Við geðveika fólkið
Ímyndaðu þér...
Ímyndaðu þér að vera þjáður af þunglyndi, kvíða, ótta eða geðhvarfasýki. Þú þorir ekki að biðja um hjálp út af skömm og ótta við álit annarra. Í staðinn tekur þú út þjáninguna þar til þú getur ekki meir. Kannski of seint. Ímyndaðu þér að vera vímuefnafíkill. Allt dóp tekið af þér og þú þjáist í fráhvörfum. Getur þú ímyndað þér líðanina? Getur þú ímyndað líðanina að vera andlega veikur? Einungis vottur af manngæsku segir mér að við sem velferðarþjóðfélag eigum hjálpa þessu fólki. Lina þrautir og þjáningar. Hvort sem það er niðurtröppun hjá fíkli eða meðferð fyrir andlega veika.
Það er eðli manneskjunnar, sem er kominn í vandræði í lífinu, að finna sér "verr" staddann og benda á til að verja sjálfan sig. Manneskjan er stórskrýtin skepna. Ég er ekki geggjaður þó ég gangi með andleg mein. Ekki hættulegur. Smita ekki við snertingu. Sumir eru því miður það veikir að geta ekki borið ábyrgð á sjálfum sér. Ég má þakka fyrir að vera ekki þar. Hópurinn sem er þarna úti og þjáist á hverjum degi við einhvers konar geðræn vandamál er ótrúlega stór. Miklu stærri en þig grunar. Of margir hafa sig ekki í að gera neitt. Ég veit því ég var staddur þar. Samt að lifa hefðbundnu fjölskyldulífi og ganga vel að mér fannst. Andleg veikindi spyrja ekki um stétt eða stöðu eða hvað klukkan slær í lífinu. Frekar en fíknisjúkdómar. Þess vegna er svo mikil þversögn að fólk leyfi sér að vera með fordóma út í fólk eins og mig. En það veit ekki betur. Held ég.
Gefstu upp og leitaðu þér faglegrar hjálpar. Strax!
Hvað er að mér? Kvíðaröskun, krónísk áfallastreituröskun, þunglyndi, ofsahræðsla, meðvirkni og höfnunarótti. Að auki óvirkur alkóhólisti. Þetta lítur svakalega illa út á prenti! Þar til í lok ágúst 2015 vissi ég aðeins að ég væri óvirkur alkóhólisti. Með öðru hafði ég lifað alla ævina. Reyndar bar ekki mikið á kvíðanum, óttanum og meðvirkninni í langan tíma og ég taldi mig lifa góðu lífi. Þangað til ég veikist af krónískri áfallastreituröskun sumarið 2013. Þá byrjaði "veislan". Ég leitaði mér faglegrar hjálpar á síðustu stundu hjá sálfræðingi sem hefur stjórnað mínu bataferli að mestu. Hefði átt að leita mér hjálpað miklu fyrr en "hörkutólið" hélt hann gæti ráðið við þetta! Að vera "hörkutól" og enginn "aumingi" kom mér á grafarbakkann!
Það er skrýtið með mannfólkið þegar það gerist "sérfræðingar" í öðrum. Eins og að vita hvaða hjálp mér er fyrir bestu og meira upptekið af því en líðan manns. Ég lenti í einu mjög óþægilegu atviki á fyrstu vikum bataferlisins í haust. Mín stærstu einkenni voru ofsakvíða- og panikköst. Flest komu þegar ég var einn. Í örfá skipti fékk ég kast á meðal fólks. Það var eftir eitt slíkt kast sem fólk gerðist fullnema sérfræðingar í mínum meinum og fannst ég best lokaður á geðdeild! Sumum þótti "ódýrt" að ég væri bara hjá sálfræðingi. Hitti reyndar líka reglulega minn frábæra heimilislækni sem hugsar vel út fyrir sitt box. Geðdeild og aðstoð geðlæknis var aldrei útilokuð og mínir fagaðilar meðvitaðir um það. Í þessu tilfelli sá fólk "abornamal" hegðun. Enda var ég að upplifa sársauka í kastinu og viðbrögðin eftir því. Auðvitað er ég þá ekki "eðlilegur". Ég hélt samt staðfastur áfram að fylgja leiðsögn míns sálfræðings og sé ekki eftir því. Mín faglega meðferð hefur falist í huglægri atferlismeðferð og mikilli fræðslu um mín mein. Að auki að læra að nota "verkfæri" sem ég get beitt sjálfur á hverjum degi.
Ég fór líka að taka lyf í september 2015 til að halda mér í betra jafnvægi og hugsanlega minnka líkur á fyrrnefndum köstum. Ávanabindandi róandi, kvíðastillandi, verkjalyf eða svefnlyf eru óholll fyrir mig sem óvirkan alkóhólista þó ég hafi ekki verið pillufíkill. Lyfið sem ég tek að staðaldri er ekki ávanabindandi. Líkt og ég verð að þiggja sterk verkjalyf eftir skurðaðgerð þá get ég neyðst til að taka inn lyf til að slá á ofsakvíða og ef ég get ekki sofið. Þá er ég ekki að nota þau í því skyni að komast á "fyllerí". Ég er svo heppinn að vera í bata í alkóhólismanum og virkur í sjálfshjálparsamtökum. Það kemur í veg fyrir að ég fái hugmyndir um að það sé í lagi að bryðja töflur eins og smarties eða byrja að drekka. Ef ég væri ekki virkur í samtökunum væri ég á glerhálum ís.
Lærðu að hjálpa þér sjálfur
"Verkfæri" til sjálfshjálpar. Þau sem hjálpa mér þegar er að skrifa, semja ljóð eða tónlist. Koma hugsunum um ótta, kvíða, depurð í orð. Skrifa óboðna gesti í burtu! Þetta er mín fyrsta hjálp og virkar alltaf. Svo ég tali nú ekki um gönguferðir í náttúrunni og fá ferskt loft. Þetta uppgötvaði ég að hefði róandi áhrif og heilandi. Í gegnum versta sársauka veikindanna bjargaði það mér að skrifa og semja ljóð. Enda eru mörg þeirra "skuggaleg"!Það tók mig lengst að skilja að ég væri þunglyndur. Ég þessi öri, hvatvísi, orkumikli og "á spani" maður! Frekar örlyndur! Það er mjög skrýtið að vera þunglyndur en virka opinn á sama augnabliki. Vera langhressastur í mannfagnaði sem dæmi. Þetta er lærð hegðun og ekki notuð af ásetningi. Það er mjög erfitt að útskýra þetta fyrir þeim sem ekki þekkja.
Ég læri töluvert að lesa fræðilega grein um mín mein en að lesa reynslusögu annarra hjálpar mér mest. Þó listinn yfir mín mein líti "illa" út þá hef ég fundið batafarveg fyrir þau öll. Ég er byrjaður að vinna markvisst í meðvirkninni og höfnunaróttanum í öðrum 12 spora samtökum. Ég held áfram að leita mér sálfræðihjálpar eða hjálpar geðlæknis ef þarf. Skiptir mig engu hvaðan góð hjálp kemur. Daglega er mikilvægast að ég noti eigin "verkfæri". Þá verður með tímanum minni líkur að ég þurfi eins mikla utanaðkomandi hjálp.
Eitt sem ég er að læra er að gangast við tilfinningum mínum þegar þær koma. Bæði jákvæðum og neikvæðum. Léttara með þær jákvæðu en fjári snúið með þær neikvæðu. Ég hafði aldrei áttað mig á þessu. Ég er þokkalega greindur en það þurfti að kenna mér hvað þetta þýðir. Þetta er andstæðan við að þykjast alltaf vera "stór og sterkur" og ekki sýna "veikleikamerki". Heldur leyfa sér að vera stundum lítill meyr strákur sem líður ekki vel. Losa um þær hömlur án þess að skammast sín.
Þó við geðsjúku séum ekki haldin sama sjúkdóm þá veit ég um samnefnara sem getur hjálpað okkur öllum í batanum. Samkennd. Að komast í tengsl við annan einstakling sem hægt er að tala við og hefur sambærilega reynslu. Ég er kominn í samband við fólk sem glímir við nákvæmlega sama og ég. Það er ómetanlegt að geta talað við manneskju sem skilur og dæmir ekki. Það er "win-win" staða fyrir báða aðila. Hér bý ég að reynslu minni af 12 spora mannræktarsamtökum.
Geðveika fólkið í samfélaginu...og hinir
Meiðslin mín eru ekki slit á krossböndum eða hásin. Meiðslin eru í formi tilfinninga, viðbragða við atburði, fólk, aðstæður...sem ég kann ekki að útskýra. Ef ég slít hásin þá fer ég strax og fæ viðeigandi aðstoð. Ef ég "slít" tilfinningu sem framkallar kvíða...hvað þá? Ætti ég ekki að njóta sama skilnings? Ætti ég nokkuð að þurfa að réttlæta eða sanna veikindin mín? Mín reynsla segir já því miður er það of algengt. Viðhorf samfélagsins og fordómar hafa held ég minnkað en miklu betur má ef duga skal.
Ef ég á að nefna eitt sem ég myndi vilja að almenningur gerði til að hjálpa mér þá er það að gera ekki greinarmun hvort höndin sé í fatla eða ég sé með þunglyndi. Þurfa ekki færa sönnur á mín veikindi. En ég ber líka ábyrgð á því að segja fólki frá sem ekki þekkir við hvað ég er að stríða. Við sem erum andlega veik megum ekki festast í eigin skotgröf og benda á "hina". Frekar að eiga samtöl og miðla reynslu, fræðslu og þekkingu. Þess vegna er ég og mun ég alltaf vera tilbúinn að láta gott af mér leiða. Hvort sem það er með pistli eins og þessum eða öðru. Ég tel mig þá vera að sýna þakklæti til þeirra sem hafa hjálpað mér, miðla reynslu sem gætu þurft á hjálp að halda og sýnt ábyrgð í verki með að miðla til þeirra sem vilja fræðast um mín mein í það minnsta. Vopnið sem ég hef er ekki fræðimennska heldur lífsreynslan mín. Ég læt fræðinganna um hitt.
Ég er bara manneskja sem er að gera mitt besta til að finna mér farveg til að geta unnið í minum meinum og þ.a.l. notið þeirra lífsgæða sem ég kýs. Og njóta sammælis eins og hver annar þjóðfélagsþegn.
Annað fer ég ekki fram á.
Höfundur greinar er Einar Áskelsson.