Seliak og glútenóþols samtök Íslands verða formlega stofnuð 13. september 2014
Stjórn Seliak og glútenóþols samtaka Íslands býður öllum þeim sem eru með Seliak, glútenóþol, hveitiofnæmi, mjólkuróþol og mjólkurofnæmi og aðstandendum þeirra á stofnfund samtakanna og opnunarhátíð á nýrri vefsíðu sem verður haldin laugardaginn 13. september í húsakynnum SÍBS í Síðumúla 6. 2. hæð kl. 14.
Vefsíða samtakanna, gluten.is, verður opnuð sama dag.
„Draumurinn er að verða að veruleika , það eru nokkrir dagar í þetta og allt er að smella. Ég verð með smá tölu við setninguna og einnig ætlar Dagný Magnúsdóttir, eigandi Hendur í höfn í Þorlákshöfn, að vera með, segja okkur frá sér og sinni starfsemi og bjóða upp á vörur til að smakka“ segir Anna Kolbrún Jensen, formaður Seliak og glútenóþols samtaka Íslands.
Anna Kolbrún ásamt 4 öðrum konum tóku málin í sínar hendur nú í sumar og stofnuðu samtök fyrir einstaklinga með Seliak sjúkdóminn, glútenóþol, hveitiofnæmi, mjólkurofnæmi og -óþol, og aðstandendur þeirra. Þær hafa fengið mikil og góð viðbrögð og verða mörg fyrirtæki með kynningu á sínum glútenfríu vörum nk. laugardag í SÍBS húsinu á milli kl 14-16.
„Það eru allir velkomnir til okkar þennan dag, sama hvort einstaklingurinn hafi ofnæmi, óþol eða Seliak, eða sé bara forvitinn um samtökin. Allur stuðningur er kærkominn og viljum við að samtökin verði til þess að vekja umræðu um Seliak sjúkdóminn og tengd óþol og ofnæmi. „Glútenóþol er ekki bara viðkvæmni fyrir glúteni heldur mjög alvarlegur þarmasjúkdómur og er okkar aðaláhersla er lögð á að fólk viti hver munurinn er á glútenóþoli vegna Seliak og það sem almenningur kallar oft glútenóþol“ segir Anna Kolbrún að lokum um leið og hún býður alla velkomna á hátíðina.
Stofnendur samtakana eru Anna Kolbrún Jensen, Birna Óskarsdóttir, Þórunn Eva Guðbjargar Thapa, Ösp Viðarsdóttir og Aðalheiður Rán Þrastardóttir en samtökin eru hluti af Astma- og Ofnæmisfélagi Íslands og munu starfa með félaginu við að styðja við sameiginlega skjólstæðinga félaganna.
Sjá nánar síðu Seliak og glútenóþols Samtaka Íslands.
Frekari upplýsingar veitir Anna Kolbrún Jensen í síma 781-2124