Hollari hafraklattar með banana og hnetusmjöri frá Eldhúsperlum
Kvöldmaturinn undanfarnarna daga hefur einkennst af réttum sem elda sig helst sjálfir, eru tilbúnir á undir 10 mínútum eða afgangar.
Á svona dögum verð ég hálf óróleg og sakna þess svo að hafa ekki tíma til að dunda mér í eldhúsinu á mínum hraða. Þá dett ég stundum í gír seinna um kvöldið, barnið sofnað og allt komið í ró.
Ég hef sagt það áður og segi það aftur að eldamennska og bakstur á rólegu nótunum er fyrir mig eins og besta slökun eða íhugun.
En þessar kökur urðu einmitt til í vikunni í rólegri eldhússtund. Þær eru kjörinn morgunmatur eða millibiti og ákaflega bragðgóðar. Áferðin á þeim er svolítið eins og af hráu hafra smákökudeigi.. Veit ekki með ykkur en það hringir allavega bjöllum hjá mér. Við vorum mjög ánægð með þær og líka sá fimm ára sem er næstum alltaf besti mælikvarðinn að mínu mati.
Hollari hafrakökur með banana og hnetusmjöri:
Bollamálið mitt er 2.5 dl
- 2 og 1/3 bolli haframjöl
- 1 tsk kanill
- 1/4 tsk gott sjávarsalt
- 1/2 bolli möndluflögur eða hakkaðar möndlur (líka hægt að nota hnetur)
- 1/2 bolli rúsínur (má sleppa)
- 1 bolli ósætt hnetu- eða möndlusmjör
- 3 msk hunang
- 2 msk kókosolía
- 2 stórir þroskaðir bananar stappaðir
- 1 tsk vanilluextract
Aðferð:
Hitið ofn í 160 gráður með blæstri, annars 180 gráður. Hrærið þurrefnunum saman í skál. Blandið saman hnetusmjöri, hunangi, kókosolíu, bönunum og vanillu og hrærið saman við þurrefnin. Setjið deigið á smjörpappírsklædda plötu með tveimur matskeiðum eða ísskeið. Hver kaka er um 2 msk af deigi. Ýtið aðeins ofan á kökurnar, þær renna ekkert út við bakstur. Bakið í 13-15 mínútur eða þar til þær eru aðeins byrjaðar að brúnast í köntunum. Geymast vel í ísskáp í a.m.k viku.
Uppskrift af eldhusperlur.com