Ilmandi kanilsnúðar frá Mæðgunum
Hér áður fyrr var snúðakakan hennar ömmu Hildar fastur liður hjá fjölskyldunni á afmælisdögum. Kakan var samsett af mörgum mjúkum snúðum úr heilhveitiblöndu, sem amma kryddaði með kanil og sætti hóflega með hrásykri.
Snúðarnir runnu ávallt ljúflega niður og voru vinsælir meðal ungra afmælisgesta.
Það blandaðist því svolítil nostalgía við kanil ilminn í loftinu þegar við mægðurnar bökuðum saman mjúka kanilsnúðaköku og fengum litla fingur til að taka þátt.
Við komumst að því að snúðabakstur er notaleg iðja í skammdeginu.
Snúðarnir urðu mjúkir og góðir, við ákváðum að nota lyftiduft og eplaedik í deigið frekar en að nota ger, það kom ekki að sök. Og í staðinn fyrir hinn hefðbundna kanilsykur smurðum við þá með döðlu-kanil-mauki. Til að auka á lúxusinn bræddum við 70% lífrænt súkkulaði og helltum yfir snúðana....dásemd!
Best er að byrja á því að útbúa deigið og leyfa því síðan að standa í smá stund á volgum stað á meðan döðlumaukið er útbúið. Svo er bara að rúlla deigið út, smyrja þunnt lag af döðlumauki, strá kanil og smávegis af kókosolíu yfir, áður en deiginu er rúllað upp í eina rúllu, sem síðan er skorin í litla snúða. Svo röðum við snúðunum í eldfast mót og bökum. Á meðan snúðarnir eru í ofninum er tilvalið að bræða gott súkkulaði (helst lífrænt og fairtrade) til að hella yfir snúðana um leið og þeir koma úr ofninum. Snúðarnir eru laaang bestir nýbakaðir!
Uppskriftin
Snúðadeig
6 ½ b spelt – fínt og gróft til helminga
2 tsk lyftiduft
1 tsk kanill
¾ tsk salt
2 ¾ - 3 dl jurtamjólk
1 dl vegan smjörlíki eða kókosolía
8 döðlur
1 msk eplaedik
Döðlumauk
350g döðlur
1 dl vatn
1 tsk vanilla
1 tsk kanill
Sjóðið döðlurnar í vatninu í um 5 mín, setjið í matvinnsluvél og maukið. Það má líka hræra/stappa saman, en þá verður maukið grófara og döðlubragðið kemur sterkar í gegn.
..og líka
2 msk kókosolía
1 tsk kanill
70% súkkulaði, lífrænt og fairtrade
Aðferðin
- Setjið þurrefnin í skál.
- Setjið jurtamjólkina, olíuna, döðlurnar og eplaedikið í blandara og blandið þar til döðlurnar hafa leyst upp.
- Hellið jurtamjólkurblöndunni út í skálina með speltinu og hnoðið í deigkúlu. Okkur finnst best að láta deigið standa á volgum stað í ca 30 mín, en það má nota deigið strax ef þið eruð mjög svöng...
- Við skiptum deiginu upp í 2 hluta og flöttum hvorn hluta fyrir sig, en það má líka gera í einum hluta.
- Fletjið vel út, smyrjið döðlumaukinu þunnt á og stráið kanildufti yfir og setjið litlar klípur af kókosolíu ofan á.
- Rúllið deigið frekar þétt í rúllu og skerið u.þ.b. 2-3 cm þykkar sneiðar.
- Setjið snúðana í form eða á bökunarplötu með smjörpappír og bakið í u.þ.b. 12-15 mín (gæti þurft 20 mín ef þeir eru mjög stórir) eða þar til þeir eru orðnir gylltir á lit
- Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og smyrjið yfir snúðana.
Uppskrift af vef maedgurnar.is