Fæðingarþunglyndi - hvað er til ráða?
AÐ EIGNAST BARN er fyrir flesta foreldra dýrmæt lífsreynsla sem einkennist af hamingju, gleði og tilhlökkun. Þá er þetta einnig tími mikilla breytinga fyrir fjölskylduna.
Margar konur finna fyrir viðkvæmni, grátköstum og jafnvel geðsveiflum eftir barnsburð. Talið er að 15% kvenna þjáist af þunglyndi eftir fæðingu. Oft getur verið erfitt að átta sig á hvort um sé að ræða fæðingarþunglyndi, þar sem einkennin eru ekki ólík þeirri líðan sem er algeng eftir fæðingu eins og t.d. þreyta, lystarleysi, svefntruflanir og kvíði.
Þær breytingar sem geta orðið á andlegri líðan kvenna eftir fæðingu má skipta í þrennt:
1. Sængurkvennagrátur er skammvinnt og eðlilegt ástand sem einkennist af skapsveiflum, dapurleika, pirringi, kvíða, einbeitingarskorti, svefnleysi og grátköstum. Sængurkvennagrátur byrjar hjá 40 - 80% sængurkvenna á 2. – 3. degi eftir fæðingu. Einkennin ná yfirleitt hámarki á 5. degi og hverfa innan tveggja vikna.
2. Fæðingarþunglyndi hefur svipuð einkenni og sængurkvennagrátur en konan finnur yfirleitt fyrir einkennunum 4 - 6 vikum eftir fæðingu. Fæðingarþunglyndi hefur mikil áhrif á hvernig konunni líður gagnvart sjálfri sér og barninu sínu. Það getur haft mikil áhrif á samband hennar við sína nánustu.
3. Fæðingarsturlun er sjaldgæf en er mjög alvarleg. Ein til tvær af hverjum 1000 konum fá fæðingarsturlun eftir fæðingu. Konur sem fá fæðingarsturlun missa raunveruleikatengsl, geta orðið eirðarlausar og mjög ólíkar sjálfum sér. Þessar konur þurfa að leita læknishjálpar hið allra fyrsta.
FEÐUR OG NÁNUSTU AÐSTANDENDUR
Feður þurfa líka stuðning og fræðslu frá ljósmóður og/eða öðru heilbrigðisfagfólki um þær breytingar sem geta átt sér stað fyrstu vikurnar og mánuðina eftir fæðingu. Fæðingarþunglyndi kvenna getur tengst þunglyndi hjá feðrum. Rannsóknir um hvernig feður upplifa fæðingarþunglyndi makans hafa sýnt að sérstakir stuðningshópar fyrir feður geta dregið úr vanlíðan og streitu. Því miður hafa þannig hópar ekki verið starfandi hér á landi.
Fæðing barns er mjög gleðilegur atburður í lífi langflestra foreldra og það hljómar því undarlega að meira en tíunda hver kona fær þunglyndi eftir fæðingu.
Flestum batnar innan fárra mánaða en um þriðjungur þessara kvenna hefur merki um þunglyndi sex mánuðum eftir fæðinguna og hjá fáeinum þróast þetta áfram í langvarandi þunglyndi eða geðröskun. Þunglyndi eftir fæðingu getur augljóslega haft mikil áhrif á móður og barn og einnig á önnur sambönd innan fjölskyldunnar.
Röskun á geði eða tilfinningum er algeng á meðgöngu og eftir fæðingu og getur tekið á sig ýmsar myndir. Algengasta röskunin er þunglyndi eða depurð eftir fæðingu. Það sem kalla mætti fæðingardepurð (maternity blues) er svo algengt að nánast má líta á það sem eðlilegan hluta af þeim tilfinningalegu breytingum sem verða hjá móðurinni eftir fæðingu. Þetta ástand einkennist af geðsveiflum, grátköstum, sjúkdómahræðslu, kvíða og pirringi. Þessi einkenni ná venjulega hámarki 3-5 dögum eftir fæðinguna og eru oftast að mestu horfin á tíunda degi. Fæðingardepurð krefst ekki neinnar sérstakrar meðferðar en kallar á stuðning ættingja og vina við móðurina og fjölskyldu hennar.
Fæðingarþunglyndi (postnatal depression) er annars eðlis og miklu alvarlegra ástand. Í fjölmörgum rannsóknum á samtals tæplega 13 þúsund konum kom í ljós að 13% fengu fæðingarþunglyndi. Fæðingarþunglyndi var algengast á fyrstu þremur mánuðunum eftir fæðingu og algengast var að það byrjaði 4-6 vikum eftir fæðingu. Kona sem einu sinni hefur fengið fæðingarþunglyndi er í meiri hættu en aðrar að fá það eftir næstu fæðingu (30% líkur).
Til að hægt sé að beita fyrirbyggjandi aðgerðum hefur mikið verið reynt að finna einhverja áhættuþætti sem auka líkur á fæðingarþunglyndi. Áhættuþættir sem fundist hafa eru fyrri geðraskanir, þunglyndi á meðgöngutímanum, slæmt samband við maka (föður), skortur á félagslegum stuðningi og nýlegt persónulegt áfall eins og veikindi eða missir náins einstaklings. Mikil fæðingardepurð virðist stundum geta þróast yfir í fæðingarþunglyndi.
Fyrir og eftir fæðingu verða miklar hormónabreytingar í líkama móðurinnar og áður fyrr þótti mörgum líklegt að fæðingarþunglyndi stafaði af óeðlilegum hormónabreytingum. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar til að kanna þessa tilgátu og í stuttu máli hafa ekki fundist nein rök fyrir því að skýringin liggi í hormónabreytingum. Einkenni fæðingarþunglyndis eru að flestu leyti eins og við annars konar þunglyndi og erfitt að greina þar á milli. Eins og í öllu þunglyndi er viss hætta á sjálfsvígum og þarf að gæta vel að vísbendingum um slíka hættu. Einnig hugsa sumar mæður um að meiða barnið og geta þær hugsanir verið ágengar og valdið móðurinni verulegu hugarangri og sektarkennd. Samkvæmt nýlegum erlendum rannsóknum hugsa um 40% mæðra með fæðingarþunglyndi um að meiða barnið en um 7% þeirra sem ekki eru þunglyndar. Það skal tekið fram að það er ákaflega sjaldgæft að mæður meiði börn sín eða valdi þeim heilsutjóni.
Án meðferðar batnar flestum konum fæðingarþunglyndi á 3-6 mánuðum en nálægt 10% þeirra hafa samt merki um sjúkdóminn eftir eitt ár. Fæðingarþunglyndi getur haft mjög slæm áhrif á fjölskyldulífið og truflar iðulega eðlileg tilfinningatengsl móður og barns sem getur haft langvarandi áhrif á þroska barnsins. Það er því mikilvægt að fyrirbyggja, greina og meðhöndla fæðingarþunglyndi eftir því sem kostur er.
Almenn fræðsla um sjúkdóminn er mjög mikilvæg, m.a. til að fjölskylda konunnar veiti allan mögulegan stuðning. Þunglyndi eða depurð á meðgöngutímanum þarf að meðhöndla og veita móðurinni allan þann stuðning sem hún þarf í fæðingunni og eftir hana. Þær konur sem fá fæðingarþunglyndi þurfa að fá meðferð, og þar er um að ræða viðtalsmeðferð, lyf eða bæði. Nútíma meðferð við þunglyndi ber oft góðan árangur og með því móti er hægt að draga úr eða hindra skaðleg áhrif sjúkdómsins á móður, barn, maka og aðra fjölskyldumeðlimi.
Heimildir: ljosmodir.is, lyfja.is