„Ég er með kvíðahnút í maganum í hvert sinn sem ég sæki dóttur mína“
Það er ekki út af mömmu hennar, heldur eiginkonu minni. Ég veit aldrei hvaða móttökur dóttirin fær. Stundum heilsar konan mín henni ekki og ef það gerist er það í áhugalausum mæðutóni. Aðfinnslur um hvar hún setur töskuna og skóna fylgja venjulega á eftir. Hún fær líka að heyra það ef hún klárar ekki mjólkina úr skálinni með mjólkurkorninu, það fá stjúpbörnin mín líka en umburðarlyndi móður þeirra er meira og tónninn annar.
Dóttir mín fær ósjaldan skilaboð frá konunni að hún tilheyri ekki fjölskyldunni, þó hún orði það ekki. Henni þykir til dæmis sjálfsagt að ættingjar utan að landi fái afnot af herbergi dóttur minnar, hvort sem hún er hjá okkur eða ekki. Þegar ég mótmæli, fæ ég að heyra að dóttir mín „búi ekki hjá okkur“ hún sé bara á heimilinu nokkra daga í mánuði. Hún sé meira eins og gestur en heimilismeðlimur. Ég er þessu algerlega ósammála, auðvitað á dóttir mín heima hjá okkur líka. Ég finn reiðina, já og sorgina, krauma í mér.
Sjaldan eru myndir eftir hana eða skraut sem hún kemur með úr skólanum sett á ísskápinn eins og myndir hinna barnanna og sömu reglur virðast ekki gilda um dótið hennar og þeirra. Þau fá að vaða í það þegar hún er ekki heima, en eigi að spyrja hvort annað vilji þau fá eitthvað lánað. Ósjaldan eru geisladiskarnir hennar ekki á sínum stað þegar hún kemur til okkar. Finn ég að hún er sár en segir ekki neitt.
Þegar hún getur ekki sofnað og lít ég til hennar, en svo lítið beri á. Konan mín segir hana ekki vera smábarn og hún eigi ekki að stýra heimilislífinu þegar hún kemur. Rétt eins og tilvist dóttur minnar eigi ekki að hafa neitt vægi í mínu lífi. Hún er líka sífellt með athugasemdir á mig sem föður en bara sem föður hennar, en ekki hinna barnanna á heimilinu. Ekki veit ég hvað konan mín segi ef ég gerði það sama við hana.
Ég bið ekki konuna mína fyrir hana þegar ég þarf að fara eitthvað á kvöldin. Dóttirin finnur spennuna á heimilinu og er á nálum þegar hún sér eitthvað fararsnið á mér. Ég reyni því oftast að taka hana með mér eða fá pössun fyrir hana hjá mömmu. Það er heldur ekki jafn sjálfsagt að dóttir mín komi með í sumarfríin, eins og hennar börn.
Ég er hundleiður á því að það þurfi allt að fara í háaloft á heimilinu þurfi að ræða eða gera eitthvað fyrir dóttur mína, en það er allt svo sjálfsagt sem snýr að hennar börnum. Framkoma konunnar minnar er farin að bitna á samskiptum mínum við hana og hennar börn sem annars hafa verið mjög góð. Mér líður eins og ég sé í framhjáhaldi með dóttur minni þar sem ég fer á bak við konuna mína með ýmislegt er varðar hana. Það versta er að er að ég get ekki talað um þessi mál við konuna mína án þess að allt fari í háa loft og hún segir:
Á nú að gera mig að vondu stjúpunni?
Einmana faðir og „vonda stjúpan“ er ekki góð blanda, hvorki fyrir fullorðna né börn sem eru eins og barómet á líðan foreldra. Allar fjölskyldur eiga möguleika á að lifa góðu lífi, óháð fjölskyldugerð. Sumar þurfa meiri upplýsingar og stuðning en aðrar þegar tekist er á við verkefni sem þær þekkja ekki eða eru illa undir búnar, og stundum frá fagfólki.
Að hlaupa í vörn, ræða ekki málin, draga sig út úr samskiptum, fara í felur, verða enn gagnrýnni og neikvæðari er ekki vænleg leið til að byggja upp gott fjölskyldulíf. Í vel starfhæfum fjölskyldum er tekið á vandamálunum fljótt, í stað þess að leyfa þeim að safnast upp. Það er ekki vandamál að upp komi ágreiningur heldur ef ekki er á honum tekið.
Hver og einn þarf að axla sína ábyrgð á stöðunni og hafa í huga – að öll börn eru mikilvæg!
Byggt á „Bréfi frá föður“ á stjuptengsl.is