Edda Björgvins slær í gegn í eldhúsinu - skemmtileg grein frá Tiska.is
Við fengum að birta þessa mjög svo skemmtilegu grein af vef tiska.is
Að slá í gegn í eldhúsinu.
Ég er alltaf að verða betri og betri kokkur. Nú má Nigella fara að vara sig því ég er að spá í að bjóðast til að vera með matreiðsluþátt í sjónvarpinu. Dóttir mín spurði hvort ég væri að meina svona grínþátt: Eldað með Eddu og slökkviliðinu! Ég veit ekki hvað það á að nudda manni lengi upp úr því að hafa gleymt feitinni á eldavélinni þarna um árið. Það þurfti hvort eð er að skipta um eldhúsinnréttingu!
En varðandi matreiðsluþætti í sjónvarpinu þá er það í minnum haft heima hjá mér að þegar Siggi Hall var að elda í sjónvarpinu í gamla daga þá sat einn þriggja ára fjölskyldumeðlimur fyrir framan sjónvarpið og horfði á hvern einasta þátt og skellihló allan tímann. Hann hélt að þetta væri gamanþáttur. Við erum enn að spá í það hvort Siggi Hall hafi verið svona óstjórnlega fyndinn eða litli drengurinn hafi þótt matargerð yfir höfuð svona hlægileg.
Mín sérgrein er að gera norskar Lefsur með túnfisksalati - mjög flókinn réttur þar sem grjótharðar kexplötur eru bleyttar upp og þegar þær eru orðnar mjúkar þá er þeim rúllað utan um túnfisksalat. Klikkar aldrei. Þennan rétt er ég t.d. yfirleitt með í saumaklúbb og vinkonur mínar dást alltaf jafn mikið að því að ég skuli hafa getað borið lefsurnar slysalaust á borðið. Ég er auðvitað í svolítið meiri hættu ef ég bý til eitthvað sem útheimtir það að ég kveiki á eldavélinni eða bakarofninum. Yngsti sonur minn heldur að hann muni aldrei finna konu sem jafnist á við mömmu í eldhúsinu. Hann sér fyrir sér að hann muni horfa ásakandi á konuna sína og segja: "Þetta er ekki eins og mamma gerði þetta! Þegar mamma eldaði þá fór reykskynjarinn alltaf í gang, þannig vissum við að maturinn var tilbúinn!" Þetta eru auðvitað ýkjur hjá drengnum.
Reykskynjarinn fer t.d. ekki í gang þegar ég útbý Lefsurnar. Það sullast að vísu ansi mikið vatn á gólfið þegar ég bleyti hveiti-plöturnar og majónesið dreifist aðeins um eldhúsið, en að öðru leyti verða nánast engin slys á mönnum að frátöldu óhappinu þegar fyrrverandi eiginmaðurinn rann í majónes slettu og rotaðist á eldhúsgólfinu. Hann flutti að heiman skömmu seinna.
Græni drykkurinn minn er samt það sem mér er oftast hrósað fyrir enda er ég mjög flink að finna góða kálhausa til að troða ofan í blandarann. Að vísu klikkaði drykkurinn einu sinni, ég misskildi aðeins hvað átti að vera mikið af Cayenne pipar og skellti teskeið útí drykkinn í staðinn fyrir að það áttu að vera nokkur korn, framan á hnífsoddi. Eldri sonur minn heldur því fram enn þann dag í dag að ég hafi reynt að drepa hann, en ég held að ég hafi kveikt áhuga hans á töfrabrögðum því þegar hann drakk græna drykkinn með piparnum þá stóðu eldtungurnar útúr honum og augun stóðu á stilkum. Flott atriði, en hann hefur ekki enn fyrirgefið mér þetta.
Shit hvað sumt fólk getur verið langrækið!
Ykkar Edda
www.eddabjorgvins.is // www.facebook.com/eddabjorgvins
Birt af vef tiska.is