Þegar athygli og minni týnast í vanlíðan
„Ég get ekki lengur haldið athygli við einföldustu verkefni!“ „Ég man ekki lengur nöfnin á fólki sem ég þekki!“ „Er ég kannski að fá Alzheimer?“
Það er algengt að heyra eitthvað þessu líkt frá fólki sem á við þunglyndi og kvíða að stríða.
Hér verður sjónum hins vegar beint sérstaklega að tengslum þunglyndis og hugarstarfs.
Á síðustu árum hefur orðið vart við vaxandi almenna meðvitund og skilning á helstu einkennum þunglyndis. Þau geta t.a.m. lýst sér í depurð eða áhugaleysi, neikvæð- um hugsanagangi þar sem vonleysi og sektarkennd eru áberandi, hugsunum um dauðann, svefntruflunum og þreytu. Hins vegar er fólk kannski síður meðvitað um að þunglyndi getur líka haft áhrif á almennt hugarstarf, eins og athygli, minni, skipulagsgetu og úrvinnsluhraða.
Algengt er að fræðimenn líti nú svo á að hugrænir erfið- leikar séu ekki hliðarverkun af þunglyndi heldur geti talist til megineinkenna þess. Hugrænir erfiðleikar hafa mikið að segja varðandi almenn lífsgæði og því er afar mikilvægt að meðferð beinist einnig að þessum þáttum.
Hvað veldur athyglis- og minniserfiðleikum?
Talið er að athyglis- og minniserfiðleikar í þunglyndi geti tengst skertum taugaboðefnabúskap, sem trufli þá hugarstarf með beinum hætti. Einnig er ljóst að skert áhugahvöt og neikvæð viðhorf vega þungt í þessum efnum. Í þunglyndi hefur fólk almennt minni ánægju af því að takast á við verkefni, einblínir á mistök og gefst frekar upp. Oft á tíðum hefur fólk neikvæðar hugmyndir um eigin hugræna getu. Þannig geta áhyggjur af eigin hugarstarfi skapað neikvæða forspá („Ég á aldrei eftir að geta munað allt það sem ég þarf að koma á framfæri á fundinum!“) sem ýta beinlínis undir verri frammistöðu og staðfesta á þann hátt neikvæðu forspána.
Hvað annað hefur áhrif á hugarstarf?
Auk þunglyndis- og kvíða geta ýmsir aðrir þættir haft neikvæð áhrif á hugarstarf. Sjúkdómar og slys sem skerða á einhvern hátt starfsemi heila- og miðtaugakerfisins geta að sjálfsögðu verið undirrót hugrænna erfiðleika. Þess ber að geta að þunglyndi og kvíði eru algengir fylgifiskar ýmissa taugahrörnunarsjúkdóma og annarra þátta sem skaða heilavef, eins og heilablæðinga. Það getur því verið nauðsynlegt að meta vandlega hver sé aðalorsök vandans til þess að taka megi sem best á þeim erfiðleikum sem til staðar eru.
Aðrir þættir sem hafa bera í huga eru t.d. svefnleysi, streita og álag, vímuefnaneysla og aldur. Hvað varðar áhrif aldurs er þó mikilvægt að taka fram að ekki er óhjákvæmilegt að minnið versni með aldrinum. Ákveðinn hópur fólks heldur minnisgetu sinni svo til ævina á enda og virðast ýmsir þættir hafa verndandi áhrif á heilastarfsemina, svo sem viðvarandi hugræn örvun (bæði í formi menntunar, starfs og áhugamála).
Athyglin er forsenda minnisins
Flestu fólki verður tíðrætt um athyglisgetu sína og minni, þetta eru hugtök sem eru okkur töm í daglegu tali. Hins vegar eru bæði hugtökin í raun regnhlífarhugtök sem ná yfir nokkuð breitt svið. Þannig getur athygli t.d. annars vegar vísað í getuna til að einbeita sér að einu verkefni án þess að truflast af utanaðkomandi áreitum og hins vegar í getuna til að beina athyglinni samtímis að tveimur eða fleiri verkefnum (eins og að keyra og tala um leið).
Oft er athygli nokkurs konar forsenda annars hugarstarfs. Hvernig eigum við t.d. að skilja, kryfja eða muna upplýsingar sem okkur tókst ekki að beina athygli okkar að til að byrja með? Það getur verið hjálplegt að hugsa um athyglina sem ljóskastara sem við beinum í ólíkar áttir. Það sem fellur innan ljósgeislans er efni sem við höfum möguleika á að vinna frekar með meðtaka, skilja og muna. Þegar fólk finnur fyrir verri minnisframmistöðu liggur orsökin því stundum hjá verri athyglisgetu en ekki minninu sjálfu. Það er þó rétt að geta þess að minnið er margþætt rétt eins og athyglin. Annars vegar getur fólk t.d. átt erfitt með að læra og tileinka sér nýjar upplýsingar. Minnkuð athyglisgeta getur haft þau áhrif að erfiðlega gangi að meðtaka nýtt efni (eins og t.d. að muna hvað einhver sagði). Hins vegar geta minnisvandkvæði komið fram sem erfiðleikar við að endurheimta upplýsingar sem þegar eru í minninu. Við þannig aðstæður geta vísbendingar hjálpað. Ef þú manst ekki nafn einhvers kunningja og einhver segir við þig: „Ég held að nafnið byrji á B,“ gæti það verið nóg til þess að þú myndir nafnið.
Hvað er til ráða?
Í ljósi þess hve margir ólíkir þættir geta haft áhrif á hugarstarf er vert að huga að ýmsu áður en hafðar eru áhyggjur af því að heilastarfið sé skert með óafturkræfum hætti. Nærtækast er að byrja á að skoða lífstílsþætti sem hægt er að hafa einhverja stjórn á. Allt það sem dregur úr streitu og bætir svefn getur haft jákvæð áhrif. Það er einnig alltaf að koma fram sterkari rannsóknastuðningur við mikilvægi hreyfingar á hugræna getu og andlega líðan. Sálfræðimeðferð við þunglyndi, eins og hugræn atferlismeðferð (HAM), hefur löngu sýnt sig sem áhrifarík meðferð, bæði við andlegri líðan og bjöguðum hugsanagangi. Meðferð sem leggur áherslu á núvitundariðkun ásamt hugrænni nálgun (mindfulness-based cognitive therapy) virðist sérstaklega lofa góðu hvað varðar bætta athyglis- og minnisgetu. Eins minnkar þessi nálgun líkur á bakslagi.
Hugræn þjálfun (eða hugfimi) þar sem athygli, minni og annað hugarstarf er þjálfað með ýmsum verkefnum virðist einnig geta skilað sér að einhverju leyti í bættri frammistöðu á hugrænum prófum. Slík verkefni geta annaðhvort verið leyst í tölvu en einnig hefur verið sýnt fram á að ýmis þrautalausnarverkefni, eins og sudokuþrautir, geti haft jákvæð áhrif á hugarstarf. Enn er þó umdeilt að hve miklu leyti þjálfun á einstökum verkefnum skili sér í bættri frammistöðu í hinu daglega lífi. Bjargráð sem miða að því að nota dagbækur, áminningar og dagatöl í síma, lista og minnismiða geta hjálpað við að koma á betra skipulagi og aðstoðað fólk við að takast á við daglegt líf með árangursríkari hætti. Einnig geta ýmsar minnisaðferðir bætt minnisframmistöðu, eins og að sjá myndrænt fyrir sér það sem leggja þarf á minnið. Hvað viðkemur lyfjameðferð við hugrænum einkennum þunglyndis þá virðast nýjar tegundir þunglyndislyfja sem verka bæði á taugaboðefnin seróntónín og norepínefrín (s.k. SNRI lyf) og eins lyf sem verka beint á seróntónínviðtaka gefa hvað besta raun.
Ljóst er að nokkuð flókið samspil er á milli andlegrar líðunar og hugarstarfs og margir samverkandi þættir virðast geta haft jákvæð áhrif á hugarstarf hjá þeim sem kljáðst hafa við andlega erfiðleika. Þó að engin einföld lausn hafi enn komið fram á sjónarsviðið er margt sem gefur tilefni til bjartsýni. Og flest er betra en vanvirkni og aðgerðarleysi!
Ella Björt Teague, sálfræðingur Reykjalundi
Heimildir/ítarefni
- Gonda, X., Pompili, M., Serafini, G., Carvalho, A. F., Rihmer, & Dome, P. (2015). The role of cognitive dysfunction in the symptoms and remission from depression. Annals of General Psychiatry, 14, 1-7.
- Motter, J. N., Pimontel, M. A., Rindskopf, D., Devanand, D. P., Doraiswamy, P. M., & Sneed, J. R. (2016). Computerized cognitive training and functional recovery in major depressive disorder: A meta-analysis. Journal of Affective Disorders, 189, 184-191.
- Van der Velden, A. M., Kuyken, W., Wattar, U., Crane, C., Pallesen, K. J., Dahlgaard, J., … Piet, J. (2015). A systematic review of mechanisms of change in mindfulness-based cognitive therapy in the treatment of recurrent major depressive disorder. Clinical Psychology Review, 37, 26-39.