Ég kveið fyrir að verða kvíðinn af hræðslu við óttann
Tilfinningarnar „ótti og kvíði“. Tvíburar samkvæmt minni reynslu. Við upplifum öll þessar tilfinningar og flest læra að stjórna þeim. Ég var ekki einn af þeim.
Ég var og er tilfinningarík manneskja sem fann til. Þráði ást og umhyggju sem barn. Fékk það upp að vissu marki.
Kvíði og ótti urðu að ríkjandi tilfinningum eftir mína barnæsku. Hélt að það væri eðlilegt. Langar að deila minni reynslu í stuttu máli. Gjörið svo vel.
Ég „lærði“ að vera kvíðinn!
Hef verið kvíðinn frá fyrstu minningu. Ég var glaður, uppátækjasamur og fjörugur pjakkur. Ég ólst upp á þeim tíma sem karlmaðurinn vann úti og konan átti að vera heima. Mamma var alltaf hörkudugleg og hún stundaði alltaf vinnu ásamt því að sjá um heimilið. Hún var ótrúleg kona. Það skorti aldrei neitt á mínu æskuheimili og höfðum það nokkuð gott. Það hefur því verið erfitt fyrir utanaðkomandi að ímynda sér að það væru vandamál á þessu heimili enda allt „shiny happy“ út á við.
En.. það voru draugar í skápnum. Vandamál, sem ég ætla ekki að útlista hér, en settu skugga á heimilislífið. Þá „kynntist“ ég ótta og kvíða. Þeir sem hafa alist upp á „brotnum“ heimilum vita hvað það þýðir og hvaða afleiðingar það getur haft.
Tökum dæmi um ótta. Þú ert barn. Kannski að koma úr skólanum. Veist ekki alltaf hvað bíður þín. Kvíði og ótti við að koma heim. Er allt í lagi? Stundum. Stundum ekki. Kannast einhver við þetta dæmi? Svona má „summera“ upplifunina að vera kvíðinn og hræddur! Ekki lítið álag á tilfinningalíf barns!
Að vera barn með kvíða og ótta…
Frá barnæsku kveið mér fyrir öllu. Nefndu það. Mæta í skólann. Fara í próf. Hitta ókunnuga. Fara að vinna, fara út í búð… öllu nema að keppa í íþróttum. Þar leið mér vel. Fótboltinn hélt mér gangandi. Hann var minn annar heimur og von.
Hvernig tekst barn á við kvíða og ótta? Ég lærði afneitun, að þegja og byrgja inni vanlíðan. Barn hefur ótrúlega aðlögunarhæfileika. Ég lærði að setja mig í „hlutverk“ eftir aðstæðum, til að fá athygli. Ég varð svo mótaður af ótta, kvíð að ég fór að trúa að þetta væru eðlilegar tilfinningar! Ég kom inn á önnur heimili og fannst það stundum óþægilegt því ég varð oft óöruggur með sjálfan mig. Skildi ekki hvers vegna.
Varð að deyfa sársaukann minn…
Með ótta, kvíða og reiði í farteskinu gekk ég út í lífið. Ég uppgötvaði, sem unglingur, frábært deyfilyf. Það heitir áfengi! Að svífa um í vellíðan, öruggur með sig og óttalaus. Kvíða- og óttastillandi. Þetta var lausnin! Það liðu ekki mörg ár þangað til ég fór að misnota vímuefni. Að„deyfa“ sívaxandi vanlíðan. Varð stjórnlaus, stefnulaus, rótlaus, og utangátta. Óttinn, kvíðinn og hræðslan jukust við hvern „bömmerinn“. Margir dagarsem ég þorði ekki út í búð, svara í símann eða dyrabjöllunni. Þróaðist yfir í paranoju. Það er hræðilegt ástand. Þú þráir dauðann í dýpstu paranojunni. Textinn úr laginu „Paranoja“ með Bubba er mér minnistæður og minnir mig á. „Hvernig er að vakna upp með fingraför á sálinni…“.
Í villu og svima….
Um og eftir tvítugt klúðraði ég öllu. Þá bættist við skömm og sektarkennd, sem margfaldaði kvíðann og óttann. Samt fannst mér ekkert vera að MÉR! Ég var fórnarlamb!. Já aumingja ég. Ég „funkeraði“ ekki í samfélaginu ódeyfður. Ég lokaði á mína nánustu. Hleypti engum nálægt mér. Ég gat ekki bundið mig í tilfinningasamband við hitt kynið því ég réð ekki við „venjulegar“ tilfinningar“. Það var tímaspursmál hvernig og hvaða afleiðingar þetta hefði á mitt líf. Gróf stöðugt mína eigin gröf. Það var reynt að ná sambandi við mig en var í afneitun og gat ekki, þorði ekki og vildi ekki horfast í augu við sjálfan mig. Að auki var ég bálreiður út í fólk og lífið!
Kraftaverkin gerast…
Árið 1993 var erfitt. Sumarið hræðilegt. Ég gekk á hroka og var aggressivur. Mín vörn. Mér leið ömurlega. Lítill strákur inn í mér grét, nagaður af kvíða og ótta! Allt sumarið ...LESA MEIRA