Tengsl efnahagsþrenginga og hollustu
Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins birtist greinin „Kannanir á mataræði og næringargildi fæðunnar á Íslandi – Tengsl efnahagsþrenginga og hollustu" sem tveir starfsmenn embættisins eru meðhöfundar að.
Þar eru bornar saman niðurstöður úr tveimur síðustu landskönnunum á mataræði, árin 2002 og 2010–2011, og könnuð tengsl hollustu fæðisins við erfiðleika fólks við að ná endum saman. Þar kemur fram að fólk sem átti erfitt með að ná endum saman árin 2010–2011 borðaði óhollari mat en hinir sem áttu auðvelt með það, þ.e. neytti minna af grænmeti, ávöxtum og grófu brauði og drakk meira af sykruðum gosdrykkjum.
Þegar bornar voru saman niðurstöður þessara tveggja kannana sást að árin 2010–2011 var borðað minna af brauði, kexi og kökum, vörum úr farsi, smjörlíki og snakki og minna drukkið af nýmjólk og sykruðum gosdrykkjum heldur en árið 2002.
Meira var hins vegar borðað af grófu brauði, hafragraut, ávöxtum, grænmeti og kjöti og fleiri tóku lýsi 2010–2011 en 2002, en fiskneysla stóð í stað.
Einnig er lýst breytingum á hlutfallslegri skiptingu orkuefna í fæði frá 1990. Fituneysla minnkaði frá 1990 til 2010–2011 úr 41% í 35% af orkunni, mettaðar fitusýrur úr 20% í 14,5% af orkunni og transfitusýrur úr 2% í 0,8% af orkunni. Stærstur hluti breytinganna varð milli áranna 1990 og 2002.
Sjá nánar greinina í Læknablaðinu
Hólmfríður Þorgeirsdóttir og Elva Gísladóttir
verkefnisstjórar næringar
Heimild: landlaeknir