Ég elska mig samt - hugleiðing dagsins frá Guðna okkar
Það er mikill munur á því að gera eitthvað af því að ég elska mig eða gera eitthvað af því að utanaðkomandi hugmynd eða viðhorf telur mér trú um að ég verði að gera það.
Þetta er það sem er auðveldast að flaska á – að ég get aldrei farið djúpt inn í líf í velsæld þegar ég er ekki tilbúinn að segja, af öllu hjarta:
„Ég elska mig samt."
Þetta er tvíbent sverð. Þú öðlast ekki heimild til velsældar fyrr en þú skapar umgjörðina og þú skapar ekki umgjörðina fyrr en þú gefur þér heimild til velsældar.
Og hvað er nóg til að byrja? Að í þér búi pínulítið fræ sem trúir því að þú megir öðlast heimild. Þegar þú notar það fræ til að búa til umgjörðina byrja ný ferli að snúast þér í hag. Velsældin hefst.
Ég er tíu kílóum of þungur – ég elska mig samt.
Ég á erfitt með að ná endum saman – ég elska mig samt.
Ég er eins og ég er – ég elska mig samt.
Það er allt í drasli heima hjá mér – ég elska mig samt.