Takmörkun gerjanlegra kolvetna í fæði iðrabólgusjúklinga
Uppþemba, niðurgangur, hægðatregða - Lág-FODMAP fæði við IBS eða eins og það útleggst á íslensku ...
Takmörkun gerjanlegra kolvetna í fæði iðrabólgusjúklinga
Maga- og ristilspeglun skiptir máli fyrir þá sem þjást af viðvarandi meltingarvanda til að útiloka krabbamein og sjálfsofnæmis- eða bólgusjúkdóma eins og glútenofnæmi (selíak), Crohns og sáraristilbólgu (IBD). Ef tekst að útiloka þessa alvarlegu sjúkdóma fá margir þá greiningu að um iðraólgu (IBS) sé að ræða.
Iðraólga er starfrænn meltingarsjúkdómur sem lýsir sér ýmist með niðurgangi eða hægðatregðu, auk ristilkrampa, uppþembu, vindgangs og/eða ógleði. Iðraólga er óþægileg en ekki hættuleg. Þess vegna hefur, þar til á allra síðustu árum, orðið útundan að veita viðunandi meðferð við henni.
Tengsl mataræðis og iðraólgu
Undanfarin ár hefur rannsóknum á tengslum mataræðis og iðraólgu fleygt fram og um það er fjallað í glænýrri samantekt (1) frá Samtökum klínískra næringarfræðinga í Bretlandi (British Dietetic Association). Í stuttu máli er mælt með lág-FODMAP fæði í 3-6 vikur. Ef einkenni iðraólgu batna við það á vandað endurkynningarferli að fara fram í kjölfarið.
FODMAP (fermentable oligosaccharides, disaccharides, monosaccharides and polyols) eru einsykrur, tvísykrur, fásykrur og fjölalkóhól (efnafræðiheiti, hefur ekkert með vínanda að gera) sem örverur í ristli okkar mannanna nýta sér sem fæðu. Þær er að finna í mörgum mjólkurvörum, hveiti, rúgi, byggi, lauk, baunum, ýmsum ávöxtum og sumum grænmetistegundum.
Þar sem takmarka þarf svona margar hollar fæðutegundir á lág-FODMAP fæði er eindregið mælt með því að næringarfræðingur sem hefur fengið þjálfun í meðferð iðraólgu með lág-FODMAP fæði leiðbeini þeim sem vilja prófa hvort það hjálpar. Það þarf t.d. að vanda valið á þeirri fæðu sem borðuð er í staðinn fyrir þennan langa lista af algengum matvörum.
Endurkynningarferlið
Eftir 3-6 vikur á lág-FODMAP fæði er einni og einni há-FODMAP fæðutegund bætt aftur við mataræðið og fylgst með viðbrögðunum. Það kallast endurkynningarferli. Þannig er hægt að komast að því fyrir hvern og einn hvaða þol hann eða hún hefur fyrir hinum ýmsu há-FODMAP fæðutegundum. Einn gæti þolað venjulegar mjólkurvörur, epli og perur, en þurft að sneiða hjá brauði og baunum til langframa. Annar gæti þurft að vera á laktósafríum mjólkurvörum til frambúðar en þolað brauð og baunir ágætlega og frúktósaríka ávexti af og til en ekki þó daglega. Enn annar gæti þolað baunir og 1-2 brauðsneiðar tvisvar til þrisvar í viku en fengið einkenni ef hann reyndi að borða brauð upp á hvern dag eða 3 sneiðar í einni og sömu máltíðinni.
Leiðsögn næringarfræðings er líka mikilvæg á þessu stigi því endurkynningarferlið þarf að framkvæma með skipulegum hætti svo línurnar verði skýrar hvað varðar mataræðið til frambúðar.
Óskipulegt “svindl” færir þig á byrjunarreit
Endurkynningarferlið gegnir mikilvægu hlutverki til að hver og einn geti borðað eins fjölbreytta og næringarríka fæðu og hægt er, án þess að finna fyrir verulegum óþægindum. Lífsgæði skerðast líka ef lítið sem ekkert er hægt að borða í veislum eða á veitingastöðum. Það verður þreytandi til lengdar og næsta víst að farið verður að “svindla”. Á meðan endurkynningarferlið gefur nákvæmar upplýsingar um þol fyrir hverri fæðutegund fyrir sig, er óskipulegt “svindl” til þess fallið að valda einkennum sem enginn veit hvort flatkakan, heiti rétturinn eða marengstertan olli, eða hvort það var laukurinn í sósunni, raspið á fiskinum eða mjólkin í ísnum.
Sumir eru agaðir og finnst þægilegt að venja sig á strangt fæði sem þeim líður vel af og geta vel sætt sig við að það sé einhæft. En það er ekki æskilegt að vera á ströngu lág-FODMAP fæði til lengdar þó iðraólgueinkenni hverfi. Ástæðan er ekki bara mögulegur næringarskortur heldur líka að lág-FODMAP fæði breytir þarmaflórunni og það er ekki víst að þær breytingar séu æskilegar. Auk þess getur strangt fráhald í langan tíma valdið því að iðraólgueinkenni verða enn ýktari þegar og ef fæðutegundarinnar er neytt síðar.
Nokkrar ábendingar
Hveiti er í mjög mörgu brauðmeti en þó ekki í glútenlausu brauði því hveiti inniheldur bæði glúten, sem er prótein, og FODMAP. Ef súrdeig úr hveiti fær að hefast nógu lengi hafa gerlarnir í súrnum náð að brjóta FODMAP niður svo lítið er orðið eftir af því þegar brauðið er bakað. Til þess þarf sólarhringshefun eða meira og góðar aðstæður til gerjunar hvað varðar hitastig og raka. Bakstur í heitum ofni hefur engin áhrif á FODMAP.
Það er FODMAP í linsubaunum og kjúklingabaunum en magnið minnkar ef þær eru soðnar undir þrýstingi, niðursoðnar. Hella þarf vökvanum af þeim og skola vel eftir að dósin er opnuð, því FODMAP er til staðar í vökvanum. FODMAP magnið minnkar ekki við hefðbundna suðu eða eldun.
Það er mikið FODMAP í flestum lauktegundum. FODMAP eru vatnsleysin efni sem leka úr skornum lauk út í sósu og súpu. Þess vegna er ekki nóg að sneiða hjá lauknum en borða sósuna eða súpuna. Aftur á móti er hægt að steikja heil eða hálf hvítlauksrif upp úr olíu og taka frá áður en olían er notuð. FODMAP eru ekki fituleysin og leka því ekki út í olíu.
Mjólkursykur (laktósi) er FODMAP. Hann er að finna í flestum mjólkurvörum en þó ekki í smjöri og gerjuðum ostum (brauðostum, mozzarella, mygluostum).
Heimild
(1) McKenzie Y.A., Bowyer R.K., Leach H., Gulia P., Seamark L., Williams M., Thompson J. & Lomer M.C.E. (2016). British Dietetic Association systematic review and evidence-based practice guidelines for the dietary management of irritable bowel syndrome in adults (2016 update). J Hum Nutr Diet. doi:10.1111/jhn.12385
Höfundur greinar:
Anna Ragna sem er næringarfræðingur og rekur Heilræði-heilsuráðgjöf