkjast ekki – þrátt fyrir þá staðreynd að stór hluti þeirra reykir!
Hverju lofar Paleo?
Aðal hugmyndin á bakvið frumbyggjafæði líkt og Paleo mataræðið er að erfðamengi nútímamannsins hefur ekki breyst það mikið síðan frummaðurinn var uppi að líkamar okkar ráða ekki við þá lifnaðarhætti og mataræði sem nútímasamfélag hefur uppá að bjóða. Afleiðingin af þessu er sú að heilsa okkar og velferð fær að gjalda fyrir.
Paleo mataræðið heldur einnig fram nokkrum þróunarfræðilegum kenningum:
- Paleo hunter-gatherers voru í góðu líkamlegu formi og heilbrigðir; ef þeir dóu ekki ungir vegna slysa eða sýkinga, lifðu þeir jafn lengi og við lifum í dag.
- Breytingin á mataræði mannsins úr paleo hunter-gatherer í landbúnaðar mataræði, olli því að maðurinn varð veikari, minni og grennri.
- Nútíma paleo (hunter-gatherers) eru heilbrigðir, og heilsu þeirra hrakar þegar þeir kynnast nútíma lifnaðarháttum.
Hver eru vísindin og sannanirnar á bakvið Paleo?
Þó það sé vissulega hægt að slá fram þessari kenningu um heilbrigði hellisbúans þá var heilsa hellisbúanna ekkert sú allra besta.
Fyrir það fyrsta þá báru þeir með sér mikið af sníkjudýrum. Einnig herjuðu sýkingar á þá.
Nýleg rannsókn í læknablaðinu „The Lancet“ rannsakaði 137 múmíur frá þjóðfélögum alls staðar að úr heiminum – frá Egyptalandi, Perú, SV-Ameríku og Alaska – í leit að æðakölkunum í forfeðrum okkar.
Niðurstöður þessarar rannsóknar sýndu að 47 af 137 múmíum höfðu líklega eða örugglega æðakölkun og var þá alveg sama á hvaða svæði fólk lifði og hvort það lifði af landbúnaði, plöntum eða hunter-gatherer fæði.
Sjúkdómar velmegunar og iðnbyltingar
Þó að æðakölkun sé algeng hjá manninum bæði fyrr og nú þá hafa „sjúkdómar velmegunar“ ( offita, sykursýki og hjarta-og æðasjúkdómar) aukist gríðarlega á undanförnum áratugum í Vestrænum löndum líkt og Íslandi, samanborið við lönd þar sem vestrænir lifnaðarhættir hafa ekki náð fótfestu.
Miklar breytingar hafa orðið álífsháttum okkar á undanfarinni öld – sá tími er samt sem áður of stuttur til þessar að gen okkar hafi náð að aðlagast breyttum lifnaðarháttum með iðn-, verksmiðju- og tölvuvæðingu.
Við lifum í dag á mat sem er mikið til framleiddur í verksmiðjum. Þessi matur er oft ríkur af sykri, sterkju, transfitusýrum og salti. Þessi matur er gerður mjög bragðgóður og ljúffengur en vantar oft næringu sem gefur líkamanum merki um að hann sé mettur og leiðir þetta oft til ofáts á þessum matvörum.
Algengar „matvörur“ sem við neytum í dag og gefa ekki góða fyllingu eru hveitibrauð, kökur, kex, sælgæti, unnar kjötvörur, pizzur, gosdrykkir, vín og bjór.
Þetta eru klárlega ekki matvörur sem forfeður okkar mundu þekkja sem mat. Enginn næringarfræðingur mundi heldur ráðleggja mataræði ríkt af þessum matvörum. Svo þegar fylgjendur Paleo mataræðisins segja að nútíma mataræði sé óhollt og heilsuspillandi þá hafa þeir hárrétt fyrir sér!
En er Paleo mataræði raunverulega Paleo?
Það er ekki til neitt ákveðið paleo-mataræði í raun og veru og það er miklilvægt að hafa það í huga. Forfeður okkar lifðu útum allan heim og við mjög mismunandi aðstæður, og var því mataræði þeirra mjög mismunandi eftir því hvað var í boði á hverjum stað.
Þó innihélt mataræði forfeðra okkar mjög líklega miklu meira af grænmeti og ávöxtum en flestir jarðarbúar eru að borða í dag. Af því mætti því leiða líkur að til að stuðla að heilbrigði okkar nútímamanna ættum við að borða meira af ávöxtum og grænmeti.
En ávextir og grænmeti, sem er á boðstólnum í dag, eru allt aðrar tegundir en forfeður okkur borðuðu. Ávextir og grænmeti, sem forfeður okkar neyttu, voru mjög bitrir, miklu minni, erfiðara að rækta og í sumum tilfellum eitraðir. Þannig að það er villandi að ætlast til að við nútímamenn neytum þess sama og forfeður okkar í þessu tilliti.
Með tímanum hefur ávaxta- og grænmetisræktun leitt til lystugri og gómsætari afurða – stærri ávextir, betra bragð og færri náttúruleg eiturefni.
Að sama skapi eru flestir þær dýraafurðir sem við neytum í dag ekki þær sömu og forfeður okkar neyttu. Fóður, aðstæður og afbrigði dýranna sem við neytum í dag eru gjörólík þeim sem forfeður okkar neyttu.
Áherslur paleo mataræðis á grænmetis- ,ávaxta- og kjötríkt fæði er því nokkuð misvísandi því þessar matvörur nútímans eru af allt annari gerð en þær sem forfeður okkar neyttu.
Korn og gras
Fylgjendur paleo mataræðis halda því fram að forfeður okkar geti ekki hafa neytt mikið af kornmat, baunum og mjólkurvörum. Og þeir halda því fram að síðustu 10.000 ár af landbúnaði sé ekki nægur tími til að aðlagast þessum „nýju“ matvörum.
Þessi rök eru mjög sannfærandi en standast ekki nánari skoðun:
- Til að byrja með þá sýna nýlegar rannsóknir frá Proceedings of the National Academy of Sciences með mjög nákvæmum aðferðum, að frummaðurinn hafi byrjað að borða gras og korn fyrir paleotímabilið og jafnvel fyrir allt að þrem til fjórum milljónum ára.
- Frekari rannsóknir hafa einnig sýnt 105.000 ára gömul kyrni úr kornvörum úr steingerðum hægðum.
- Einnig hafa fundist kyrni af korni á mölunartækjum sem fundist hafa um allan heim og bendir það til þess að frummaðurinn (paleolithic human) hafi nýtt korn í hveiti fyrir meira en 30.000 árum.
Þannig að sú staðhæfing að frummaðurinn (paleolitihic human) hafi aldrei neytt kornvara er fullýkt, þó neyslan hafi kannski ekki verið mikil.
Eru baunir virkilega óhollar?
Kornvörur eru ekki einu jurtavörurnar sem paleo mataræðið takmarkar. Þeir sem aðhyllast mataræðið hvetja fólk til að forðast belgjurtir eins og baunir og hnetur af sömu ástæðu þ.e.a.s. að frummaðurinn hafi ekki neytt þessara afurða.
Því miður er þessi staðhæfing ekki sönn frekar en að það sem paleo mataræðið heldur fram um neyslu frummannsins á kornvörum.
Yfirlitsrannsókn (review) frá árinu 2009 sýndi fram á það að ekki aðeins hafi frummaðurinn neytt belgjurta, heldur voru þær mikilvægur hluti af mataræði hans.
Belgjurtir hafa fundist á ýmsum stöðum í heiminum sem frummaðurinn hélt til á og í sumum tilfellum voru þeir ein aðal plöntuafurðin sem var aðgengileg og neytt var. Staðreyndin er sú að neysla belgjurta hjá frummanninum er jafn líkleg og neysla annarra plöntugerða.
Hvað með efni sem hindra upptöku næringarefna (anti-nutrients)?
Sú staðhæfing að forðast belgjurtir vegna þess að frummaðurinn neytti þeirra ekki stenst ekki þegar nánar er að gáð. En talsmenn paleo mataræðisins hafa einnig hvatt fólk til að minnka neyslu þessara matvara vegna þess að þær innihaldi efni sem hindra upptöku annarra næringarefna. Þessi staðhæfing er einfaldlega ekki sönn.
Því rannsóknir benda til þess að heilsufarslegir kostir belgjurta vegi mun meira en þau efni í þeim sem hindra upptöku næringarefna, sérstaklega þar sem matreiðsla/hitun eyðir mestu af þessum efnum.
Hvað með fýtat (phytate)?
Kornvörur, hnetur og baunir eru ríkar af efnum eins og fýtati, sem hindra upptöku næringarefna s.s. steinefnanna sinks,kalks og járns. Þetta ætti að vera ágætis ástæða til að forðast þessar matvörur, er það ekki? Nei ekki endilega!
Þó að fýtat sé óæskilegt ef þess er neytt í miklu magni þá getur það haft heilsubætandi áhrif í hóflegum skömmtum s.s. andoxunarvirkni, styrkt þarmaflóruna (prebiotic) og minnkað virki þungmálma líkt og kadmíum og blýs.
Og í fjölbreyttu mataræði með öðrum næringarríkum matvörum er fýtat mjög ólíklegt til að valda vandræðum eða breyta næringarástandi einstaklingsins. Reyndar innihalda mjög margar matvörur efnasambönd sem geta hindrað upptöku næringarefna – á þetta sérstaklega við matvörur úr plönturíkinu. Sem dæmi um þetta má nefna að hollar vörur líkt og spínat, ýmis ber og dökkt súkkulaði innihalda oxalat, sem hindrar upptöku á kalki. Grænt te og rauðvín inniheldur tannín, sem hindrar upptöku á sinki og járni. Og svona mætti lengi telja.
Kornvörur og bólgur
Talsmenn paleol halda því fram að neysla kornvara geti leitt til bólgusjúkdóma og annarra heilsufarsvandamála. Þó þetta sé vissulega rétt fyrir þá sem þjást af glútenóþoli (um 1% tíðni) og þá sem eru viðkvæmir gagnvart glúteni (non-celiac gluten sensitivity) (talið hrjá 10% fólks) en í það heila þá styðja rannsóknir ekki þessi rök paleomataræðsins, ekki frekar en rökin með efni sem hindra upptöku næringarefna.
Í rauninni hafa rannsóknir sýnt að:
- Heilkorn geta minnkað bólgur, en
- unnar kornvöur s.s. hveiti geta aukið bólgur.
Það er því frekar vinnslan á kornvörum sem veldur heilsufarsvandamálum en ekki kornið sjálft. Þó hafa rannsóknir ekki getað staðfest bólgumyndandi áhrif kornvara, unnina eða óunnina á heilbrigða einstaklinga.
Rannsóknir hafa sýnt með nokkuð óhyggjandi hætti að neysla á heilkornavörum og belgjurtum stuðli að betri heilsu, m.a. með því að:
- bæta blóðfitur
- betri blóðsykursstjórnun
- minni bólgur
- minni líkur á heilablóðföllum, hjarta- og æðasjúkdómum.
Með því að útiloka þessar matvörur úr mataræði sínu virðist maður frekar vera að gera heilsu sinni óleik!
Rannsóknir á paleo mataræðinu
Það er nokkurn vegin sama hvernig við lítum á það að sú þróunarkenning sem talsmenn paleo mataræðisins halda fram stenst ekki alveg sama hvernig við lítum á það. En það þarf ekki að þýða að paleo sé endilega slæmt, þvert á móti! Kannski er þetta frábært mataræði en fyrir því væru þá aðrar ástæður en talsmenn þess halda fram.
Til að komast að heilsufarslegum ávinningiaf mataræðinu hafa þónokkrir rannsakendur farið af stað og gert vísindalegar rannsóknir (controlled clinical trials) á áhrifum þess. Og til þessa eru viðurstöðurnar mjög lofandi en ekki afgerandi.
Paleo vs. Miðjarðarhafsmataræði
Rannsóknir Dr. Lindebergs eru líklega þær þekkstusu á sviði paleomataræðis. Hann og samstarfsmenn hans gerðu tvær klínískar rannsóknir á virkni Paleo mataræðisins.
Í fyrri rannsókninni þá settu þeir einstaklinga með byrjunareinkenni sykursýki og með skert sykurþol á tvö mismunandi mataræði:
- Paleo matæði sem innihélt magurt kjöt, fisk, ávexti, grænmeti, rótargrænmeti, egg og hnetur
- Miðjarðarhafsmataræði sem innihélt heilkorna matvörur, fitusnauðar mjólkurvörur, ávexti, fisk, olíur og smjörlíki
Að lokum 12 vikum höfðu þeir sem voru á Miðjarðarhafsmataræðinu misst líkamsfitu og einkenni sykursýkinnar höfðu minnkað. Fjórir af níu þátttakendum, sem voru með hækkuð blóðsykursgildi í byrjun, voru komnir með eðlileg gildi í lok rannsóknarinnar.
Þetta er flottar niðurstöður en þeim sem voru á paleomataræðinu gekk enn betur að bæta heilsu sína. Þeir töpuðu um 70% meiri líkamsfitu en Miðjarðarhafsfæðishópurinn og höfðu einnig náð jafnvægi á blóðsykur sinn. Reyndar voru allir 10 þátttakendurnir, sem voru með með hækkaðan blóðsykur í byrjun rannsóknar, komnir í eðlileg blóðsykursgidli í lok hennar. Þetta eru hreinlega frábærar niðurstöður og greinilegt að paleomataræðið getur bætt heilsu fólks.
Einstaklingarnir í þessari rannsókn voru með væga sykursýki og byrjunareinnkenni hennar. Í seinni rannsókninni sem framkvæmd var á einstaklingum sem voru með langvarandi sykursýki, sýndu niðurstöður að paleomataræðið læknaði þá ekki en það bætti lífsskilyrði þeirra töluvert.
Aðrar rannsóknir hafa sýnt:
- Paleo mataræðið hefur meira mettandi áhrif en Miðjarðarhafsmataræðið.
- Paleo mataræðið lækkar blóðþrýsting, blóðsykur og bætir blóðfituprófíl.
Það er þó einn ókostur við þessar rannsóknir eins aðrar á lágkolvetna mataræðum, að orkuefnamagnið (sérstaklega próteina) var mismunandi milli mataræða. Þeir sem voru í paleohópnum borðuðu mun meira prótein en þeir sem voru í hinum hópunum. Mikið prótein viðheldur vöðvamassa og mettir þig betur í máltíðum.
Svo það er ekki aðeins verið að bera saman epli og appelsínur þegar prótein inntakan er mismunandi, þetta er frekar eins og að bera saman kornvörur og lambakjöt, svo mikill er munurinn.
Paleo mataræðið gæti því verið mjög hentugt mataræði til að vinna gegn lífsstílssjúkómum en endanlega niðurstöðu í það er erfitt að ná nema að hægt sé að bera saman sambærilegt magn orkuefna og hitaeininga.
Hverjir eru kostir paleomataræðis?
Þó að kenningnar á bakvið paleo mataræðið standist ekki alveg þegar nánar er skoðað, þá má Paleo eiga það að margt er gott við það, og meira að segja meira gott en slæmt.
- Paleomataræðið hvetur til neyslu á ferskum matvörum, mögrum próteingjöfum, grænmeti, ávöxtum, hnetum, fræjum og öðrum hollum fitum, sem er stórkostleg breyting til batnaðar frá hefðbundnu Vestrænu mataræði.
- Paleo mataræði hefur sýnt sig í rannsóknum að vera öflugt til að verjast lífsstílssjúkdómum. Þetta eitt og sér er frábær kostur.
- Paleo mataræðið hefur vakið okkur til umhugsunnar um það hversu mikið unnar og lélegar margar af þeim matvörum sem eru á boðstólum nú á dögum eru.
Það vantar hinsvegar mun ítarlegri og nákvæmari rannsóknir á Paleo mataræðinu til þess að hægt sé að draga endanlega niðurstöðu um hollustu þess.
Hverjir eru ókostir paleomataræðisins?
Þrátt fyrir augljósa kosti Paleo mataræðis fram yfir hefðbundið Vestrænt mataræði, þá eru samt nokkrir ókostir við það.
- Vísindin og sannanirnar á bakvið það að taka burtu mjólkurvörur, belgjurtir og kornvörur eru ekki sterk (enn sem komið er). Eitt mataræði hentar heldur ekkert endilega öllum og það er staðreynd. Sumir hafa vissulega gott af því að halda sig frá mjólkurvörum og glúteni og halda belgjurta- og kornvöruneyslu í lágmarki.
En flest okkar geta bætt líkamlega og andlega heilsu okkar án þess að skera þessar matvörur algjörlega út úr mataræði okkar. - Sú þróun á manninum sem Paleo lýsir stenst ekki. Mannslíkaminn er ekki bara safn af aðlögunum frá Paleotímabilinu. Hver einasti einstaklingur er breytanlegt safn af erfðum eiginleikum (og þarmaflóru) sem hafa breyst, stökkbreyst, týnst og komið tilbaka síðan lífið hófst hér á Jörðinni. Slíkar breytingar hafa átt sér stað síðastliðin 10.000 ár og munu gera það um ómunatíð.
- Í breiðara samhengi þá er það að fyglja lista af „góðum“ og „slæmum“ eða „leyfðum“ eða „bönnuðum“ matvörum, vandkvæðum bundið fyrir flesta. Almennt þá leiða svona aðferðir til þess að einstaklingurinn fyllist stressi og öfgar verða mjög miklar (all-or-nothing) í hugsunarhætti og lífsháttum. Kannski fyllumst við öryggiskennd og sjálfstrausti yfir styttri tíma en þegar lengra líður gæti óöryggi og vanmátur á okkur komið upp, ef við höldum þessar ströngu mataræðisreglur ekki 100%.
Hvað er hægt að læra af Paleo?
Nýtum okkur það góða úr lífsstíl frummannsins. Þetta felur í sér neyslu feskra matvara, hreint loft, mikla hreyfingu, nægan svefn og mikil mannleg samskipti. Það er flott markmið hjá okkur að reyna að koma þessum atriðum inn í okkar annasama og streituvaldandi hversdag.
Höfum hlutina einfalda og skynsamlega. Að gera fáa hluti mjög vel (eins og að sofa vel og borða meira grænmeti) er miklu betra og skynsamlegra en að reyna að gera framkvæma fullt af hlutum „fullkomlega“.
Verum gagnrýnin og upplýst. Forðastu einstrengislega ofsatrúarhugsun. Vertu gagnrýninn. Leitaðu sannana og upplýsinga.
Fornaldar mataræði er „töff“ hugmynd og gæti jafnvel í meginatriðum verið sönn hugmynd; en leyfðu líka gagnrýnni hugsun að vera með í þessari hugmynd og hugleiddu allar mögulegar og ómögulegar tilgátur.
Hjálpaðu þínum gamla líkama (og milljarða þarmaflórugerla) að vinna sína vinnu. Líkami okkar er seigur og harður af sér. Við urðum ekki að einni mest ráðandi tegundinni á Jörðinni með því að vera viðkvæm og mjúk líkt og blóm.
Þó við séum hörð af okkur og það virðist vera hægt að bjóða þessum líkama okkar næstum hvað sem er þá ættum við að leita leiða til að næra líkama okkar og sál sem best til að tryggja það að hann lifi, þróist og vaxi sem best næstu árþúsundir.
Ef við gerum það ekki þá gætum við endað sem lífverur í útrýmingarhættu og aðrar harðgerðari og lífsseigari lífverur tekið við forystuhlutverkinu á þessari Jörðu.
Þessi grein er þýdd og endursögð af vefnum Precision nutrition. Hér má nálgast greinina ásamt heimildum: www.precisionnutrition.com/paleo-diet
Skrifað af Geir Gunnar Markússyni, ritstjori@nlfi.is
heimild: nlfi.is