Fara í efni

Reynir Trausta forðast pasta

Reynir Traustason, blaðamaður á Stundinni og fyrrverandi ritstjóri DV, gerbreytti um lífsstíl fyrir nokkrum árum þegar hann hætti að reykja og byrjaði að ganga á fjöll af því kappi sem hefur alla tíð einkennt hann.
Reynir er ekki hrifinn af hafragraut og pasta.
Reynir er ekki hrifinn af hafragraut og pasta.

Reynir Traustason, blaðamaður á Stundinni og fyrrverandi ritstjóri DV, gerbreytti um lífsstíl fyrir nokkrum árum þegar hann hætti að reykja og byrjaði að ganga á fjöll af því kappi sem hefur alla tíð einkennt hann.

Kílóin hafa lekið af Reyni á fjallgöngunum og hann hefur sjaldan verið í betra formi. Hann lætur heldur ekki allt ofan í sig og upplýsir á Facebook að hann forðist nokkrar fæðutegundir eins og heitan eldinn. Hafragrauturinn er þar ofarlega á lista en skyrhræringur þykir honum jafnvel verri en hafragrauturinn og þar á eftir kemur pasta.

"Í sumar gekk ég í gegnum ógleymanlega matarreynslu í nokkurra daga göngu um öræfi Íslands," segir Reynir. "Uppistaðan í morgunverðinum var hafagrautur sem ég svældi í mig með því að setja út á hann sykur og kanil og halda fyrir nefið. En þetta átti eftir að versna. Á þriðja degi var pasta í kvöldmat. Það var erfið máltíð en þetta átti eftir að versna. Morguninn eftir kom á daginn að haframjölið var á þrotum. Þá var gripið til þess að setja afgang af pastanu frá kvöldinu áður út í grautinn. Ég kúgaðist við að innbyrða þennan merkilega graut og gekk svangur þann daginn."

Óhófleg neysla á pasta þykir ekki gera holdafarinu gott og þeir sem vilja hemja sig í pastaáti ættu að leiða hugann að þessum ógeðsgraut Reynis á fjöllum. Tilhugsunin um pasta og hafragraut ætti að fá alla til að missa lystina á pasta, ef ekki bara matarlystina yfirleitt.