Það sem okkur er sjaldnast sagt um meðgönguna
Ef þú átt von á barni óska ég þér innilega til hamingju. Framundan er tími breytinga, líkamlegra og jafnvel félagslegra.
Koma nýs einstaklings er spennandi og vonandi gengur þér og þínum vel að búa í haginn.
Á þessum 9 mánuðum sem meðgangan tekur verða miklar breytingar á líkama þínum sem eru til þess fallnar að undirbúa kroppinn fyrir fæðinguna. Eins mun fæðingin sjálf hafa áhrif, þó mismikil frá einni konu til annarrar. Margir þættir þar með talið arfgeng vefjagerð og líkamlegt ástand fyrir meðgöngu geta breytt miklu auk þess sem hver fæðing er einstakur viðburður. Hormónaframleiðsla breytist mikið, allt til þess að hjálpa fóstri til að dafna og til að kvenlíkaminn geti fætt af sér þennan nýja einstakling. Þó hér sé um að ræða einn stórkostlegasta tíma í lífi hverrar konu getur hann einnig reynst þér erfiður, andlega og líkamlega. Ég ætla að nefna hér hluta þeirra einkenna sem byrja oft á meðgöngu og eftir fæðingu, frá blöðru og ristli sem geta jafnvel dregið úr sjálfstrausti, hvernig þér líður með sjálfa þig og hvað þú treystir þér til að gera. Ekki er talað mikið um þessa þætti en allar konur ættu að vera meðvitaðar um þær breytingar sem geta orðið því það er hægt að gera margt til að draga úr neikvæðri þróun. Þekking og fræðsla er alltaf til bóta.
En hvað flokkast undir algeng blöðru og ristileinkenni á meðgöngu og eftir fæðinguna?
- Leki sem byrjar á meðgöngu getur verið þvagleki eða loft/hægðaleki frá endaþarmi. Leki þarf ekki að vera sjúkdómur í sjálfu sér, heldur er oft birtingarmynd veikleika eða annarra undirliggjandi þátta. Ein af hverjum þremur konum þjást af þvagleka einhvern tíma ævinnar. Ein af hverjum tíu manneskjum (af báðum kynjum) þjást af hægðaleka einhvern tíma í sínu lífi. Einn þriðji af barnshafandi konum þjáist af áreynsluþvagleka, og er hann mestur á seinasta þriðjungi meðgöngunnar. Konur sem hafa fundið fyrir þvagleka fyrir og á meðgöngu eru í aukinni hættu að finna líka fyrir þvagleka eftir fæðingu.
- Hægðatregða er annað ástand sem margar barnshafandi konur glíma við. Hægðatregða getur lýst sér í mjórri og harðari hægðum, lengra sé á milli losana og að þurfa að reyna meira á sig til að losa. Hægðatregða veldur auknu álagi á grindarbotn og eykur þrýsting á blöðru, sem á meðgöngu keppir um pláss við stækkandi leg. Hægðatregða hefur í för með sér aukna hættu á þvagleka. Hægðatregðu skyldi alltaf meðhöndla og á meðgöngu er nauðsynlegt að leita ráða um rétta greiningu og öruggar aðferðir hjá heilbrigðisstarfsfólki. Rannsóknir hafa sýnt að langvarandi hægðatregða getur haft skaðleg áhrif á grindarbotninn.
Gildi grindarbotnsæfinga fyrir þig er mikið á þessum tíma í lífinu. Ef þú ert barnshafandi ættir þú að gera grindarbotnsæfingar alla meðgönguna. Grindarbotnsæfingar hafa ekki neikvæð áhrif á fæðingarferlið og eru líklegar til að stytta rembingsfasa fæðingarinnar ef horft er til rannsókna á þessu sviði. Þær draga venjulegast úr veikleikaeinkennum eins og þvagleka á meðgöngunni og hjálpa konum að jafna sig eftir fæðingu. Óhætt er að hefja grindarbotnsæfingar strax eftir fæðingu, sársauki eða óþægindi eru að jafnaði sá mælikvarði sem við getum notað til að stilla af hversu fast við spennum. Gott er að byrja á að spenna vöðvana veikt til að “vekja” þá og bæta vöðvaminni.
Þú verður að vera viss um að í hverjum samdrætti sértu að lyfta grindarbotninum og spenna í kring um opin sem eru á vöðvalaginu fyrir þvagrás, leggöng og endaþarm. Svolítið eins og að halda í sér. Slakar svo vel á á milli æfinga. Æfingarnar auka bata, draga úr verkjum og færa aukna blóðrás inn á svæðið. Ef þú ert ekki viss um hvernig þú átt að haga þér skaltu ráðfæra þig við fæðingarlækninn, sjúkraþjálfara eða ljósmóður. Elskaðu sjálfa þig nógu mikið til að hlúa að veikasta hlekknum í stoðkerfi þínu áður en þú ferð að reyna á þig á fullu.
Höfundur greinar.
Þorgerður Sigurðardóttir, sérfræðingur í meðgöngu- og fæðingarsjúkraþjálfun.