Fara í efni

Egó - hugleiðing Guðna á mánudegi

Egó - hugleiðing Guðna á mánudegi

Skortdýr?

Skortdýrið er það sem sumir kalla egó – afstaða, dómur, gagnrýni, hól, mikilmennskubrjálæði, stolt. Skortdýrið er öll afstaða og viðhorf sem við tökum persónulega; það er þetta „ég um mig frá mér til mín“.

Skortdýrið er skortur á ljósi og þar ræður vanþakklætið. Það er skrímslið sem þrífst á vöntuninni og telur sér trú um að þú sért betri eða verri. Skortdýrið starfar alltaf í huganum en ekki hjartanu og þú ert ekki skortdýrið þitt frekar en hundurinn þinn eða önnur gæludýr. Sá sem lifir á forsendum skortdýrsins lifir aðeins í einni takmarkaðri vídd tilvistarinnar – hann er talandi höfuð.

Hjá skortdýrinu vantar alltaf eitthvað – það lifir eins og önnur hvatvís dýr. Þú getur alltaf fundið eitthvað í eigin fari til að vera óánægður með. Skortdýrið þrífst eingöngu á blekkingu og eini tilgangur þess er að viðhalda efanum sem réttlætir tilvist þess – að viðhalda blekkingu skortsins.