Fara í efni

Svanurinn sendir skilaboð

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna.
Svanurinn sendir skilaboð

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Svanurinn gerir kröfu til alls lífsferils vörunnar eða þjónustunnar og er tekinn út af óháðum aðilum. Svanurinn vottar þó ekki hráefni. Merkið vottar ekki heldur fullunnin matvæli. Því mætti spyrja sig, tengist Svanurinn matvælum eitthvað yfir höfuð?

Vottuð veitingahús

Staðreyndin er sú að Svanurinn vottar ýmislegt sem tengist, beint eða óbeint, matvælum og hefur á þann hátt talsverð áhrif á framboð og upplýsingagjöf til neytenda. Til að mynda geta veitingahús fengið vottun að uppfylltum fjölmörgum kröfum. Meðal þeirra er að ákveðið hlutfall matvæla sem er á matseðli skal vera með lífræna vottun. Með því að gera slíka kröfu vill Svanurinn stuðla að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum sem hljótast af ofnotkun skordýraeiturs í hefðbundinni ræktun og skerðingu líffræðilegs fjölbreytileika. Í viðmiðum fyrir veitingahús er jafnframt gerð krafa um að alltaf skuli vera einn grænmetisréttur á matseðlinum. Þannig er hvatt til þess að dregið sé úr neyslu dýrakjöts, en verksmiðjuframleiðsla á dýrakjöti er mjög þurfafrek á vatn, landsvæði og orku og hefur í för með sér mikla losun gróðurhúsalofttegunda. Þess ber að geta að Svanurinn rýnir viðmið sín á nokkurra ára fresti og herðir kröfurnar til að ná fram sífelldum umbótum.

Efni í neytendavörum

Í neytendavörum eru oft á tíðum varasöm efni sem geta haft áhrif á heilsu manna, svo sem þalöt í plasti eða brómeruð eldtefjandi efni í vefnaðarvöru. Svanurinn reynir í viðmiðum sínum að útiloka eða lágmarka notkun slíkra efna og gengur lengra en þau viðmið sem löggjöfin setur um viðunandi magn skaðlegra efna í vörum. Svanurinn gerir líka í vissum tilfellum kröfur sem snúast um efni sem komast í snertingu við matvæli. Vottaður bökunarpappír má til að mynda ekki innihalda perflúorefni, sem eru annars gjarna notuð í matarumbúðir því þau hrinda frá sér vatni. Þessi efni brotna afar hægt niður og safnast fyrir í lífkeðjunni. Talið er að þau geti haft margvíslega skaðleg áhrif svo sem verið krabbameinsvaldandi og hormónaraskandi, en ekki er hægt að útiloka að efnin smitist yfir í matvæli. Svanurinn hefur nýlega mótað viðmið sérstaklega fyrir einnota umbúðir utan um matvæli. Framleiðendur slíkra umbúða þurfa að standast ótal strangar kröfur þar sem allt frá hráefnavali til efnainnihalds eða frá orkunotkunar til límtegunda er skoðað vandlega. Fyrir vikið bjóðast neytendum vörur sem innihalda færri skaðleg efni og eru skárri fyrir umhverfið en aðrar sambærilegar vörur. Til stendur að þróa viðmið sérstaklega fyrir umbúðir utan um vöka, svo sem mjólkurfernur.

Neytendur vilja geta valið

Það er mikið hagsmunamál að neytendum standi til boða að velja umhverfisvottaðar vörur eða þjónustu. Þá er fengin fullvissa fyrir því að búið að sé að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif og skaðleg innihaldsefni eins og hægt er. Þannig sendir Svanurinn, fyrir hönd neytenda, skýr skilaboð til markaðarsins um þær áherslur sem við öll viljum sjá í samfélaginu, þ.e. færri efni og öruggari vörur.

Elva Rakel Jónsdóttir,

Höfundur er umhverfisfræðingur og starfar hjá Umhverfisstofnun.

Til fróðleiks:

Kaffitár var fyrst til að fá Svansvottun fyrir veitingarekstur, en öll kaffihús Kaffitárs eru með Svansvottun.

Nauthóll er eina Svansvottaða veitingahúsið á Íslandi.

Mötuneyti Landsbankans er eina Svansvottaða mötuneyti landsins.

Svansvottaður bökunarpappír og kaffipokar frá Coop fást í íslenskum verslunum.