Fara í efni

VIÐTALIÐ: Eymundur Eymundsson segir frá sjálfum sér, baráttunni við félagsfælni og þeirri góðu vinnu sem Grófin er að gera

Fræðandi og skemmtilegt viðtal sem teymi Heilsutorgs mælir sérstaklega með.
VIÐTALIÐ:	Eymundur Eymundsson segir frá sjálfum sér, baráttunni við félagsfælni og þeirri góðu vinnu…

Fræðandi og skemmtilegt viðtal sem teymi Heilsutorgs mælir sérstaklega með.

 

Fullt nafn: 

Eymundur Lúter Eymundsson

Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér og hvaðan ertu?

Ég er 49 ára gamall Akureyringur og hef átt heima á Akureyri mest allt mitt líf fyrir utan 3 ár í Reykjavík frá 2009 til 2012. Ég var mikið í íþróttum og skák á yngri árum og er harður Þórsari og Magnamaður. Ég þurfti að hætta 27 ára í fótbolta 1994 þar sem ég greindist með slitgigt. Ég hef setið í stjórn knattspyrnudeildar Þórs á Akureyri og skákfélags Akureyrar.

Ég á einn son sem er fæddur 1994 og ég á líka Guðdóttur sem hefur gefið mér mikið eins og systir hennar. Ég þarf að stunda sjúkraþjálfun reglulega til að halda mér gangandi líkamlega sem andlega.

Þrátt fyrir mikla íþróttaiðkun hef ég glímt við mikla félagsfælni en hún rændi miklu úr mínu lífi. Eftir að ég sá hvað ég hafði glímt við síðan ég var barn hef ég nýtt mér hjálpina sem mér hefur staðið til boða með opnum huga og jákvæðni að leiðarljósi.

Það skipti öllu fyrir mig að sjá að ég átti von og gat fengið hjálp. Ég þurfti ekki að skammast mín fyrir það sem ég var búinn að gera sjálfum mér síðan ég var barn með því að opna mig ekki og viðurkenna ekki vanda minn. Þetta var árið 2005 og nú deili ég reynslu minni ásamt öðru góðu fólki úr Grófinni í grunn- og framhaldsskólum; hvernig var, hvað gerðist, hvað stöðvaði mig í að leita mér hjálpar, hvernig er í dag og bendi á bjargráð.

Það er svo gott að finna hvað ungmenni sem og fullorðnir eru ánægð með þessa fræðslu sem ég hefði viljað og þurft að fá þegar ég var í 9. bekk.  Ég hef opnað mig í fjölmiðlum til að gera grein fyrir alvarleikanum og mikilvægi þess að fá hjálp og hvert hægt er að leita.

Einnig hef ég verið með fræðslu á málþingum og ráðstefnum og miðla þar af minni reynslu af geðsjúkdómum, hvað hefur hjálpað og hvað Grófin, geðverndarmiðstöð, hefur haft mikil áhrif í forvörnum og gefið einstaklingnum og fjölskyldum von og nýtt líf.

Ég er vinur vina minna og hef mikla hugsjón fyrir því sem ég berst fyrir sem snýst um geðsjúkdóma og mikilvægi forvarna.

Menntun og við hvað starfar þú í dag?

Ég er menntaður ráðgjafi úr Ráðgjafskóla Íslands 2009 og kláraði félagsliðanám vorið 2016. Ég fer með geðfræðslu í skóla hér á Akureyri og á landsbyggðini. Ég hef  talað á málþingum um eigin reynslu af geðsjúkdómum og starfið í Grófinni. Einnig kem ég fram í fjölmiðlum í viðtölum eða með greinarskrifum þar sem ég fjalla um geðsjúkdóma. Ég er einn af stofnendum Grófarinnar og kem að því starfi með ýmsu móti sem orkan leyfir.

Hver er megin ástæðan fyrir því að þú skiptir algerlega um starfsvetvang?

Ég er öryrki eftir tvær mjaðmaliðaskiptiaðgerðir og reyndar stefnir í þá þriðju sömu megin. Aðgerðin sem gerð var árið 2004 heppnaðist ekki nógu vel og hef ég verið verkjasjúklingur síðan en það bættist ofan á slitgigtina og síþreytu sem ég er með. Það var í verkjaskóla inn á Kristnesi í Eyjafirði sem ég fór í vegna allra verkjanna að ég sá fyrst hvaða geðsjúkdómar það voru sem ég hafði glímt við síðan í barnæsku. Þar öðlaðist ég von um að hægt væri að eignast gott líf og góð lífsgæði og er umfram allt þakklátur fyrir að hafa lifað af.

Segðu okkur aðeins af stöðu mála á Íslandi er snýr að geðheilbrigðismálum, erum við á réttri braut og að ná marktækum árangri? 

Með opinni umræðu og aukinni þekkingu, sem var ekki til staðar áður, erum við á réttri braut. Við þurfum samt að viðurkenna meira og taka á vandanum strax í æsku og gefa þannig börnum og ungmennum fleiri tækifæri í lífinu t.d. að mennta sig eins og aðrir.

Við erum alltof mikið að taka á afleiðingum í stað þess að byrgja brunnin áður en það er of seint.

Það sparar til langtíma að taka á málunum strax í æsku og við þurfum að byrja að hugsa þannig í stað þess að hugsa hvað þetta kostar í dag. Forvarnir eru líka það sem áherslan á að vera á. Ég myndi vilja sjá fagmenn sem eru menntaðir í þessum málaflokki í öllum grunn- og framhaldsskólum landsins. Það þarf að kenna fólki meira um mannleg samskipti og byggja upp sjálfstraust nemenda í grunnskólum sér í lagi í þessum heimi sem við lifum í núna í stöðugu áreiti frá margskonar samfélagsmiðlum sem sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að eru að valda ungu fólki kvíða og vansæld hvað þá eineltið sem virðist grassera á þessum miðlum.

Hvað þarf að gera betur og hvað er hægt að gera strax? Leggja meiri pening í félagasamtök sem eru í þessum geira?

Fyrst og fremst vil ég sjá meiri virðingu gagnvart fólki sem glímir við geðsjúkdóma. Það á að niðurgreiða sálfræðinga eins og er gert með sjúkraþjálfara enda hausinn partur af líkamanum.

Ég myndi vilja sjá fleira fagfólks sem eru menntaðir í þessum málaflokki í öllum grunn- og framhaldsskólum landsins. Kenna meira inn á samskipti og byggja upp sjálfstraust í grunnskólum. Þurfum að efla kennslu í mannlegum samskiptum og hvernig börn og ungmenni geti tæklað ýmis vandamál sem geta komið upp. Svört skýrsla ríkisendurskoðunar segir allt um hvað biðlisti er langur og hvað alvarleikinn er mikill hjá börnum og ungmennum.

Það þarf að skima miklu fyrr fyrir kvíða og vanlíðan en í 9. bekk því þetta getur byrjað miklu fyrr. Það þarf að bera meiri virðingu gagnvart geðsjúkdómum alveg eins og gert er með líkamleg veikindi. Það ætti að niðurgreiða sálfræðinga eins og er gert með sjúkraþjálfara. Fá foreldra til að mæta í geðfræðslu til að fræða þá og hjálpa þeim að sjá vandann sé hann til staðar eða í uppsiglingu. Einnig til að skapa umræður þeirra á milli. Gott væri að sjá meiri samvinnu milli fagfólks og reynsluboltanna sem þekkja geðsjúkdóma af eigin raun til að miðla af sinni reynslu.

Nýta sér meira reynslu fólks með geðsjúkdóma og ráða batafulltrúa á launum til félagasamtaka í samvinnu við fagfólk á jafningjagrunni. Við sjáum að hjá SÁÁ eru flest allir ráðgjafar óvirkir alkahólistar og því ekki að gera eins í félagasamtökum að nýta sér reynslu fólks sem hefur náð góðum bata af geðsjúkdómum? Ég myndi vilja sjá batafulltrúa í vinnu á geðdeildinni á sjúkrahúsinu á Akureyri eins og er á Landsspítalanum.

Vera með meiri forvarnir og fræðslu inni í íþróttahreyfingunni og þar yrði gerð stefnumótun er snýr að forvörnum. Íþróttir eiga að vera án fordóma og það þarf að sýna það í verki en ekki bara orðum. Ég myndi vilja sjá meiri geðfræðslu í minni sveitarfélögunum þar sem ég hef upplifað að þessi umræða er enn lokaðri.

Ég myndi vilja sjá meiri samvinnu milli allra þeirra sem vinna í þessum geira. Þá meina ég þegar ráðstefnur og málþing eru haldin þá gleymist stundum að landsbyggðin er til og þarf að fá rödd sem heyrist. Ég vil sjá samvinnu félagasamtaka þegar þarf að láta í sér heyra og senda frá sér sameiginlega yfirlýsingar um ýmis málefni og umfjöllun.

Munar eitthvað um það að hafa fengið sálfræðinga inn á heilsugæslustöðvar?

Það munar um allt, en það þarf meira og vonandi mun það gerast.

Er félagsfælni geðsjúkdómur og er algengt að fólk þjáist af félagsfælni?

Kvíðaröskunin félagsfælni er þriðja algengasta geðröskunin á eftir þunglyndi og alkóhólisma. Það eru á hverjum tíma 5 - 15% einstaklinga sem glíma við félagsfælni og því má reikna með að á hverjum tíma séu 15.000 - 45.000 þúsund Íslendingar með sjúkdóminn. Félagsfælni skerðir lífsgæði mikið og getur það haft alvarlegar afleiðingar til dæmis leita ansi margir í vímuefni eða einangra sig.

Nú hefur þú kynnt þér þunglyndi, kvíða og aðra andlega sjúkdóma, hefur þú kynnt þér fæðingarþunglyndi og er hægt að finna einhverjar samsvaranir í þeim sjúkdómi og hefðubundu þunglyndi?

Nei, ég verð að viðurkenna að það hef ég ekki gert. En veit að því fylgir mikið vonleysi og við þurfum að gera miklu betur í þeim málaflokki. Ég veit að félagar í Grófinni hafa talað um að það gæti verið gott að vera með hóp þar sem fólk með fæðingarþunglyndi getur hist og talað saman og fengið fræðslu. Vona ég að svo muni verða þar sem það er allt gott sem getur hjálpað og mikilvægt að við getum með hjálp fagfólks komið að málum með tímanum. Við í Grófinni erum öll að vilja gerð og ég skora á fagfólk og þær sem glíma við fæðingaþunglyndi að hafa samband.

Grófin, hvaða samtök eru það og hver eru ykkar megin markmið?

Grófin geðverndarmiðstöð var formlega stofnuð 10. október 2013 á Alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum það árið. Grófin vinnur eftir hugmyndarfræði batamódels á jafningjagrunnvelli og valdeflingar. Batamódelið felur í sér að hægt sé að ná bata af geðröskunum og valdeflingin er verkfæri sem stuðlar að bata. Unnið er með sjúklingum, aðstandendum og þeim sem hafa áhuga á geðheilbrigðismálum hér norðan heiða. Við vitum af eigin reynslu og annarra að ákvörðun um að taka ábyrgð á eigin líðan skiptir sköpum í að snúa sjúkdómsferli yfir í bataferli. Við nýtum okkur m.a. reynslu Hugarafls sem við höfum verið í samstarfi við undanfarin ár við mótun Grófarinnar. Hugarafl notar valdeflingamódelið og starfsemi þeirra sýnir fram á mikinn árangur og hafa þau fjölmörg dæmi þar sem einstaklingar hafa fengið von og náð góðum ef ekki fullum bata.

-Aðalmálið er að menn geti rofið sína einangrun og koma á sínum forsendum og enginn krafa gerð nema virðing. Sumir hafa byrjað með að fá sér kaffi og spjalla og náð að byggja oná það hægt og rólega. Gott að finna að maður er ekki einn heldur hluti af hóp sem öll eru að sækjast eftir því sama sem eru bætt lífsgæði.