Fara í efni

Hæfileikar búa í okkur öllum

Ég vil byrja þessa grein mína á frægum orðum Sir Alberts Einstein: „Everybody is a genius. But if you judge a fish by it´s ability to climb a tree, it will live it´s whole life believing that it is stupid".
Hér er Albert Einstein
Hér er Albert Einstein

Ég vil byrja þessa grein mína á frægum orðum Sir Alberts Einstein: „Everybody is a genius.  But if you judge a fish by it´s ability to climb a tree, it will live it´s whole life believing that it is stupid“.  

Einstein, einn mesti og greindasti maður tuttugustu aldarinnar, hafði mikið fyrir sér með þessum orðum, sem við öll gætum tileinkað okkur að einhverju leiti. Allir einstaklingar eru mismunandi að eiginleikum og hæfileikum en lifa í samfélagi í dag þar sem sumir hlutir eru meira metnir en aðrir. Ákveðin forgangsröðun hefur myndast þar sem hæfileikar allra eru því miður ekki jafnt metnir, þar sem genalottóið hefur gert suma að sigurvegurum fyrirfram, en aðrir sitja eftir.  Þeir sem til dæmis eiga auðvelt með bóknám njóta góðs af kerfinu, þar sem bókmennt virðist vera í hærri metum en nokkuð annað. Þeim sem hins vegar gengur illa í skóla (í bóknáminu) verslast oft upp í kerfinu með vantrú á sjálfum sér, finnst þeir ekki nógu góðir.  Með þessari vantrú á sjálfum sér fara þeir því í gegnum allt sitt líf með því hugarfari að vera „second class citizen“ og lifa aldrei upp til þeirrra möguleika og hæfileika sem þeim voru gefnir.

kk

Allir eru ekki skapaðir eins, og ég held að við kunnum flest að meta þá miklu fjölbreytni af fólki sem finnst í samfélagi okkar í dag.  En ef við höfum aðeins eina leið til þess að læra og mennta börnin okkar þá munu ávalt einhverjir verða útundan.  Það að fólk hætti í skóla og fari sínar eigin leiðir er algerlega af hinu góða, en sumir upplifa það sem mistök. Sá sem er lélegur í stærðfræði gæti verið frábær kokkur og sá sem er lélegur í tungumálum gæti verið frábær smiður. En ef þessir einstaklingar fara að trúa því að þeir séu verr gefnir en aðrir þá getur það haft gífurleg áhrif á sjálfstraust og sjálfsálit þeirra.  Þeir hafa kannski alla þá hæfileika eða kosti sem þarf til þess að vera bestir á sínu sérsviði en vegna skorts þeirra á sjálfstrausti láta þeir aldrei almennilega reyna á hæfileika sína.  

Einstein sagði einnig: „Example isn´t another way to teach, it is the only way to teach“.

Að tileinka sér eitthvað úr texta getur stundum verið erfitt, en að tileinka sér eitthvað út frá reynslu sinni og annarra er oft svo miklu einfaldara. Svo mig langar til að deila með ykkur sögu minni, og þar með kannski sýna aðra leið til að upplifa sjálfan sig.  Mér fannst alltaf hálf leiðinlegt í skóla. Leikfimi, heimilisfræði, tónfræði og smíðar voru alltaf uppáhalds greinarnar mínar, en öll fögin þar sem við þurftum að sitja við skólaborðið voru erfið. Sex ára var ég sendur til sálfræðings, því samkvæmt kennaranum var víst eitthvað að mér, ég var ekki eins og hinir krakkarnir. Ég var ekki greindur ofvirkur, en ólíkt og í dag þá vissum við ekki að ég læri lang best með hreyfingu. Svo það að sitja kyrr í skólastofu yfir bókum og verkefnum var algjör martröð.

Ég var alinn upp í þeirri trú að það yrði ekkert úr manni nema maður færi í háskóla og stefndi því á að verða læknir eins og hann afi. Tvítugur gafst ég samt upp, fékk nóg af skóla og flutti til Tælands að læra bardagalistir. Og hvað haldiði að hafi gerst? Með 5-7 tíma æfingum á dag fór ég allt í einu að lesa. Þessi mikla orka sem ég alltaf hafði var loksins nýtt í eitthvað og þá varð ég allur rólegri. Allt í einu gat ég einbeitt mér og sýnt bókum áhuga. Ég las allt frá næringu til heimspeki og gat bara ekki fengið nóg, allt í einu elskaði ég að læra.  Næstu ár á eftir ferðaðist ég enn frekar og bjó og lærði í Englandi, Indlandi (læra jóga), Austurríki (kenna á skíði) og Kína (læra Kung Fu).  Alls staðar stundaði ég íþróttir og las af kappi.  

Með öllum æfingunum jókst forvitni mín enn frekar og ég hélt áfram að læra.  Samt sem áður var ég alltaf þeirra trúar að eina menntunin sem vit væri í kæmi frá háskóla.  En ég gat samt engan veginn hugsað mér að eyða megninu af deginum inn í skólastofu á ný.  Ég hafði ekki öðlast þann þroska að líta á menntun og þekkingu mína sem eitthvað sérstakt, eitthvað verðmætt, einfaldlega vegna þess að ég hafði ekki tekið lokapróf eða var ekki með háskólaskírteini til að sýna fram á hana.

En eftir að hafa hitt Tyler, góðan vin minn í Kína, en hann er einn greindasti einstaklingur sem ég hef á æfinni kynnst, áttaði ég mig á nokkru einstöku. Tyler,sem er sjálfmenntaður að öllu leyti og ekki með háskólapróf til að sýna fram á neina menntun, sýndi mér þarna með fordæmi sínu að maður þarfnast einungis háskólaskírteinis í samfélagi sem krefst háskólaskírteinis.  Þannig að í því samfélagi þar sem háskóli (tréð í dæmi Einsteins) væri staðalímynd á menntun, mundi mér finnast ég vera ómenntaður (get ekki klifrað tréð).  Þetta væri einungis hindrun sem ég hafði talið mér trú um.  Eftir þessa uppgötvun fór ég að líta sjálfan mig allt öðrum augum.  Allt í einu var ég ekki einhver sem var getulaus í skóla heldur einstaklingur með verðugt áhugamál sem ég hafði lesið mér til um og var bæði orðinn vel lærður á því sviði og kunni það vel.

Og allt í einu var ég fullur sjálftausts og hafði trú á menntun minni.  Með samræðum mínum við fólkið í kring um mig, þar sem ég deildi þekkingu minni og reynslu, fór ég að sjá betur og betur að ég hefði eitthvað fram að færa og væri að hafa áhrif.  Fólk hlustaði af einlægni og fór að taka ráðum mínum og fór að lifa, borða eða æfa eftir þeim.  Ég sýndi því með fordæmi mínu hvað lífið væri fullt af tækifærum og möguleikum, ef við aðeins næðun að brjóta okkur leið út úr félagslegum hömlum okkar (að finnast við ekki lengur heimsk eins og í dæmi Einsteins) og lifa lífinu eftir okkar eiginleikum og hæfileikum.

Með þessari grein er ég ekki að reyna að fá alla til að hætta í skóla og ferðast um heiminn.  Ég er ekki að segja að mín leið til menntunar og lífsstíls sé sú rétta fyrir alla, einungis að hún hafi verið sú rétta fyrir mig.  Ég vil einungis vekja upp þá hugsun að þrátt fyrir að maður sé ekki bestur eða góður í öllu þá þýðir það ekki að maður sé ekki bestur eða góður í neinu.  Ég vil hvetja fólk til þess að sækjast eftir því sem því finnst skemmtilegt, sem höfðar til þess eða leikur í höndunum á því.  Hvort sem það er að hjálpa fólki líkt og kennarar og læknar gera eða vera skapandi líkt og listamenn, kokkar og smiðir.  En hvað sem þú kýst að gera, gerðu það sem liggur í eðli þínu og þú hefur trú á að passi þér.  Gerður það sem þig langar að gera, en ekki það sem samfélagið þvingar þig til að gera.  Tilhneigingin er sú að okkur finnst það skemmtilegt sem við erum góð í.  Með því að finnast það sem maður gerir skemmtilegt þá gleymir maður öllu erfiði, maður hlakkar til vinnunnar, hlakkar til hvers nýs dags.

kk

En af hverju skrifa ég þessa grein?

Mig langar að sýna fleirum í kringum mig hvað lífið getur verið öðruvísi og betra en við gerum okkur grein fyrir.  Mig langar að sýna fram á aðrar leiðir en þær sem hafa skapast í okkar samfélagi til menntunar og auka trú okkar á okkur sjálfum.  Mig langar að brjóta niður þá slæmu staðalímynd sem við höfum sennilega skapað okkur og opna nýjar dyr með nýjum tækifærum og öðrum hugsunarhætti.  Lífið er ekki eins flókið og margir halda og því vil ég vera til staðar og benda á þessa nýju möguleika.

Með 6 vikna stoppi mínu á landinu verð ég með fyrirlestur í Háskólabíó sunnudaginn 7. desember um nýtt hugarfar til einfaldara og ánægjulegra lífs. Ég mun einnig kenna námskeið um betri líkamsbeitingu og aukna líkamsmeðvitund sem byrjar 17. og 18. nóvember  í World Class í Reykjavík (4 vikur) og einnig vikulangt námskeið sem byrjar 15. desember í Átaki á Akureyri.  

Mig langar að miðla reynslu minni og þekkingu til sem flestra og þar með opna þeim nýjar dyr til annarra möguleika, en nú eru í sjónmáli.

Með von um að ykkur hafi líkað vel við þessi skrif mín.

Gísli Gunnarsson Bachmann