Fara í efni

Steinunn Fjóla Jónsdóttir í yfirheyrslu

Steinunn Fjóla Jónsdóttir, kölluð Steina er 42 ára einstæð þriggja stúlkna móðir sem býr á Spáni. Hún er menntaður kennari með íslensku sem aðalfag.
Steinunn Fjóla
Steinunn Fjóla

Steinunn Fjóla Jónsdóttir, kölluð Steina er 42 ára einstæð þriggja stúlkna móðir sem býr á Spáni. Hún er menntaður kennari með íslensku sem aðalfag.

 "Draumurinn minn er að verða rithöfundur og stunda skriftir kvölds og morgna…allan daginn. Þangað til og meðan ég skrifa þegar góðar stundir gefast, afla ég mér tekna með ýmsum hætti. Ég er í fullri vinnu við að selja lagnir fyrir náttúrugas í hús hér á austurströnd Spánar en svo er ég með margt annað sem kemur til mín í skorpum. Ég les próförk fyrir stúdenta að heiman, vinn sem túlkur og þýði eitt og annað. Svo fæ ég verkefni við textagerð við myndbönd og kvikmyndir endrum og sinnum sem er mjög skemmtilegt. Og jú, ég hendi í einn og einn pistil um bækur og mat og lífið eins og það leggur sig; einhverja hugvekju. Næst á dagskrá er að skrifa fyrir Kvennablaðið á netinu. Mjög spennandi"

Hvernig byrjar þú hefðbundinn dag og hvað er í morgunmat ?

Ég vakna snemma, um hálf sjö, tek fram morgunmat og útbý nesti fyrir skólastelpurnar mínar. Við borðum fjölbreyttan morgunmat og sjaldnast það sama tvo daga í röð. Einn daginn er ristað gróft brauð sem við elskum allar með alls konar áleggi; alltaf gúrka og tómatur eða paprika ofan á skinkuna eða ostinn. Ég set marmelaði og kavíar á borðið líka. Suma daga er hafragrautur en stelpurnar borða hann með kanilsykri, ég eintóman með fræjum ef ég á þau til. Svo eru það jógúrt og ávaxtadagarnir en um helgar er allt í boði og við bætum við linsoðnum eggjum. Við elskum morgunmat!

Er eitthvað sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Ef ég á ekki ost, þá er ekkert til í ísskápnum! Ég er ostasjúklingur, held að ég hafi aldrei farið í gegnum dag án osts. Svo er hellingur í viðbót sem ég á alltaf til, til dæmis grænmetisskúffan; hún er yfirleitt full af fersku grænmeti og ávöxtum enda markaður í þorpinu mínu þar sem allt kemur beint af akrinum. Spánverjar borða gríðarlega mikið af grænmeti í alls konar eldamennsku og salöt eru daglegt brauð með ólífuolíu og ediki.

Nefndu mér þrjá hluti sem þú gætir ekki verið án?

Má ég ekki nefna fleiri? Stelpurnar mínar eru númer eitt; þær gefa lífinu lit og gera mig að mikilvægri manneskju. Bækur og ritlist, tónlist og hreyfing...kertin mín. Ég sjálf? Ég er sátt við sjálfa mig og allt sem fylgir mér. Einfalt og ég kann að meta það...það er mjög mikilvægt í lífinu að þykja vænt um lífið sjálft og sjálfan sig. Um leið er svo auðvelt að gefa gleði. Já og ilmvatn og eyrnalokkar. Annars er ég allsber!

Ef þú vaknar extra úldin á morgnana hvað er þitt besta ráð til að ná ferskleikanum aftur ?

Sturta! Löng sturta og ef ég hef tíma til að hangsa smá á náttsloppnum þá sest ég smá stund með sjálfri mér og anda að mér deginum. Gott krem og létt förðun gerir allt fyrir mig. Annars vakna ég sjaldan úldin nú orðið ;)

Hver er uppáhalds tími dagsins ?

Morgnarnir og kvöldin eru í uppáhaldi. Rólegheitin þegar ekki þarf að hlaupa og snúast. Annars finnast mér matartímar líka gefa okkur helling, þá spjöllum við um lífið og hlæjum saman. Maður á aldrei að borða í fýlu og helst að kjafta frá einu leyndarmáli á dag. Stelpurnar mínar eru skemmtilegur félagsskapur.

Hversu oft í viku æfir þú og hvernig æfingar ertu að gera?

Ég fer út að hlaupa á hverjum virkum degi. Með sérvalda tónlist og hleyp í 40 mínútur um appelsínuakra og upp og niður hæðina þar sem kirkjan okkar stendur. Fólk mænir sjálfsagt á mig þegar ég skoppa upp og niður gangstéttarkanta eins og ég væri í pallatíma, en mér er alveg sama. Ég fæ gríðarlega mikið útúr hlaupunum mínum...gæti ekki án þeirra verið. Þegar ég kem heim fer ég út í bakgarðinn minn, dreg fram dýnu og teygjur. Æfi maga og rass, handleggi og fætur í hálftíma. Svo bætti ég nýlega við smá zumba sveiflu fyrir mitti, maga, rass og læri...snýst bara um að dilla sér hratt við taktfasta tónlist þangað til svitinn bogar af manni. Það svínvirkar, ég hef aldrei verið í betra formi held ég. Að lokum tek ég góða stund í teygjur og hálfgerða íhugun við rólega tónlist. Er með sjálfri mér án þess að hugsa neitt annað.

Er mikill munur á því hvernig Íslendingar og Spánverjar æfa ?

Munurinn liggur nú sennilega í veðráttunni. Hér er hjólað fram í rauðan dauðann og tennisíþróttir eru mjög vinsælar; íþróttir undir beru lofti. En hér eru auðvitað líka hefðbundnar líkamsræktarstöðvar.

Hvernig ferð þú á milli staða? Þá á ég við akandi, gangandi, hjólandi....

Ég þarf að fara á bílnum í vinnuna, það er töluverður akstur. Allt sem ég þarf að snúast í þorpinu fer ég gangandi enda væri annað kjánalegt, hér er allt í seilingarfjarlægð og nánast alltaf gott veður þó að hér geti kólnað yfir bláveturinn. Svo er alltaf fólk úti við, ég heilsa og brosa milljón sinnum á leiðinni til slátrarans!

Kaffi eða te ?

Kaffi á barnum (alvöru kaffi þar), te og cappuccino heima á svölum morgnum. Það er nú samt langt í frá að ég þambi  kaffi allan daginn. Einn bolli á dag er nóg fyrir mig, tveir ef eitthvað er um að vera.

Ef þú værir beðin um að gefa eitt gott ráð til hóps af fólki, hvaða ráð væri það?

Að skapa sér lífsstíl með tilliti til líkama og sálar, engin spurning. Allt hitt kemur þá af sjálfu sér. Hreyfing og hollt mataræði og fjölbreytt, að þykja vænt um sjálfan sig. Það er númer eitt. Að hugsa jákvætt verður óumflýjanlegt. Það er engin ástæða til að gerast eitthvað heilsufrík eða fara einhverju offari með mataræði. Ég er stranglega á móti megrunarherferðum og áróðri. Venjuleg rútína, venjulegur matur (sneiða hjá ruslinu) og pota inn reglulegri hreyfingu, líða vel með sjálfan sig. Maturinn bragðast meira að segja betur. Svo er jafn mikilvægt að sinna áhugamálum og passa hugarfarið í öllu sem maður gerir.