Fara í efni

Hreyfðu þig

Mundu að þú færð aðeins eina heilsu og einn líkama í vöggugjöf, berðu virðingu fyrir heilsunni, líkamanum og sjálfum þér.
Hreyfing er bara af hinu góða
Hreyfing er bara af hinu góða

Hreyfðu þig að minnsta kosti fimm daga vikunnar, gott er að hafa þolþjálfun inni tvo daga vikunnar, styrktarþjálfun tvo daga og jafnvel jóga, létt sund eða aðra létta hreyfingu eins og hjólreiðar milli staða eða með börnunum, fimmta daginn. Teygjur eru nauðsynlegar og jóga og sund er bara til að bæta og gera heildarmyndina enn betri.

Berðu virðingu fyrir þér og heilsunni þinni

Mundu að þú færð aðeins eina heilsu og einn líkama í vöggugjöf, berðu virðingu fyrir heilsunni, líkamanum og sjálfum þér.

Njóttu

Nóttu þess að vera til og notaðu hreyfingu til að vinna úr vandamálunum og vanlíðan, ekki mat, áfengi eða örvandi efni.

Huga að eftirfarandi þáttum þegar mataræðið er annars vegar

Gæta að vali á hráefni við matargerð og velja sem mest af fersku hráefni sem notað er til að elda sem mest frá grunni.

Útbúa innkaupalista, halda sig við hann og fara ekki að versla á tóman maga. Vera meðvitaður neytandi sem les á umbúðir matvæla og nú og í framtíðinni að velja oftar fæðutegundir merktar með skráargatinu (Græna skráargatinu)

Borða reglubundið, eða á 2-3 klst. fresti yfir daginn og morgunverð alla daga. Borða líka hollt og reglubundið um helgar og ekki sleppa sér alveg á nammideginum.

Drekka vatn, yfir daginn og með máltíðum, ekki of mikið og ekki of lítið, fylgjast með litnum á þvaginu sem á að vera ljósleitt.

Nota lítið af salti og söltum kryddblöndum við matargerð, nota frekar saltlaus krydd og kryddjurtir og leyfa þannig náttúrulegu bragði hráefnisins að njóta sín sem best

Skipta ekki kókosolíu inn og ólífuolíu út, það er í lagi að nota kókosolíu af og til en ólífuolían er enn valkostur númer eitt.

Borða fisk minnst þrisvar í viku, og feitan fisk jafnvel vikulega og taka lýsi og jafnvel Omega-3 því til viðbótar á hverjum degi. Í mataræðið okkar vantar Omega 3 fitusýrur sem meðal annars draga úr bólgum í líkamanum. Hins vegar vantar okkur ekki Omega-6 eða Omega-9 og það er að bera í bakkafullan lækinn að taka þær inn á formi fæðubótarefna eins og sumstaðar er ráðlagt. Það er aðeins til að skekkja hlutfall Omega-3/Omega-6 enn frekar en orðið er og er ekki til bóta fyrir heilsuna.

Borða tvo skammta af ávöxtum og berjum á dag og hafa úrvalið fjölbreytt. Muna að bananar eru í lagi og hluti af hollu mataræði. Drykkir úr ávöxtum eru einnig hollir og leið til að drekka í sig hollustuna.

Grænmeti er hollt, og okkur er ráðlagt að borða grænmeti daglega. Grænmeti passar með öllum mat, sem álegg ofan á brauð, hrökkbrauð og pítsur, inn í vefjur og pítubrauð en einnig sem snakk       á milli mála. Drykkir og súpur þar sem megin uppistaðan er grænmeti er einnig góð leið til að              bæta mataræðið og hollustuna. Litsterkt grænmeti er með því hollasta sem þú getur borðað, því           fleiri litir því betra er gullna reglan varðandi ávexti og grænmeti.

Borða brauð ríkt af fræjum og  korni og muna að brauð er hluti af hollu mataræði. Lesa á næringargildislýsinguna og ef að brauðið inniheldur 6 g eða meira af trefjum í 100 g má kalla það trefjaríkt. Huga að trefjum með því að borða grófkorna brauð, gróft morgunkorn t.d. hafragraut, bygggraut,  Cheerios, Bygga, Weetabix og heilhveiti kornflögur. Grautar með viðbættum fræjum eru einnig hollir og næringarríkir.

Ekki gleyma baunum og linsubaunum, þær eru næringar- og trefjaríkar og því frábær valkostur í bland við annan mat. Einnig góð próteinviðbót saman við matarmiklar súpur.

Taka meðvitaða ákvörðun um val á skyndibita, þar eru margir valkostir.

Fitubrennsluefni viljum við forðast og það er ekki hollt að nota koffein til að örva líkaman á æfingum eða í annan tíma. Það er ekki heldur æskilegt að venja sig á að misnota koffín við æfingar því þá verður erfitt að fara á æfingar án þess. 2-3 bollar af kaffi á dag eru hins vegar í lagi nema fyrir ófrískar konur þær ættu að takmarka sig við 1-2 bolla á dag. Þá mælir WHO með að drekka 1-2 bolla af grænu te á dag

Fríða Rún Þórðardóttir, Næringarfræðingur, næringarráðgjafi, íþróttanæringarfræðingur.

Teitur Guðmundsson, Læknir