Edengarðar Íslands - opið bréf til auðlindaráðherra
"Skemmst er frá því að segja að hann gerði ekkert af þessu - sagði ekki orð um sjálfbæra matvælaframleiðslu heldur bullaði bara eitthvað og sagði sögu af bóndakonu sem hefði boðið fólki í mat
Ísland er sjálfbært land og grænt
Þann 24. september sl. var haldinn fundur hér á landi í boði Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins um sjálfbæra matvælaframleiðslu og möguleg tækifæri hér á landi á því sviði í tilefni af því að stjórnendur Whole Foods Market voru hér á landi. Sigurður Ingi Jóhannsson auðlinda- og umhverfisráðherra átti að ávarpa fundinn og fara yfir stefnu stjórnvalda á sviði lífrænnar ræktunar og velta upp þeim möguleikum sem fyrir hendi eru í framtíðinni, bæði fyrir framleiðendur og neytendur.
"Skemmst er frá því að segja að hann gerði ekkert af þessu - sagði ekki orð um þetta heldur bullaði bara eitthvað og sagði sögu af bóndakonu sem hefði boðið fólki í mat og allt hráefnið hefði verið ræktað á staðnum og talaði m.a. mikið um (villta) sveppi sem hún hefði fengið úr garðinum hjá sér og notað í máltíðina. Sögunni og erindinu lauk með þeim orðum að hann efaðist um að slíkur sjálfsþurftarbúskapur gæti fætt þjóðina.
Oddný segir þetta sjónarmið lýsa töluverðu skilningsleysi á lífrænni ræktun. „Ég efast um að maðurinn hafi nokkra hugmynd um hvað lífrænn búskapur eða lífræn matvæli eru […],“ bætti hún svo við en svo virðist sem ráðherrann hafi ruglað saman sjálfþurftarbúskap og lífrænni framleiðslu."
Þar sem "hæstvirtur" auðlinda- og umhverfisráðherra (verkefnisstjóri landbúnaðardeildar ríkisins) sér ekki mörg tækifæri í framleiðslu og neyslu lífrænna matvæla langar mig til að skjóta að honum hugmynd um hvernig hægt væri að skapa fjölmörg störf og jafnframt stuðla að stóraukinni sjálfbærni, bættri heilsu landsmanna og betri framtíð fyrir okkur landsmenn og afkomendur okkar.
Mikið hefur t.d. verið rætt um stóriðju á Bakka við Húsavík og hafði fyrrverandi ríkistjórn Steingríms og Jóhönnu lagt til 3000 milljónir í uppbyggingu aðstöðu á Bakka svo hægt væri að setja þar niður kísilverksmiðju (3 milljarðar kr). Fyrir þessa fjárhæð (skattpeninga okkar - eigenda Íslands) myndu skapast 300 störf á ársgrundvelli sem þýðir 100 millj. kr. pr. starf. Ef við gefum okkur að meðallaun starfsmanna kísilverksmiðjunnar (sem verður væntanlega í erlendri eigu og mun þar af leiðandi ekki greiða tekjuskatt á Íslandi ekki frekar en álverin) séu 500,000 á mánuði (sem er mjög ríflegt) eða 6,250,000 á ári og hver einstaklingur greiði af þessum launum 45% í skatta eða 2,812,500 á ári mun það taka okkur ca. 106 ár að greiða okkur þessa upphæð til baka í sköttum.
Auðvitað er hið besta mál að skapa atvinnu enda þarf fólk að hafa atvinnu til að hafa í sig og á en ef verkefnisstjóri einkafyrirtækis væri með þetta verkefni og myndi leggja til þesssa fjárfestingu ásamt arðsemisútreikningum við stjórn félagsins (þ.e. að eyða 3 milljörðum af peningum fyrirtækisins) með "break even point" á 106 árum myndi sá hinn sami ekki halda starfi sínu mjög lengi innan einkageirans þar sem framleigðarkröfur hjá einkafyrirtækjum er töluvert hærri.
3000 milljónir kr. er ágætis peningur
og mætti t.d. nota hann á eftirfarandi hátt.
Við (fólkið í landinu) leggjum til þennan pening til byggingar á sjálfbærri risa-gróðurhúsarparadís á Bakka við Húsavík þar sem markmiðið er að framleiða fjölbreytt úrval lífrænt ræktaðs grænmetis og ávaxta fyrir landsmenn og til útflutnings (svipað og Eden í Hveragerði í gamla daga nema bara miklu miklu stærra). Gróðurhúsið er hægt að gera algjörlega sjálfbært með því t.d. að rækta iðnaðarhamp sem hægt er að vinna Ethanol úr og nota á þær vélar og tæki sem notuð eru við verksmiðjuna (en sem dæmi má nefna að Henry Ford framleiddi bíl fyrir um 100 árum sem gekk á Hampolíu).
Risagróðurhúsaparadís á Bakka við Húsavík. |
Við Íslendingar eigum mikið af rafmagni en slíkt gróðurhús þyrfti brot af því rafmagni sem álver eða kísilverksmiðjur þurfa. Verðið á rafmagni til þessara gróðurhúsa ætti að vera hægt að selja þangað á nánast kostnaðarverði þar sem hagnaðurinn kæmi til baka í formi ódýrs grænmetis og ávaxta ásamt útflutningstekjum. Hægt væri að fara t.d. í samstarf við Whole Foods Market í USA um sölu og markaðsetningu á afurðum verksmiðjunar en möguleikar okkar Íslendinga á þessu sviði eru miklir þar sem við eigum ódýra orku, eitt besta vatn í heimi og frábært fólk til að vinna verkið. Einnig væri hægt að setja af stað þróunarverkefni með Landsvirkjun þar sem markmiðið væri að framleiða allt rafmagn á staðnum með vindorku eða öðrum orkugjöfum þar sem markmiðið væri að leggja ekki meira land undir virkjanir.
Þegar framleiðslan er kominn í fullan gang og farin að standa undir sér gæti eignarhald hennar færst til starfsmanna gróðurhússins og eignarhluturinn skiptast jafnt á milli allra sem þar vinna. Fyrirtækið myndi endurgreiða ríkissjóði upphaflegu fjárhæðina ásamt vöxtum. Góður hluti af umframhagnaði fyrirtækisins myndi hins vegar alltaf renna í sjóð sem væri notaður til að græða upp þau landsvæði sem liggja undir skemmdum og/eða er búið að að eyðileggja af mannavöldum. Fyrirtæki eru jú ekkert án starfsmanna sinna og við fólkið í landinu eigum að nota skattpeninga okkar til að tryggja að fjárfestinginn sitji eftir hjá þeim sem vinna verkið. Arður okkar hinna verður í formi lægra vöruverðs og leikskólar/skólar geta boðið upp á eins mikið af grænmeti og ávöxtum og þeir vilja.
Þetta gætum við svo gert á sex öðrum stöðum á landinu (eða samtals sjö verksmiðjur og engin yrði eins) og ættum þar af leiðandi að geta skapað gríðarlega verðmæta vöru sem myndi skila öllum þeim sem taka þátt auknum lífsgæðum og við myndum skilja eitthvað eftir fyrir afkomendur okkar. Mætti vel hugsa sér að næsta verksmiðja yrði sett í Helguvík en þar fyrir er bygging sem hægt væri að koma af stað framleiðslu í á mjög skömmum tíma, en Suðurnesjamenn þurfa nauðsynlega á nýjum atvinnutækifærum að halda.
En byrjum bara á Bakka við Húsavík. Byggingin yrði hönnuð af íslenskum hönnuðum og arkitektum en þar vantar einnig störf þar sem lítið hefur verið gert fyrir þann hóp en við erum búin að útskrifa töluvert mikið af fólki í þeim geira undanfarin 10-15 ár og fæst hafa þau vinnu við það sem þau lærðu. Það sem farið yrði fram á við hönnuði byggingarinnar er eingöngu það að hún falli vel inn í landslagið og hún yrði hönnuð sem "skartgripur" á móður okkar jörðinni en við Íslendingar erum búnir að setja niður nógu margar mjög "ljótar" verksmiðjur víðs vegar um landið. Það kostar ekkert meira að láta framleiðslufyrirtæki líta fallega út og vera í samhljómi við umhverfið.
Ég legg til að við hönnun byggingarinnar verði stuðst við "Flower of Life" (Blóm lífsins) hönnunarfræði en þannig eru jú "geislar skaparans" í laginu, en því miður hefur okkur ekki verið kennd þessi hugmyndarfræði heldur henni haldið frá okkur (höfundur er iðnhönnuður og var ekki kennd hugmyndafræði Flower of Life heldur uppgvötaði hana sjálfur á undanförnum tveimur árum). Markmið verkefnisins ætti að vera að kynna fyrir fólki þá möguleika sem "Blóm lífsins hönnunarfræðin" hefur en margir af gömlu meisturunum notuðust við þá hugmyndafræði og er það líklega ein af ástæðum þess hversu hæfileikaríkir þeir voru. Ef börnunum okkar yrði kennd þessi hugmyndarfræði myndi það hafa stórkostlegar afleiðingar til hins betra fyrir okkur í framtíðinni.
Blóm lífsins (Flower of Life) |
Þessar "gróðurhúsaparadísir" yrðu hannaðar þannig að þær myndu einnig hýsa ferðaþjónustu/hótel þar sem lífrænt og eco túrismi yrði kynntur og verða kennslusetur fyrir erlenda aðila sem vilja kynna sér stefnu okkar Íslendinga á þessu sviði. Einnig legg ég til að hluti af hverju gróðurhúsi færi undir "útskriftarheimili" eldri borgara (fáranlegt að kalla þetta elliheimili og til háborinnar skammar hvernig hlúð er að eldri borgurum þessa lands, þetta er jú fólkið sem bjó okkur til og barðist í "eymd og volæði" til að við gætum haft það betra, gleymið því ekki) þar sem eldri borgarar landsins geta eytt ævikvöldi sínu í "Paradís". Eldri borgurum yrði gert kleift að vinna í gróðurhúsunum eins lengi og þau hafa áhuga og heilsu til og eða hafa sín svæði til að rækta eigin garð til einkaneyslu. Það mætti einnig hugsa sér að 8.-10. bekkir grunnskólanna leggi leið sína til eldri borgaranna 1-2 sinnum í viku þar sem hluti af menntun þeirra væri að kenna eldri borgurum nýja tækni og læra af þeim eldri gömlu aðferðirnar sem eru óðum að týnast.
Á Bakka við Húsavík rennur lítil á sem hægt væri að láta renna í gegnum húsið en hún myndi nýtast í áveitur og þar væri einnig hægt að búa til lítið vatn þar sem gestir gætu veitt silung í matinn gegn vægu gjaldi. Einnig yrði gróðurhúsið opið öllum þannig að hægt verði að koma með börn sín allt árið um kring og leyfa þeim að tína sjálf ávexti og grænmeti í eigin körfur og greiða þannig ennþá lægra verð fyrir mat.
Núverandi grænmetisbændur á Íslandi myndu einnig njóta góðs af þessu því eðlilegt þætti að þeir fengju rafmagn á svipuðu verði og hin stóru gróðurhúsin, enda myndi ég leggja til að þeir bændur sem eru með slíka framleiðslu í dag myndu hjálpa við að koma slíkum iðnaði á laggirnar og gætu t.d. virkað sem þróunarsetur fyrir stærri verksmiðjurnar þar sem þeir bændur eru nú þegar með þekkingu, reynslu og menntun á þessu sviði.
Þeir sem hafa hingað til flutt inn grænmeti og ávexti til landsins þurfa ekki að óttast því þá munum við fá í lið með okkur við að flytja framleiðsluna úr landi og þannig enn og aftur VINNA ALLIR!
Yfirlitsmynd af Bakka við Húsavík. |
Ávinningur skattgreiðenda yrði t.d. eftirfarandi:
1) Ódýrt, brakandi ferskt, bragðmikið og næringarríkt lífrænt ræktað grænmeti og ávextir (matarreikningur fjölskyldunnar ætti að lækka um amk. 30-50% og heilsan batna) í stað þess að kaupa innflutta oft nokkurra vikna og jafnvel mánaða gamla uppskeru.
2) Jákvæð sjálbær atvinnutækifæri fyrir Íslendinga, t.d. við: a) Ávaxta- og grænmetisframleiðslu, b) Hönnun gróðurhúss, annar bygginga og landslags, c) Byggingu gróðurhúsanna, þ.e. smiðir, rafvirkjar, píparar og svo framvegis. c) Sölu og dreifingu. d) Ferðaþjónustu.
3) Lægri skattar þegar til lengri tíma er litið.
4) Ekki fleiri virkjanir þar sem næg orka ætti að vera til í þessi gróðurhús og þannig verndum við náttúruna.
5) Auknar gjaldeyristekjur Íslands.
6) Heilbrigðari Íslendingar, lífrænt ræktað grænmeti og ávextir eru undirstaða heilbrigðis.
7) Tryggjum sjálfbærni Íslands með framtíð afkomenda okkar í huga.
Nú hvet ég þig "hæstvirtur" auðlinda- og umhverfisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson að eigna þér þessa hugmynd þar sem þér virðist skorta hugmyndir um hvernig þú getir stuðlað að sjálbærum hagvexti fyrir land þitt og þjóð. Og ef þú vilt raunverulega hjálpa bændum til að gera bú sín arðbærari, þá legg ég líka til að þú kynnir fyrir þeim möguleika iðnaðarhamps. Úr iðnaðarhampi er t.d. hægt að vinna, textíl, pappír, ethanol, prótein, trefjar og svo lengi mætti telja. Skv. grein sem skrifuð 1938 og birtist í Popular Mechanics sem hét "Billion dollar crop" var fjallað um arðsemi iðnaðarhamps til framtíðar en þar sem hampurinn er mikil ógn við olíu- og lyfjaiðnaðinn þá tókst þeim að banna iðnaðar- og lyfjahamp en sem betur fer eru Bandaríkjamenn búnir að sjá í gegnum ruglið og eru byrjaðir aftur að rækta og framleiða úr hampi.
Að lokum vil minna þig og aðra alþingismenn Íslands á að þið eruð reka fyrirtæki okkar Íslendinga og við viljum gjarnan fara að fá arð af fyrirtækinu okkar ekki bara endalausan kostnað, því ekki vantar auðlindirnar, hugvitið, fólkið og hugmyndirnar og á landinu einungis 320.000 hræður.
Ef "hæstvirtur" auðlinda- og umhverfisráðherra sér ekki tækifæri í þessu legg ég til við ykkur, kæru samlandar mínir, að við gerum þetta bara sjálf. Hægt er að koma verkefninu af stað ef við myndum t.d. ná saman 10,000 Íslendingum til að fjárfesta í fyrstu verksmiðjunni fyrir um 50 þús á mann. Þannig myndum við eignast jafnan hlut í verksmðjunni en landsmenn myndu líta á þessar litlu 50 þús sem fyrirframgreiðslu í lægri matarkörfu og bjartari framtíð fyrir afkomendur okkar.
Ekki tel ég mig með nokkru móti vera búin að leysa þetta í alla staði en ég er hins vegar sannfærður um að nóg sé til af hæfileikaríku fólki á landinu til að láta þetta verða að veruleika.
Takk takk
Pálmi Einarsson
Höfundur er fyrrverandi þróunarstjóri Össurar hf. á Íslandi og í Bandaríkjunum (Director og Vice President of Research and Development) með 20 ára reynslu í vöruþróun og hönnun á alþjóðamarkaði og rekur í dag eigin hönnunarfyrirtæki í Reykjavík.
Höfundur er fyrrverandi þróunarstjóri Össurar hf. á Íslandi og í Bandaríkjunum (Director og Vice President of Research and Development) með 20 ára reynslu í vöruþróun og hönnun á alþjóðamarkaði og rekur í dag eigin hönnunarfyrirtæki í Reykjavík.