Fara í efni

Hver vegna eltum við atferli annara ?

Sunnudaginn 7. desember verð ég með fyrirlesturinn „Hófsemi og aukin lífsgleði“ í Háskólabíó en hann fjallar um nýtt hugarfar til einfaldara og ánægjulegra lífs.
Gísli Gunnarsson Bachmann
Gísli Gunnarsson Bachmann

Líkt og ljón erum við mannfólkið félagslegar verur.  Við þrífumst best í kringum fólk sem okkur finnst skemmtilegt og þykir vænt um. 

Það að vera samþykkt af öðrum í okkar samfélagi er okkur mikilvægt, að deila með öðrum tilfinningum okkar, hugmyndum og skoðunum. Allt spilar þetta verulegan þátt í andlegri, líkamlegri og tilfinningalegri heilsu okkar. 

Hins vegar eru tígrisdýr algerir einfarar og líður best í einrúmi, fjarri öðrum tígrisdýrum.  Sú huggun og það öryggi sem felst í því að vera partur af hópi hjá ljónum og mönnum er ekki til staðar hjá tígrisdýrum.  Vilji okkar og þörf til þess að vera partur af samfélaginu er svo stór að það veldur okkur hugarangri og óvissu að ganga gegn þeirri þörf. Rannsókn frá árinu 1951 sýnir vel fram á þá tilhneigingu okkar að fylgja hópnum.

s

Salomon Asch gerði þá nokkrar rannsóknir þar sem hann safnaði 8 – 10 háskólanemum saman í herbergi þar sem allir nema einn voru leikarar.  Rannsóknin fólst m.a. í því að nemunum var sýnt spil með einni línu og síðan var þeim sýnt annað spil með þremur línum.  Þeir áttu að taka fram hver af þessum þremur línum væri jafn löng og sú á fyrra spilinu.  Augljóst var hver af þessum línum væri sömu lengdar en leikararnir fengu þau fyrir mæli að gefa rangt svar. 

Ástæðan var sú að Asch vildi athuga hvort þessi eini nemandi sem ekki var leikari, myndi breyta svari sínu til að vera eins og hinir eða gefa rétt svar við þessari augljósu spurningu.  Raunin reyndist sú að nánast undantekningalaust gáfu nemarnir sama svar og leikarahópurinn.  Þau gáfu rangt svar þrátt fyrir að hafa vitað betur.  Asch spurði síðan nemana eftirá hvers vegna þeir hefðu gefið rangt svar.  Þau sögðust ekki hafa viljað svara öðruvísi en hinir, því ella yrðu þau einangruð frá hópnum.

h

Það að vera partur af heildinni er nefnilega flestum okkar mikilvægara en  margur gerir sér grein fyrir.  Rannsóknin sýndi að í hópi fólks væri maður sáttur við að segja að hákarl væri höfrungur ef það var það sama sem allir aðrir voru sammála um.  Við erum frekar tilbúin að gefa eftir og fylgja hópnum, en fara á móti fjöldanum og skapa þar með möguleg vandamál, óþægindi eða rifrildi.

Það þarf gífurlegan styrk og sjálfstraust til þess að standa upp á móti öllum öðrum og andmæla t.d. ranghugmyndum sem vaða uppi í samfélaginu.  Maður þarf að vera öruggur með sjálfan sig og viss um að hafa á réttu að standa þegar þær aðstæður skapast, að maður verður annað hvort partur af heildinni eða stendur fyrir utan hana. 

En hvað getur maður gert til þess að gera skoðanir sínar skiljanlegar og hafa kjark til þess að halda sínu fram?  Sú tilhneiging okkar að vera samþykkt af öðrum í kringum okkur spilar stærstan þáttin í því að við fylgjum hópnum eftir.  Ef við þurfum ávallt að leita eftir viðurkenningu frá öðrum þá munum við líkast til aldrei getað stigið út úr álíka áhrifahópi sem Asch tók saman. 

Við þurfum að byrja á að trúa á okkur sjálf og trúa því að við séum frábær eins og við erum gerð, að við þurfum ekki að vera eins og allir aðrir.  Við þurfum að átta okkur á hvað við í rauninni viljum og kynnast okkur sjálfum betur. 

Við þurfum að byrja á því að skilja okkur frá heildinni til þess að skilja  hvað það er sem við í rauninni viljum.  Hvaða skoðanir eru okkar eigin og hins vegar hvaða hugmyndum fylgjum við eftir einfaldlega vegna þess að aðrir segja eða gera það. 

j

Hér þarf hver og einn einstaklingur að líta eins gagnrýnum augum og hann getur á sjálfan sig, hvort sem honum líkar vel eða illa við þær tilfinningar eða hugmyndir sem sækja á hann.  Við þurfum að samþykkja hver við í rauninni erum,  þrátt fyrir að það sé á móti þeim hugmyndum sem vinir okkar og fjölskylda hafa tamið sér.  Hvað er það sem okkur virkilega langar til að gera og hvernig líður okkur persónulega gagnvart því sem er að gerast í kringum okkur?  Þrátt fyrir að vera  félagslega bundin sterkum böndum þá þurfum við að læra að einangra okkur frá öðrum til þess að öðlast betri skilning á okkur sjálfum.  Þegar við höfum öðlast skilning og trú á sjálfum okkur þá getum við aftur sameinast heildinni.  En ekki lengur sami einstaklingurinn sem við vorum.  Við erum ekki lengur líkt og plastflaska sem flýtur á hafinu undan vindi eða straumum. Við höfum öðlast kjark til að standa með skoðunum okkar, okkur sjálfum.

Hvers vegna fór ég að tala um ljón og tígrisdýr í byrjun greinarinnar?  

Vegna þess að við þurfum að geta tileinkað okkur eiginleika beggja dýranna.  Við erum félagsverur og okkur líður því best innan um aðra í okkar samfélagi.  En við erum sjálfstæðir einstaklingar með sjálfstæðan vilja og skoðanir.  Við höfum öll þá kosti og eiginleika að vera ekki einungis partur af hjörðinni heldur getum við gert það sem okkur finnst rétt og það sem við trúum á.  Við þurfum að tileinka okkur eiginleika tígrisdýrsins með þvi að skilja okkur frá  öðrum um stundarsakir  til þess að finna okkur sjálf.  Síðan, líkt og ljónin, að lifa sem þær félagsverur sem eðli okkar býður, með öllum þeim sem standa okkur næst, sem okkur þykir vænt um. 

j

Að vera sjálfstæðir einstaklingar í betra og heilbrigðara samfélagi.

Sunnudaginn 7. desember verð ég með fyrirlesturinn „Hófsemi og aukin lífsgleði“ í  Háskólabíó en hann fjallar um nýtt hugarfar til einfaldara og ánægjulegra lífs.  Ef þið hafið áhuga á því sem ég skrifaði hér að framan þá gæti þessi fyrirlestur verið fyrir ykkur.

Allar upplýsingar má finna á facebook síðu minni HÉR. og á midi.is: http://midi.is/atburdir/1/8662

Gísli Gunnarsson Bachmann